19 febrúar 2008

Molar um Vatnsmýri

Ég þáði leiðsögn í Listasafni Reykjavíkur í gær og fékk brimandi flottan fyrirlestur hjá Guju Dögg Hauksdóttur um hugmyndirnar 136 sem sendar voru inn í keppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar.

Margt kom þar á óvart um Vatnsmýrina. Til dæmis það að hverfið í kringum Laugarneskirkju, Kirkjuteigar og fleiri teigar, er byggt upp af flutningshúsum sem áður voru í Vatnsmýrinni. Bróðir Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa býr í húsi við Kirkjuteig sem áður var á miðri flugbraut. Þar hafiði það.

Saga flugvallarins er í raun mjög stutt í Vatnsmýrinni, miðað við byggingar- og skipulagssögu borgarinnar. Það er gott að hafa í huga.

Einn skemmtilegasti varaborgarfulltrúi Reykvíkinga, Guðrún Ásmundsdóttir, var með í för í Listasafninu og hvíslaði að mér þessum ljóðlínum Sverris Kristjánssonar sagnfræðings (eftir minni, ég biðst forláts ef ekki er alveg rétt með farið...)

Ó, Reykjavík, Reykjavík.
Þú varst getin í innréttingum Skúla fógeta.
Agnarlítið örverpi í blautri kvos milli tveggja holta.

Verðlaunatillagan er frábær. Hún er ekki fullkomin en hún er frábær. Það vantar í hana samgöngulausnir en hún er eins og feitletruð Reykjavík. Hún tekur mið af þeim hverfum sem okkur líður vel í og hverfum sem við erum ánægð með - og ýkir þau. Skerjafjörður verður meiri Skerjafjörður, háskólasvæðið verður girnilegra háskólasvæði, byggðin er þétt, blönduð, fjölbreytt og lágreist. Minnir um margt á klassíska reykvíska byggingarhefð.

Ekkert er nýtt undir sólinni. Þegar ég gegndi formennsku í menntaráði mótuðum við framtíðarsýn fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal. Við leituðum fanga víða, m.a. í Vegvísi UNESCO um listfræðslu. Framsýnt og flott plagg sem rakið er fyrir stjórnmálamenn og fræðsluyfirvöld að nýta sér.

Kom ekki fram í áramótaávarpi forseta vor að nú væri lag fyrir íslenskt samfélag að
styrkja innviðina - líta okkur nær og nýta það sem til er?

Hugmyndasmiðir verðlaunatillögunnar þvertaka þó fyrir að vera íslenskir að nokkru leyti, þrátt fyrir þrálátan orðróm þar um. Neibbs, Skotar skulu þeir vera. Sem hönnuðu heilt hverfi sem gæti varla verið reykvískara. Er ekki tilveran dásamleg?

Engin ummæli: