18 febrúar 2008

Sigur Rós í TMM


Ein ég sit og sauma mig í gegnum Tímarit Máls & menningar. Þar er undurmerkileg grein/greining á vonlensku Sigur Rósar - stöðu hennar í tíma og rúmi, skírskotun og tengingar við ýmis tákn, Dadaisma, strauma & framúrstefnur, Freud, súrrealisma og ósköp margt fleira. 

Í niðurlagi segir hinn bráðungi höfundur, Emil Hjörvar Petersen (fæddur 1984) að ,,vonlenska uppfylli skilyrði til að teljast framúrstefna, en þau eru annars vegar bylting í formi og inntaki og hins vegar andóf og viðbragð við samtímanum." 

Emil er bókmenntafræðingur og skáld, gaf út ljóðabókina Gárungagap í fyrra. 

Kannist þið við þetta?

tsjó so vó
sjórn tufæ
tso jú gó
óon tsuha
tsó jú tsó jí...

Þetta er lagið Von af plötunni Von sem kom út árið 1997. Hljómar óneitanlega betur en það ritast. Fleiri kannast við þetta lag sem er að finna á einni bestu plötu allra tíma; Ágætis byrjun.

séí tsé sjáu
séivá de ida
éleifidí
édíidí...

Jahérna. Nú skil ég af hverju Sigur Rósarmenn hafa ekki lagt sig í líma við að láta vonlensku texta sína fylgja hulstrunum. Frægasta vonlenskulagið er líklega ,,live" upptaka frá goðsagnakenndum útgáfutónleikum sem Sigur Rós hélt í Óperunni í júní 1999. (Bestu tónleikar allra tíma, á eftir lokatónleikum HAM!) Þetta lag er að finna á smáskífunni Svefn(g)englum.

úsæ útá
eslæ etá
slæá etá
eslæ sætá...

Ég veit ekki hvort djúpstæð greining af þessu tagi (sjón er sögu ríkari í TMM) sé meðlimum Sigur Rósar að skapi. Ég heyrði sögu vonlenskunnar sagða á þann hátt að Jónsi hefði byrjað að raula einhverja vitleysu af því þeir höfðu ekki haft tíma til að semja almennilega texta. 

Það er líklega ekki verri greining en nokkur önnur en ég mæli þó með grein Emils, fróðleg og skemmtileg sem hún er.

Að lokum: Fyrsta heimildin um vonlensku Sigur Rósar er eignuð Árna Matt. Jónsi tók þátt í Músíktilraunum Tónbæjar árið 1995 ásamt hljómsveitinni Bee Spiders. Árni Matt fjallaði um tilraunakvöldið og sagði um BS: 

,,Þar fór efnilegasta hljómsveit kvöldsins, sérstaklega ef sveitarmenn læra íslensku". 

Samkvæmt mínum traustustu heimildarmönnum hefur Árni Matt tekið vonlensku Sigur Rósar í sátt. 

Aðalbrandarinn í hljómsveitarbransanum undir lok síðustu aldar var að Sigur Rós myndi hreppa eitt aðalhnossið á Hlustendaverðlaunum FM 95.7: ,,Bestir á balli". 

1 ummæli:

Tony sagði...

Enn nota menn orðið "framúrstefna". Það kom fram á sjónarsviðið um svipað leyti og orðið "mors". Eru skáldin enn að morsa?