Á hundrað dögum er hægt að gera ýmislegt. Nú í vikunni voru tveir stórir og stórskemmtilegir fundir í gamla leikfimisalnum í Miðbæjarskólanum, höfuðstöðvum Mennta- og Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar. Annar þeirra var samráðsfundur menntaráðs og foreldrasamtakanna SAMFOK, hinn var faglegur samráðsvettvangur leik- og grunnskólamála í borginni sem við nefndum Brú. Vísum þar í brúnna sem verður að vera heilleg, hvetjandi og ánægjuleg fyrir börn sem yfir hana trítla - úr leikskóla í grunnskóla.
Báðum þessum ,,vettvöngum" komum við á í meirihlutatíð Tjarnarkvartettsins. Áður var enginn formlegur samráðsvettvangur foreldra og fræðsluyfirvalda og eins og margir muna lét meirihluti #1 það verða sitt fyrsta verk að stía leik- og grunnskólamálum í sundur með því að búa til tvö ráð - og tvö svið. Þar með var samstarf, samfella, samstarfsverkefni og samráð milli skólastiganna og fagfólksins í verulegu uppnámi.
,,Brúnni" var ætlað að bæta úr því. Og ég er himinlifandi með viðtökurnar. Í dag var góð mæting í Brúna og hugljómandi fyrirlestrar frá tveimur kjarnakonum sem kynntu tvo ,,kenningaskóla" í ,,hegðunarfræðum". Annar skólinn er kenndur við Uppbyggingarstefnu og hefur kjörorðin ,,Uppeldi til ábyrgðar". Þar er unnið með uppbyggingu sjálfsaga og að börn axli sjálf ábyrgð á eigin lífi. Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla, kynnti Uppbyggingarstefnuna.
Hinn kenningaskólinn heitir ,,Stuðningur við jákvæða hegðun" (PBS) og fór Margrét Birna Þórarinsdóttir sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts yfir hvað einkennir þann skóla. Í stuttu máli sagt þá predikar hann að færni til góðrar hegðunar þarf að kenna, henni þarf að veita meiri athygli og það þarf að hrósa börnum fyrir góða hegðun; grípa þau góð.
Það sem þesir tveir kenningaskólar eiga sameiginlegt er að vinna með viðhorf og í raun klassísk siðferðisleg gildi eins og virðingu, umhyggju, tillitssemi og traust. Lærdómsríkar dæmisögur frá fimm grunnskóla- og leikskólakennurum kórónuðu uppbyggilegan og faglegan fund.
Lof dagsins: Áhugasamt, jákvætt og drífandi fagfólk sem helgar tíma sínum og starfsævi sinni börnunum okkar. Takk!
Last dagsins: Meirihluti menntaráðs sem sá sér ekki fært að mæta á þennan frábæra fund. Uss...
27 febrúar 2008
Lof og last í leikfimisal
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli