Í dag var undirrituð mikilvæg samstarfsyfirlýsing ríkis og borgar um virkjun atvinnulauss ungs fólks. Þegar er komin góð reynsla á námskeið sem Hitt húsið og átak Félags - og tryggingarmálaráðuneytis um ,,Ungt fólk til athafna" hafa staðið fyrir. En betur má ef duga skal. Atvinnumálahópur borgarinnar undir minni forystu hafði frumkvæði að því að leiða saman hesta stofnanna borgarinnar í nokkrum hverfum, framhaldsskóla á sama stað og ekki má gleyma Reykjavíkurdeild Rauða Krossins sem hefur sýnt þessu verkefni lofsverðan áhuga og lagt gott til.
Ávöxtur þessa frumkvæðis er hvað þroskaðastur í Breiðholtinu þar sem Frístundamiðstöðin Miðberg, FB, Námsflokkar Reykjavíkur, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Rauði Krossinn og Gerðuberg hafa nú tekið höndum saman á hverfavísu og munu bjóða fram margvíslega krafta sína til að virkja ungt atvinnulaust fólk í Breiðholti til þátttöku. Fleiri hverfi eru í startholunum og vonandi verður mögulegt að ná til allra atvinnuleitandi ungmenna í þeirra næsta umhverfi á komandi mánuðum.
Það hefur verið ákaflega gefandi að fylgjast með samstarfinu þróast og enn og aftur sannfærist ég um að framtíð þjónustu borgarinnar á heima úti í hverfunum, á vettvangi, þar sem þekkingin á þörfum íbúanna býr. Hún býr ekki bara á miðlægum grunni; hún leysist úr læðingi á heimaslóð þar sem börn breytast í krakka, svo í unglinga og loks í fullorðið fólk. Starfsfólk borgar og ríkis sem sinna margvíslegri þjónustu úti í hverfum borgarinnar vita best hvernig þeirra þörfum er mætt.
Þess vegna talar Samfylkingin fyrir minna bákni og flutning þjónustu út í hverfin - því það einfaldlega virkar.
Ég óska Breiðhyltingum til hamingju með daginn og hlakka til að starfa áfram með þeim að fjölbreyttum verkefnum á heimaslóð.
11 mars 2010
Gegn atvinnuleysi ungs fólks - á heimaslóð
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli