15 febrúar 2008

NASA, HAM og skoðanakönnun meðal kvenna og ungra...

Það var fjör á opnun sýningar um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar í gær. Margt góðra manna og kvenna og skeggrætt um skipulagsmál, sem von er. Verðlaunatillagan er rammíslensk en af skoskum uppruna - einkennilegt en satt. Hún ber keim af þeim hverfum borgarinnar frá fyrri hluta síðustu aldar sem teljast ljómandi vel heppnuð, hverfum sem fólki líður vel í.

Eva María sjónvarpskona og áhugamanneskja um skipulagsmál hefur stundum lýst því svo að mannsskepnunni líði best í kringum byggingar sem samsvara hlutföllum mannslíkamans. Nokkurra hæða hús, mismunandi að gerð og áferð, sem standa nálægt götunni og þétt upp við hvert annað. Hún ætti að verða ánægð með verðlaunatillöguna og nú er lag að drífa sig í Listasafnið því tillögurnar hanga uppi í eina viku.

Ég hitti Björn Ólafs, skapara Bryggjuhverfisins, í gær og við ræddum framtíð NASA -félagsheimilis Reykjavíkur - og besta tónleikastað borgarinnar. Hann er prímus mótor í hönnun hótels við Ingólfstorg og sá klasi nær yfir NASA. Tónlistarmenn og tónleikahaldarar hafa verið uggandi um framtíð NASA en síðustu daga hefur formaður skipulagsráðs eytt þeim ótta. Enda kom í ljós í samtali okkar Björns að aldrei hefði verið gengið út frá öðru en því að NASA yrði áfram aðaltónleikastaður bæjarins. Það gladdi mig ósegjanlega.

Tónleikastaðurinn NASA hefur verið forsenda innflutnings erlendra hljómsveita og plötusnúða undanfarin ár. Mikil gróska tónlistar- og menningarlífs miðborgarinnar undanfarin ár er NASA að þakka.

Eftir að Tunglið við Lækjargötu brann árið 1998 lá klúbbamenningin að miklu leyti niðri í Reykjavík. NASA breytti því og hefur ekki skipti litlu máli í vexti Airwaves-hátíðarinnar.

Ég gerðist svo fræg að spila í Tunglinu með Ensími, líklega rétt fyrir brunann. En eftirminnilegustu tónleikarnir voru lokatónleikar HAM í Tunglinu 4. júní árið 1994.

Ein lítil uppljóstrun að lokum: Mér finnst Bryggjuhverfið hrikalega flott hverfi og ef ég væri ekki miðborgarpía á hjóli þá byggi ég þar.

Og ein skemmtileg frétt í blálokin. Krúttlegt að taka fram að þetta sé nú fyrst og fremst skoðun kvenna og ungs fólks...

Engin ummæli: