Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því að stefna ótrauð að inngöngu í Evrópusambandið - eða bakka þangað nauðug viljug. Ekki með stæl, ekki með töglin og hagldirnar, ekki með styrk smáþjóðar sem veit vel hvers hún er megnug í samfélagi þjóða.
Sífellt fleiri átta sig. Nú síðast hinn ættprúði Bjarni Benediktsson sem lýsti þeirri skoðun sinni í Vikulokunum í dag að hann teldi að næstu tvö árin ættum við að einbeita okkur að því að ná jafnvægi í hagstjórninni á forsendum krónu.
Sannarlega mikið verk framundan þar.
En að þeim tveimur árum liðnum taldi Bjarni að við hæfum umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu - fyrir alvöru. Og hann er alvöru maður.
,,Það er engin skynsemi í því að einangra einn þátt í Evrópusambandsaðild. Við eigum að taka allt með í reikninginn."
Skynsamur var einnig sonur minn fjögurra ára sem tók þátt í að hlaða dósum og flöskum í skottið á bílnum. Sorpuferð á dagskrá og hann spurði íbygginn:
,,Á þetta allt að fara í endurveisluna?"
Aðild að ESB gæti einmitt verið okkar endurveisla. Og við verðum að mæta í þá veislu full sjálfstrausts og meðvituð um að hvað viljum fá út úr félagsskapnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli