25 febrúar 2008

Kommúnan

Sumir kunna einfaldlega að galdra fram gott leikhús. Vesturport-hópurinn er einn af þeim. Ég bauð tengdó, mömmu og skáldinu úr Austurbrún á Kommúnuna - og við hlógum öll dátt.

Ekki verra var að vita af því að nokkrir Vesturportarar voru sjálfir hippar - eða hippabörn. Tilfinningin ósvikin!

Sýningin iðaði af krafti - það er leikgleði til staðar hjá Vesturporti sem margir mættu reyna að tileinka sér. Hvort sem er í leikhúsum eða öðrum húsum.

Mexíkóski sjarmörinn er leikari á heimsmælikvarða en það er nú svo merkilegt með okkar alíslensku leikara - að þeir voru ekki síðri.

Verkið sjálft var nokkuð gott. Hippafarsi byggður á ,,Tilsammans" með nokkrum frábærum replikkum. Vesturport framleiðir slíka galdra í leikhúsi að verkið sjálft þarf ekki að vera meistarastykki.

Öfugt við Ráðhúsfarsann. Þar fer snilldarleikverk með öllum elementum góðs farsa (dyrnar opnast og lokast - inn kemur nýr borgarstjóri í hvert skipti - þið þekkið þetta...)

En frammistaða leikaranna í þeim farsa er oft á tíðum ... tja... brokkgeng.

Besta línan í Kommúnunni hraut af vörum persónu Atla Rafns - harðsvíraður hippi sem fékk birta eftir sig grein í Þjóðviljanum - með mynd.

Greinin hét: ,,Nokkrar leiðir til að losna við auðvaldið - á auðveldan hátt."

Engin ummæli: