18 febrúar 2008

Góðar og slæmar fréttir fyrir foreldra...

Góðu fréttirnar bárust í gær. Samningar náðust milli verkalýðshreyfinganna og atvinnulífsins.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar boðar nýja tíma. Miðað við viðbrögðin á vefþjóðviljanum hljótum við að vera á réttri leið. Skemmtilegast þykir mér uppnefnið ,,Krataskrattar", aftarlega í færslunni.

Ég hrópa fimmfalt húrra fyrir aukningu barnabótanna - gamalt baráttumál Samfylkingarinnar. Hagur barnafjölskyldna með lágar - og millitekjur vænkast verulega, aukning upp á tvo milljarða.

Verkalýðshreyfingin og ríkisstjórnin sýna í verki bæði ábyrgð og samhyggð. Þeir sem hafa lægstu launin bera mest úr býtum.

Verri fréttir berast úr leikskóla- og menntaráði borgarinnar. Þar á bæ er meirihlutinn kominn í keppnisgírinn og nú á að fikra sig neðar með skólaskyldualdurinn.

Að flýta nemendum í gegnum 8. -10. bekk er mikið kappsmál Sjálfstæðismanna í borginni.
Menntamálaráðherra var sérstaklega áhugasöm um styttingu framhaldsskólans.
Meirihlutinn í borgarstjórn vill fimm ára deildir við grunnskólana.

Þetta er nokkurs konar þríþraut. Af hverju læðist að mér sú hugsun að hagsmunir barnanna gleymist í þessu samhengi?

Ég er hreinlega ekki viss um að það sé nægilega mikil eftirspurn til að þessi hugmynd Sjálfstæðismanna gangi upp. Eða hvað segja viðhorfskannanir okkur ár eftir ár? Rúmlega 90% foreldra eru ánægðir með leikskólann og finnst hann koma til móts við börnin sín. Geri aðrir betur!

Það er löng hefð fyrir fimm ára bekkjum í Ísaksskóla og Landakotsskóla, frábært starf í gangi þar og eftir því sem ég kemst næst anna þeir skólar eftirspurn - þeir eru hið minnsta farnir að senda syni mínum námstilboð - varla gerðu þeir það ef biðlistinn næði til tunglsins.

,,Lítil börn með skólatöskur" er bók eftir Jóhönnu Einarsdóttur, prófessor í menntunarfræðum ungra barna við KHÍ. Lesið hana og sannfærist um að stofnun fimm ára deilda við grunnskóla borgarinnar er slæm hugmynd. Þar er rakin saga þess að þrátt fyrir góðan hug og heitstrengingar þess að námið fari fram í gegnum leik, er raunin sú að nám á forsendum grunnskóla verður alltaf bóknámsmiðað. Því ættum við frekar að sporna gegn - en ýta undir.

Í leikskólunum fer fram nám, á forsendum leiksins. Leikur er nám í sjálfu sér og því er best fyrirkomið á þeim vettvangi þar sem leikurinn er í forgrunni. Leyfum börnunum að vera börn sem lengst. Annað er móðgun við starfið í leikskólunum okkar - leikskólum sem vekja heimsathygli fyrir framúrstefnulegt, faglegt og skapandi starf.

Annað mál og sjálfsagðara er að mýkja og styrkja tengslin milli skólastiganna. Það er eilífðarverkefni sem mér er bæði ljúft og skylt að taka þátt í - hvenær sem og hvar sem er.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þér Oddný að ég set verulegt spurningamerki að fimm ára bekkurinn flytjist yfir til grunnskólans.
Ég held það þurfi frekar að eyða orkunni í að tryggja einstaklingsbundið nám með það að markmiði að krakkarnir fái verkefni við sitt hæfi og að skólaleiði verði skoraður á hólm.
Hins vegar má segja að með einstaklingsbundnu námi í opnu rými þar sem krakkanir eru ekki reyrðir niður í stólana er auðvitað töluvert búið að brúa bilið milli leikskólans og grunnskólans hvað snertir kennsluaðferðir. Þetta á auðvitað ekki við um alla skóla heldur einungis þá sem viðhafa opin rými. Viðbrigðin ættu ekki að vera eins mikil í þeim skólum.

Hvað unglingana snertir held ég að þau séu ekki tilbúin að koma yfir í "heim hinna stóru" í framhaldsskólunum mínútu fyrr en þau gera í dag. Allar rannsóknir sýna að fyrsta bekk í menntó verður grundvallarbreyting á krökkunum t.d. hvað snertir áfengisneyslu, kynlíf o.fl. Þau eru einfaldlega komin í annan heim. Ég held að það sé ekki kostur að þau fari þangað fyrr.
Síðan held ég að það þurfi einfaldlega að benda krökkum sem eru að standa sig vel í skóla á þann möguleika að taka framhaldsskólann á þremur árum. Það ætti öllu jöfnu að vera díll sem selur sig sjálfur. Ég er hins vegar hræddur við að ýta þeim þangað sem varla ná að halda í við fjögurra ára námið.
Þetta er allt saman mjög vandmeðfarið og þarf að hugsast mjög vel.

Nafnlaus sagði...

Það er nú af nógu að taka í grunnskólunum svo ekki sé farið að bæta við bekkjum. Ég held að verkefnið sé nú fyrst og fremst að tryggja mönnun í grunnskólunum áður en farið er að dunda sér við verkefni af þessu tagi. Maður bara gapir yfir svona fréttum á sama tíma og börnin manns fá ekki fulla eða ófullnægjandi kennslu vegna manneklu. Engu líkara en fólk sem tekur svona mál upp á arma sína sé ekki raunveruleikatengt. Mér finnst þetta lykta af einkaskólaþráhyggju sjálfstæðismanna.

Fyrir utan að þetta er rugl hugmynd. Miklu frekar að styrkja leiksskólann í starfi sínu með fimm ára börn.