10 september 2008

Laufásborg

Í dag var á fundi menntaráðs samþykkt umsókn Hjallastefnunnar um stofnun sjálfstæðs rekins grunnskóla í Reykjavík. Samfylkingin lagðist ekki gegn umsókninni, ekki frekar en Samfylkingarfólk hefur gert í öðrum sveitarfélögum. Nægir þar að nefna Hafnarfjörð þar sem Hjallastefnan skaut rótum árið 1990 með stuðningi jafnaðarmanna og það er sagnfræðilega skemmtilegt að rifja upp að þá var Sjálfstæðisflokkurinn alfarið á móti þessari nýju skólastefnu!

Prinsipp Samfylkingarinnar varðandi sjálfstæðan rekstur í skólakerfinu eru einföld.

1) sjálfstætt reknir skólar eiga ekki að innheimta skólagjöld. Öll börn eiga að sitja við sama borð, óháð efnahag. Þannig er það í Hafnarfirði og gengur vel.

2) þótt sjálfstætt reknir skólar auki á fjölbreytileika innan skólakerfisins koma þeir ekki í staðinn fyrir borgarrekna hverfisskóla. Sveitarfélögin geta aldrei skorast undan þeirri ábyrgð sinni að reka góða hverfisskóla í öllum hverfum, sjálfstætt reknir skólar eru kærkomin viðbót við þá.

3) stærstur hluti skóla á að vera í húsnæði í eigu borgarinnar, til að tryggja stöðugleika í rekstri og góða meðferð fjármuna. Það eru mörg dæmi þess að húsnæði skóla sem byggt hefur verið fyrir tilstilli einkaframtaksins, hefur reynst sveitarfélögum dýrari kostur en ef sveitarfélagið sjálft hefði byggt og rekið skólann. Þá er betra heima setið en af stað farið því okkar hlutverk er að fara vel með sameiginlega sjóði borgarbúa.

Senn verður vonandi gengið til þess verks að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík. Í þeirri vinnu mun koma í ljós hvort meirihlutinn er sammála sjónarmiðum Samfylkingarinnar - og hvort sátt náist um það að allir skólar í borginni standi öllum börnum í borginni til boða, óháð efnahag og ytri aðstæðum fjölskyldna.

Því skal þó til haga haldið að grunnskóli á Laufásborg getur einvörðungu verið þar tímabundið því húsnæði Laufásborgar á að nýta undir leikskólastarf. Næg er eftirspurnin eftir leikskólum, ekki síst hér í vesturhluta borgarinnar. Annað sem er leiðinlegur blettur á afgreiðslu málsins er sú staðreynd að umsóknin barst hræðilega seint frá Hjallastefnunni, og það þó forsvarsfólk hennar hafi verið í stöðugum viðræðum við meirihlutann meira og minna allt árið. Slíkt sleifarlag er engum til framdráttar og skapar óþolandi óvissu fyrir foreldra og börn á Laufásborg.

Faglegri vinnubrögð takk fyrir!

En ég óska börnum, starfsfólki og foreldrum á Laufásborg velfarnaðar í leik og starfi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heil og sæl Oddný!
Ég hef nú bara setið tvo fundi með þér í leikskólaráði - sem varamaður - en verð að segja að það er afar skemmtilegt að sitja fundi með þér!

Allavegafram að þessu!

Finnst til fyrirmyndar hvernig þú kemur sjónarmiðum þínum og bókunum - æsingarlaust- strax á framfæri við þitt fólk - og öll okkur hin!

Ég vildi ssvo gjarnan geta gert hið sama í Velferðarráði - en þar er svo stór hluti mála þanig vaxinn að það er erfitt að tæða þau á opinberum vettvangi - eðli málins vegna!

Ekki það að sumir eru ekki mikið að láta eðlilegan trúnað flækjast fyrir sér þar á bæ!

En enn og aftur - takk fyrir málefnalega og skemmtilega fundi - og skilmerkilega útlistun á því sem þið í minnihlutanum eruð að bóka.

Gott mál!

Nafnlaus sagði...

PS.
Gleymdi alveg erindinu þegar ég var að mæra þig áðan!!!!

Innilega sammála þér þegar þú segir:;

"Því skal þó til haga haldið að grunnskóli á Laufásborg getur einvörðungu verið þar tímabundið því húsnæði Laufásborgar á að nýta undir leikskólastarf...
... Annað sem er leiðinlegur blettur á afgreiðslu málsins er sú staðreynd að umsóknin barst hræðilega seint frá Hjallastefnunni, og það þó forsvarsfólk hennar hafi verið í stöðugum viðræðum við meirihlutann meira og minna allt árið. Slíkt sleifarlag er engum til framdráttar og skapar óþolandi óvissu fyrir foreldra og börn á Laufásborg."

Hins vegar fannst mér þetta ekki vera nægileg ástæða til þess að leggjast gegn málinu - en við verðum að undirbúa framhaldið næsta vetur betur!

Ekki satt?

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra þetta kæra Oddný. Ég vil þó bæta nokkru við þar sem ég er skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirðinum góða... Hér eru ekki skólagjöld en það er ekki vegna þess að bærinn seti nægjanlegt fjármagn til starfsins enn sem komið er heldur vegna þess að við trúum því að Samfylkingarfólk sé við það að taka skrefið til fulls og bjóði foreldrum barna í sjálfstæðum skólum upp á sömu kjör þ.e. engin skólagjöld! En biðin er löng og ströng því verður ekki neitað... Annað með seinagang umsóknar frá Hjallastefnunni var það ekki miklu frekar það að það var alltaf verið að skipta um fólk sem réði?????? sem tafið málið all verulega :-)

En skólastarf Barnaskólans í Hafnarfirði gengur afburðarvel þó ég segi sjálf frá þrátt fyrir þröngan kost :-) Kærar kveðjur og ýttu nú betur við þínu fólki svo hlutrnir verði alvöru hér sem annars staðar.... Sara Dögg