10 apríl 2010

Rökstólaparið um golfvöllinn

Einn af skemmtilegustu föstu liðum í Fréttablaðinu er rökstólaparið. Rökstólapar vikunnar er hin beitta og launfyndna Lára Björg og Bragi Ólafsson. Ég má til með að benda á það sem þau hafa að segja um golfvallarútspil Hönnu Birnu í tengslum við umræðuna um listamannalaun og stöðu foreldra barna með sérþarfir.

Hvað finnst ykkur um golfvöllinn sem Reykjavíkurborg ætlar að setja 230 milljónir í?

Lára: Ég tek þessum 230 milljónum mjög persónulega. Sem móðir barns með sérþarfir finnst mér þetta út í hött. Maður reynir að sýna skilning á endalausum niðurskurði, ég sit á fundum með kennurum og þroskaþjálfum og þar er stöðugt verið að minna á niðurskurðinn. Maður kinkar kolli og sýnir skilning. Síðan kemur frétt um að borgin ætli á sama tíma að eyða 230 milljónum í golfvöll. Ég verð sár og móðguð fyrir hönd sonar míns og barnanna okkar allra. Ég skammast mín fyrir að vera fullorðin og þætti réttast að leyfa börnunum okkar að ráðstafa þessu fé í staðinn.

Bragi: Í fyrsta lagi kemur þetta mér svo sem ekkert á óvart. Ég hef ekki mikið álit á þessari borgarstjórn, meðal annars vegna þess hvernig hún komst til valda, sem allir virðast búnir að gleyma. En það sem mér datt fyrst í hug var hin árlega, og sérkennilega umræða um listamannalaun, sem kemur náttúrulega aðallega úr einni átt. Þar er um að ræða svipaða upphæð og á að eyða þarna í grasvöll og nokkrar holur.

Lára: Svo eru þeir atvinnulausu hafðir að fíflum þegar þeir eru dregnir inn í þessa umræðu. Að þeir eigi svo bágt en geti nú glaðst yfir því að geta farið að spila golf. Það er algjör rökleysa.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég verð nú að segja að eftir að hafa lesið vandlega tölvupósta Dags sem voru opinberaðir en þar kemur fram að Dagur samdi ásamt Steinunni Valdísi við GR og segir að "borgin verði að standa við sitt." Það renna á mig tvær grímur og ég er hissa á innihaldslausum spuna Dags. Ég hélt hann væri ekki svona en þessi gögn sýna staðreyndir sem ég helst hefði ekki viljað vita það segi ég satt.

Svanur J. K sagði...

Ég er fyrir miklum vonbrigðum með Dag B. Eggertsson eftir að tölvupóstar hans við GR voru gerðir opinberir í dag. Ég hikaði við að lesa þá en lét mig hafa það og er ekki ánægður með það sem ég sá þar. Sérstaklega í ljósi þeirra orða sem hann hefur látið falla. Eins og hann sjálfur orðar það í póstunum: "borgin verður að standa við sitt." Ekki gott mál fyrir Dag eða fyrir Samfylkinguna því miður. Ég verð bara að segja það að ég vildi að þú leiddir listann Oddný.

Nafnlaus sagði...

Sæl

Hvernig má skilja þennan málflutning hjá þér Oddný?

Þýðir þetta að á meðan það er verið að skera niður hjá leikskólum og grunnskólum verður ekkert aukabruðl?

Þarf t.d. Vilhjálmur og Hanna Birna að hafa einkabílstjóra?

Þarf að halda allar þessar veislur á vegum borgarinnar.

Hvernig verða íþróttir flokkaðar í framtíðinni?

T.d.

Óþarfar: Golf, skotfimi.

þarfar: handbolti(silfursjóðurinn), knattapyrna, körfubolti.

Nafnlaus sagði...

Var það ekki flokksystir þín sem gerði upprunalega samninginn?

Er eitthvað að því að standa við gerða samninga?

Oddný er sagði...

Á þessum fundi sem Dagur hélt með fulltrúum íþróttafélaganna kom mjög skýrt fram hjá þeim öllum að fullur skilningur var á því að fyrrum framkvæmdasamningar yrðu settir á ís.

Fjölnismenn, Fylkismenn, ÍR-ingar og Frammarar hafa allir unnið farsællega að því með borginni að við þessar erfiðu aðstæður skuli forgangsraðað í þágu barna, unglinga og þeirra sem efnaminni eru. Horfa verður á það að í sumum hverfum er engin, alls engin aðstaða fyrir börn og ungmenni til frístunda- og íþróttastarfs. Úr því hefur verið bætt eftir fremsta megni og eftir aðstæðum. Það er í raun aðdáunarvert að finna fyrir skilningi íþróttafélaganna og hvernig þau vilja forgangsraða í þágu barna og ungmenna. Skilaboðin á fundi Dags með íþróttafélögunum voru aðallega þau að frístundakortið héldi sér, og það blessunarlega varð ofan á.

Eins lögðu félögin áherslu á að borgin og íþróttafélögin leituðu allra leiða til að gera frístundir og íþróttastarf sem ódýrast eins og sakir standa - þess vegna lagði Samfylkingin fram tillögu um ódýrari frístundir. Og borgin stóð við sitt, við héldum frístundakortinu í sömu upphæð og um það var þverpólitísk sátt.

Að túlka orð Dags um að borgin ætti að standa við sitt sem svo að standa ætti við gamla framkvæmdasamninga er út í hött. Um það geta allir þeir sem sátu þennan fund vitnað.

Veislur og bílstjórar mega sannarlega verða fyrir niðurskurðarhnífnum. Í kreppu kemur í ljós úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir, við viljum forgangsraða í þágu þeirra hverfa sem verst standa þegar kemur að frístunda- og íþróttaaðstöðu fyrir börn og ungmenni - sem og viljum við tryggja að ekkert barn þurfi að hætta íþróttaiðkun vegna efnahagserfiðleika fjölskyldunnar.

Nafnlaus sagði...

Hvað sem flokkapólítík líður þá er það fáránleg forgangsröðun að eyða hundruðum milljóna í golfvöll þegar verið er að skera niður í velferðarkerfinu, eins og gagnvart börnum með sérþarfir. Það hlýtur hver maður að sjá.
Ég veit alla vega, eftir þetta útspil, hvaða flokk ég ætla að kjósa í vor. Þakkir til þín Oddný.

Nafnlaus sagði...

Fjöldi iðkenda í golfi hefur aukist um 75% á síðustu 15 árum. Golfsamband Íslands er næst stærsta sérsamband innan ÍSÍ, einungis KSÍ er stærra.

Finnst fólki það skjóta skökku við að borgin komi til móts við GR eins og gert er við önnur íþróttafélög?

Er minnihlutinn að gefa í skyn að hann sé á móti íþróttum og þeirri staðreynd að íþróttir eru góð forvörn í uppeldisstarfi barna.

Alltaf hægt að setja tölur í samhengi við aðra hluti. Vissulega má deila um hvort ekki væri þarfara að ríkisstjórnin hætti við milljarð á ári í aðildarviðræður við ESB og setti peninginn frekar í aðkallandi mál fyrir borgarana?

Það mætti líka spyrja sig af hverju ríkisbáknið er að þenjast út um ca. 3% á þeim tímum þegar niðurskurður er að eiga sér stað á flestum öðrum stöðum, s.s. í heimilisrekstri og hjá einkafyrirtækjum.

Hvað með peningastefnunefnd, bankasýslu ríkisins, fjölmiðlastofu, hagsmunastofu heimilanna etc. Er virkilega nauðsynlegt að vera með einhverja skunka í peningastefnunefnd þegar nóg er af fólki til að taka ákvörðun um að gera ekki neitt?

Því miður fyrir Dag og co. þá veðjuðu þeir á rangan hest þarna. Golf er líklega eitt það vinsælasta sem fyrirfinnst á Íslandi, og fólk er alveg tilbuið að sjá borgina leggja 250 milljónir í svona framkvæmdir af og til.