Einfaldlega einn besti mótmælasöngur síðustu ára.
31 október 2008
Með fingurinn á þjóðarpúlsinum
Um þetta ætti að ríkja nokkuð góð sátt.
30 október 2008
Af stelpusigrum, kreppumat og fréttamati
Stelpurnar fara á EM. Og við förum í ESB. Við munum ekki ganga þangað inn bein í baki - verðum meira svona borin inn á sjúkrabörum. En það er eins með lífið og fótbolta.
23 október 2008
Áfram stelpur
Í dag er kvennafrídagurinn, 24. október.
Sjálfsvirðing
Tilfinningin sem þjakar marga landsmenn þessar vikurnar er vond. Okkur finnst sjálfsvirðing okkar engin. Íbúar sem tóku lítinn sem engan þátt í sukkinu, hugsuðu ágætlega um börnin sín, fjölskylduna og fjárhaginn er svo illa svikið.
Heiðarlegt uppgjör er algjör frumforsenda þess að við getum endurheimt sjálfsvirðinguna.
Forsætisráðherra sagði lítið í Kastljósinu í gær. Tilfinning okkar sem illa erum svikin er óbreytt. Það verður að eiga sér stað uppgjör, hið minnsta loforð um uppgjör, loforð um að e-ir verði dregnir til ábyrgðar.
Annars höfum við tapað öllu. Peningum, orðstír og æru.
En við getum enn endurheimt sjálfsvirðinguna ef nauðsynlegt uppgjör - með óháðum aðilum - fer í gang.
Kröftugar heitstrengingar (sem hefðu átt að heyrast strax, hátt og snjallt og helst á hverjum degi og á hverjum blaðamannafundi) um heiðarlegt uppgjör þar sem engu yrði eirt er óendanlega mikilvægt.
Nauðynlegar tilfærslur embættismanna sem gert hafa ófyrirgefanleg mistök upp á síðkastið myndu sannarlega hjálpa til.
Annars sýður upp úr.
Listin að læra
Anne Bamford heldur fyrirlestur í KHÍ í dag um gildi listmenntunar. Anne er vel kunnur prófessor og hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar. Í rannsóknum sínum ávarpar Anne mikilvægi sköpunar í skólastarfi og áhrif hennar á nýsköpun, félagslega þætti, jafnræði og fjölbreytileika.
Hún gerði meðal annars fræga rannsókn fyrir UNESCO á áhrifum lista á skólastarf sem hún lýsir í bókinni The Wow Factor. Rannsóknin náði til rúmlega hundrað landa og markaði mikil tímamót fyrir alla þá sem berjast fyrir frekari sköpun í skólastarfi.
Bókin hefur verið á náttborðinu hjá mér um hríð og var reyndar, ásamt ,,Vegvísi UNESCO um listfræðslu" kveikjan að skólastefnu fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal sem mótuð var í hundraðadagameirihlutanum.
Á morgun verða svo málstofur þar sem ég meðal annarra mun gera heiðarlega tilraun til að lýsa sýn minni á gildi lista og menningar í skólastarfi.
22 október 2008
Fram og Fjölnir
Ég heyrði hjá Heimi og Hansa á Bylgjunni rétt í þessu að Fjölnismenn og Frammarar hefðu slitið sameiningarviðræðum. Ástæðan mun vera sú að Fjölnismenn gátu ekki hugsað sér að nota nafnið Fram.
21 október 2008
Sigtúnshópurinn
Ein sterkasta almannahreyfing á sviði húsnæðismála sem sprottið hefur upp hér á landi er Sigtúnshópurinn. Sigtúnshópurinn var grasrótarhreyfing og náði miklum áhrifum með kraftmiklum aðgerðum í stuttan tíma.
Ókeypis inn
Góðar fréttir að berast í hús. Ákvörðun um ókeypis aðgang að söfnum borgarinnar var tekin í tíð 100 daga meirihlutans og um áramótin opnuðust dyrnar upp á gátt.
Sama þróun hefur átt sér stað í löndunum umhverfis okkur - aðsóknin eykst til muna sé aðgangseyrir enginn.
Og nú kemur sér aldeilis vel að efnahagur fólks komi ekki í veg fyrir að það njóti okkar frábæru listasafna.
Ég hvet alla til að sækja söfn borgarinnar heim. Og raunar bókasöfnin og sundlaugarnar líka fyrst kona er byrjuð að telja upp margt af því góða sem borgin hefur upp á að bjóða.
Steingrímur J + Davíð
20 október 2008
Rauðblikkandi viðvörunarljós
Ég gróf upp þetta viðtal við Kristrúnu Heimisdóttur frá 2005.
Yfirskriftin er: Rauðblikkandi viðvörunarljós (nauðsynlegt að skrolla niður lítið eitt) og á við þá uggvænlegu þróun sem þá þegar var mörgum áhyggjuefni. Nefnilega þá að allt of fáar konur voru leiðandi í mótun fjármálageirans þrátt fyrir mikla fjölgun þeirra innan deilda háskólanna sem tengjast fjármálageiranum.
Nú þegar krafan um ný gildi og nýja hugsun við endurmótun íslensks samfélags er hávær er ekki úr vegi að skoða hvernig við höfum nýtt okkar mannauð - og hvernig við nýtum hann í gjörbreyttu samfélagi næstu ára og áratuga.
Tilfinningin segir konu óneitanlega að fólk úr hugvísinda-, menntavísinda- og félagsvísindadeildum Háskólans komi til með að taka beinni og öflugri þátt í uppbyggingarstarfinu sem framundan er. Ekki síður en fólk úr viðskipta- og verkfræðideildum.
Jólympíuleikarnir nálgast
Árið 2005 hlotnaðist mér sá heiður að flytja erindi á fjölskylduþingi Félagsmálaráðuneytisins í Iðnó. Þingið var rétt fyrir jól og markmiðið var að vekja athygli á hinum sönnu gjöfum jólanna sem varla verða mældar í peningum einum saman. Erindið heitir ,,Jólympíuleikarnir" og er hér í heild sinni.
Ég legg nú ekki í vana minn að lesa gömul erindi á mánudagskvöldum en rakst á eftirfarandi klausu sem mér finnst eiga vel við í dag:
,,Rétt eins og ólympíuleikarnir eru jólin dýr - og þá er alveg sama hversu útsjónarsamt og vel skipulagt fólk er. Gjafirnar, jólatréð, fínu fötin, jólaskrautið og steikin taka sinn toll og ég þekki engan sem hefur ekki eytt aðeins meira en hann ætlaði sér á jólunum.
Margir Íslendingar eiga sand af seðlum sem þeir dreifa frjálslega í kringum sig á jólunum sem og endranær. En þeir eru líka margir sem eiga lítið og líða fyrir það í desember. Það er skuggaleg staðreynd að einstæðir foreldrar sem rétt svo tekst að láta enda ná saman, eyða samt álíka miklu í gjafir handa börnunum sínum eins og þeir sem eiga fullt af peningum. Ástæðan er auðvitað sú að enginn vill verða eftirbátur hinna, viðmiðið er sett af þeim sem nóg eiga og hinir reyna að sigla með straumnum. Auðvitað er það vel meint, það vilja allir gleðja börnin sín á jólunum.
En getur verið að íslenska þjóðin kunni ekki að fara með peninga? Kunnum við að vera rík?
Vandi fylgir vegsemd hverri eins og sagt er - og það er vissulega stutt síðan við vorum fátæk bændaþjóð með hor í nös og galtóma vasa - en ég vil kalla hina vel stæðu til ábyrgðar í þessum efnum, því það fylgir því ábyrgð að eiga pening og með því að berast á og kasta þeim í rándýrar gjafir og ríkmannlegt jólahald eru margir aðrir settir í vandasama stöðu.
Fyrir utan það hvaða lærdóm börnin okkar draga af þessari gengdarlausu eyðslu. Og það sem er svo grátbroslegt er að dýru gjafirnar staldra ósköp stutt við í höll minninganna. Ef hópur barna er inntur eftir dýrmætustu jólaminningunni kemur í ljós að hún var alls ekki dýr - hún kostaði bara ekki krónu. Það rifjast upp snjóþotuferðir, jólaball eða heimsókn til ömmu og afa í piparkökur og kakó. Jafnvel ómerkilegur músastigi kemur upp í hugann.
Ef þessi sami barnahópur er inntur eftir jólagjöfum síðastliðinna ára verður oft fátt um svör."
Áfram LRH
Ég sat fund með yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Lygilega góður árangur sem LRH hefur náð á árinu - og það hefur farið hljótt um hann.
Sérstaka athygli mína vakti sú staðreynd að umferðarslysum hefur fækkað um 15% fyrstu 8 mánuði ársins 2008 miðað við sama tíma árið 2007.
Hér er eingöngu átt við þau óhöpp þar sem slys verða á fólki - alvarlegustu umferðarslysin þar sem líf og limir okkar eru í húfi.
Þetta er gríðarlega góður árangur umferðardeildar LRH og afrakstur þrotlausrar og nákvæmrar greiningarvinnu, forvarna og eftirlits.
Það kom fram á fundinum að samkvæmt fræðunum er talið ógerlegt að fækka umferðarslysum um meira en 5% - LRH gerði gott betur.
Ekki þarf að orðlengja um þjóðhagslegan ávinning og þann sparnað sem hlýst af því að umferðarslysum fækki um heil 15% á höfuðborgarsvæðinu.
Við höfum margoft tekið undir þau sjónarmið LRH að stofnunin þurfi meira fjármagn - til að auka hlut sýnilegrar löggæslu og öryggi íbúanna úti í hverfunum.
Einhvern veginn finnst konu þeir hafa unnið til þess með þessum frábæra árangri.
Ég man þá tíð...
Það er eins og þessi texti sé margra ára gamall. En hann er þó bara síðan í júlí. Það mun líða langur tími þar til lofgreinar á borð við þessa birtast í erlendum blöðum.
Sumar voru nú reyndar að gera okkur gráhærða - sér í lagi þær sem fjölluðu um Íslendinga eins og við værum einfeldningar með mosa í naflanum og sérviskulegar matarvenjur.
Kunningi minn skrifaði BA-ritgerð um álfatrú og vegagerð fyrir hartnær áratug.
Hann fær (fékk) ennþá viðtalsbeiðnir við evrópska og ameríska fjölmiðla - og þá sem álfasérfræðingur.
Greinin er hræðilega væmin en það er þó eitthvað sjarmerandi við þessa staðhæfingu:
If butterfly wings made a sound, the fluttering would sound like the lovely Icelandic language.
Þór er flottur
Mikið óskaplega þykir mér Þór Sigfússon oft mæla skynsamlega.
Það gerði hann líka hér.
Jafnvægi
Hérna þekki ég mitt fólk.
Við endurmótun íslensks samfélags verðum við að nýta allt okkar hæfa fólk. Sé litið til hins ævaforna tákns Yin og Yang er morgunljóst að í viðskiptalífinu hefur of mikið af Yang-i verið til staðar.
Nú er runninn upp sá tími þar sem skynsemi er ofar fífldirfsku, langtímamarkmið eru ofar skammtímamarkmiðum og áhættumeðvitund ofar áhættusækni.
Við höfum hreinlega ekki efni á því að nýta ekki krafta kvenna til jafns við karla.
Hausatalning er ekki aðalmálið, né heldur að alhæfa og kenna öðru hvoru kyninu um.
Rannsóknir sýna einfaldlega að þau fyrirtæki sem hafa sem jafnast hlutfall karla og kvenna þegar kemur að stjórnun eru í betra jafnvægi en önnur.
Þetta snýr að því að hafa kjark til að hleypa nýjum gildum að, leita jafnvægis og reglu. Það jafnvægi mun ekki nást nema allir komi að borðum þar sem ráðum er ráðið.
19 október 2008
Að lokinni veislu
Airwaves lokið - og mér allri lokið um leið. Það er óneitanlega þyngra undan dansfætinum þegar komið er á fertugsaldurinn svei mér þá.
17 október 2008
Heimsborg og heimabær
Ég gekk niður Laugaveginn fyrir hádegi í dag og heyrði hvergi íslensku. Airwaves-hátíðin í fullu fjöri og bærinn troðfullur af glaðbeittu áhugafólki um góða tónlist.
Einu sinni á ári breytist Reykjavík í útlenska heimsborg. Mér líkar það vel þó heimabærinn sé ósköp notalegur svona inn á milli.
Ég ætla að þræða tónleikastaði um helgina - af nógu er að taka.
Smekklaust
Það er smekklaust af Eyþóri Arnalds að þyrla upp ryki vegna peninga sem Árborg lagði inn á peningamarkaðsreikning í sumar. Það er ábyrgðarlaust af honum að slá sér til riddara í þessu erfiða ástandi - ef ekki einfaldlega smekklaust.
Mörg sveitarfélög eiga fjármuni inn á peningamarkaðsreikningum, fólk út um allt land á fjármuni inn á peningamarkaðsreikningum.
Sem betur fer eru svona upphlaup fátíð um þessar mundir. Í Reykjavík var þverpólitísk samstaða um aðgerðaráætlun í fjármálum borgarinnar þó svo að fólk hafi auðvitað mismunandi skoðanir á því hvaða leiðir eru bestar og hver forgangsröðin sé. Borgarbúar þurfa á því að halda að við sameinumst í þessu erfiða verkefni.
Íbúar landsins þurfa ekki á ódýrum upphrópunum að halda nú um mundir.
Það heitir að ala á óöryggi.
16 október 2008
Jafnvægi milli kvenna og karla
Ég sakna þess hvað lítið er talað um mikilvægi jafnréttis og jafnvægis á þessum umbrotatímum.
15 október 2008
Grein dagsins er eftir Steinunni Valdísi
Margan lærdóm má draga af atburðum síðustu vikna og mikilvægasta lexían er sennilega sú að okkur beri að vanda til verka og láta ekki stundarhagsmuni og von um fljóttekinn gróða teyma okkur til aðgerða í blindni án þess að huga vel að afleiðingunum til lengri tíma.
Það skýtur því óneitanlega skökku við að nú séu uppi kröfur um að kasta til hliðar heildstæðu mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík vegna þess að „við höfum ekki efni á að tefja álversframkvæmdir“ eins og það er orðað. Það eru að mörgu leyti skiljanleg viðbrögð að vilja grípa tafarlaust til verka í þeirri von að draga megi með einhverjum hætti úr höggþunga þeirra áfalla sem á okkur dynja. En allra síst nú getum við leyft okkur fljótfærni og óðagot sem kann að koma okkur í koll þegar fram í sækir.
Það blasir við öllum að lög, reglur og eftirlit vantaði sárlega í aðdraganda þess að alþjóðlega lausafjárkreppan skall á og allt hrundi. Við skulum því fara að lögum nú, hversu mjög sem einhverjum kann að þykja þau þvælast fyrir framkvæmdagleði.
Ytri aðstæður hafa sjaldan eða aldrei verið óhagstæðari. Lánstraust Íslendinga er lítið nú um stundir og ekki á bætandi að veikja það með frekari lántökum til uppbyggingar og stækkunar álvera. Það væri óábyrg hagstjórn að auka skuldir í stað þess að hægja örlítið á og endurvekja traust hérlendis og erlendis. Fjárfesting okkar í áliðnaði er gríðarleg og skuldirnar miklar vegna hans. Tekjurnar eru síðan að mestu leyti bundnar við álverð sem fer hríðlækkandi. Það er því alls óvíst að álver sé okkar besti orkunýtingarkostur til framtíðar.
Það er satt að við þurfum að lifa veturinn, en við þurfum einnig að huga að komandi árum og áratugum. Styrkjum undirstöðurnar undir efnahagslífið á þann veg að þær dugi einnig börnum okkar og barnabörnum. Við höfum verið óþyrmilega minnt á ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum.
Rísum undir henni.
(Birt með góðfúslegu óleyfi Morgunblaðsins)
Fyrir opnum tjöldum
Opnir fundir þingnefnda komast líklega næst því að vera ,,hearings" - eða opnar vitnaleiðslur eins og bandaríska þingið hefur komist upp á lagið með. Fráfarandi bankastjóri Lehman Brothers fór ekki varhluta af þeim eftir gjaldþrot bankans.
14 október 2008
Hallir fólksins
Ég var í Moskvu um helgina í fylgd með bónda mínum sem fagnaði útkomu bókar sinnar á rússnesku ásamt skáldbróður Einari Kárasyni.
