24 febrúar 2008

Baggalút í Seðlabankann

Andrés Magnússon, ekki bróðir Kjartans, heldur geðþekkur læknir var með athyglisverða hugvekju í Silfrinu áðan. Hann hefur kveðið sér hljóðs undanfarið og skrifað greinar um efnahagsmál og telur að gloríu útrásarinnar sjáist vart stað í hagtölum Seðlabanka. Hann telur að hin dýrðlega útrás séu orðin tóm, svo illa hefur hinn almenni launþegi komið út úr samskiptum sínum við íslensku bankana - okurvextir eru þar helsti sökudólgurinn.

Andrés segir að álögur á hinn almenna launamann séu svo gegndarlausar að hann efist stórlega um að viðskiptamennirnir okkar - og hin dýrðlega útrás - sé yfirleitt eitthvað sem við ættum að stæra okkur af.

Vextir á Íslandi eru 10 prósentustigum hærri en í t.d. Noregi.
Stýrivextir Seðlabanka eru svo háir að í öðrum löndum sæti ríkisstjórnin á neyðarfundum vegna þeirra.

Andrés telur að hver fjölskylda á Íslandi sé að greiða eina milljón af sínum ráðstöfunartekjum árlega, vegna óþarfra og óhóflegra vaxta. Ekki svo dýrðlegt. Hann telur að 2/3 fjölskyldna gætu greitt upp öll sín lán ef við værum í takti við löndin í kringum okkur hvað varðar álögur.

Ætli tregða Seðlabankastjóra til að viðurkenna að augu hans og fleiri verða að opnast fyrir Evrópusambandsaðild sé að sliga íslensk heimili? Er svona vont að viðurkenna að maður hafi rangt fyrir sér?

Fyrir ca. 16 árum var staða Seðlabankastjóra auglýst. Þó var á allra vitorði að alltaf var ráðið pólitískt í stöðu Seðlabankastjóra. Til að mótmæla þeim tvískinnungi skipulögðu MH-ingar aðgerð sem líklegast myndi flokkast sem ,,borgaraleg óhlýðni".

Vel flestir MH-ingar á fjárræðisaldri, þ.e.a.s. þeir sem skriðnir voru yfir 18 ára aldurinn, sóttu um stöðu Seðlabankastjóra. Rúmlega 300 umsóknir bárust. Og við fengum svarbréf þar sem tilkynnt var að því miður hefði umsækjandi ekki hlotið náð fyrir augum bankaráðsmanna.

Fólk hló hástöfum. ,,Hvað ætli krakkakjánar geti stýrt Seðlabankanum"?!

En ég er viss um að t.d. einn Baggalútsmeðlima, sópran úr MH-kórnum eða einhver úr leikfélagsstjórninni, hefði áttað sig fyrr á þeim mikilvægu skrefum sem íslensk þjóð - og peningamálastjórn - verður að stíga. Fyrr eða síðar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kannski þú og aðrir sem ekki skilja efnahagsmál, en láta það ekki stöðva sig í að tjá sig um þau, ættuð að spyrja hvort sú staðreynd að íslenskir neytendur eigi ekki sök á þenslunni sem orsakað hefur þessa háu vexti? Jepparnir sem flæða um allt? Fellihýsin aftan úr þeim? Nýju eldhúsinnréttingarnar? Allt keypt á krít.

Nei, það selur víst ekki. Það er víst betra fyrir hina tuðandi vinstrimenn að röfla bara út í bláinn (no pun intended) og slá um sig með gífuryrðunum. Allt frekar en að koma með einhverjar tillögur.

Það var pínlegt að horfa á Guðfríði Lilju í dag í Silfrinu, hún virkaði eins og taugaveikluð rjúpa í nóvember, og gat ekki stunið upp úr sér neinu öðru en einhverjum gömlum lummum úr klístruðum og fornum VG bæklingum. Hún býður ekki upp á neinar lausnir, bara væl og nöldur. Soldið svona eins og þú gerir í þínum pistlum.

Kannski þið kverúlanta stjórnmálamenn sem eruð í þriðju deild stjórnmálanna ættuð að halda ykkur til hlés þegar alvaran blasir við og leyfa þeim sem geta, kunna, og þora að leysa málin. Það gagnast mjög fáum að hlusta á innantómt nöldrið í ykkur ofan úr stúku, uppfullt af vanþekkingu og misskilningi.

Góðar stundir