Framtíðin yfir grjónagrautnum
Sigurður Úlfar sendi inn langa athugasemd við síðasta pistli mínum sem ég eyddi fyrir gáleysi - ég biðst forláts á því. Þar hvatti hann mig og aðra sambandssinna til að nálgast umræðuna um ESB með haldbærum rökum og ekki sem trúarbrögð.
13 október 2008
Táknrænt
Ég reiddi fram vegabréfið á Kastrup og glaðbeittur danskur maður um fimmtugt skoðaði það í bak og fyrir. Hann horfði til mín kankvís og spurði svo hlæjandi:
,,Island? Nu må I rejse med Ökonomi, eller hvad?"
Hláturinn var aðeins of glaðhlakkalegur fyrir minn smekk en ég tók mitt vegabréf og hélt áfram göngunni. Þegar ég var komin lengra fann ég fyrir sviða í brjóstinu. Ég tók skensið raunverulega nærri mér.
(Sem er ólíkt mér því ég læt mér yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna.)
En ég hef aldrei ferðast á Saga Class.
Ekki frekar en þorri Íslendinga. En við skulum samt borga brúsann.
Og börnin okkar og líklega barnabörnin líka.
Ég mæli með grein Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu í dag. Velkomin aftur Solla, þín hefur verið sárt saknað.
08 október 2008
07 október 2008
Raunverulegir vinir
Ég tek það fram að ég vil ekki sjá þessa ríkisstjórn klofna. Ég styð mitt fólk af öllum mætti - ríkisstjórnina í heild sinni styð ég af veikum mætti.
Sextán spurningamerki og ein upphrópun
06 október 2008
Í hita augnabliksins
Það er kannski best að bíta í tunguna á sér núna og segja sem minnst.
Ég trúi því ekki
fyrr en ég tek á því að ríkisstjórnin ætli sér að kynna aðgerðaráætlun sem gerir ekki ráð fyrir samráði við verkalýðshreyfinguna.
Ég trúi því bara ekki.
Ef það er gert þá kallar það á fleiri krísur en nauðsyn krefur. Og nógu djúpt höfum við sokkið.
03 október 2008
Gott hjá kennurum
Þetta er til fyrirmyndar. Ég á lítinn fimm ára trítil og hann er býsna uggandi um ástandið - hvað þá stálpuð börn og unglingar sem geta tekið fjármál fjölskyldunnar töluvert inn á sig undir venjulegum kringumstæðum.
01 október 2008
Hækkun leikskólagjalda
Það er ekki rétt sem kemur fram í máli forsvarsmanns Hjallastefnunnar í 24 stundum í dag að sjálfstætt reknir leikskólar í borginni fái lægri niðurgreiðslu en borgarreknir. Þvert á móti gerði t.a.m. Laufásborg glimrandi góðan samning við Reykjavíkurborg auk þess að fá afhentan rótgróinn hverfisleikskóla til einkareksturs. Laufásborg er með mun betri samning en flestir aðrir sjálfstætt reknir skólar og greiðslur til sjálfstætt rekinna leikskóla hafa hækkað til muna á þessu kjörtímabili.
Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti meirihluti leikskólaráðs að ganga til samninga við Hjallastefnuna og fela þeim rekstur Laufásborgar. Við í Samfylkingunni greiddum atkvæði á móti vegna þess ákvæðis í samningnum að Laufásborg mætti hækka leikskólagjöldin. Fyrst í stað fylgdu leikskólagjöldin öðrum leikskólum en nú hefur Laufásborg ákveðið að hækka þau um 15%.
Að mínu mati hafa sjálfstætt reknir skólar borð fyrir báru til að mæta óvæntum útgjaldaliðum. Þeir eiga ekki að þurfa að hækka gjöld til foreldra og í þessu árferði finnst mér það með öllu ótækt. Ég hef í sannleika sagt áhyggjur af því að þessi meirihluti - sem svo einarðlega gengur fram í þágu sjálfstætt rekinna leikskóla á kostnað uppbyggingar almennra leikskóla - geti vel hugsað sér að gefa gjaldtöku í sjálfstætt reknum skólum algjörlega frjálsa.
Það væri gott að fá staðfestingu á því að svo er ekki.
Annars er hér að finna margvíslegan fróðleik um Hjallastefnuna, matsskýrslu um leikskóla sem starfar eftir hjallískri stefnu.