21 maí 2008

Tæp 80% kennara samþykktu samninginn!

Góðar fréttir að berast í hús. Allsherjaratkvæðagreiðsla um framlengingu og breytingar á kjarasamningi kennara við sveitarfélögin hefur farið fram og samningurinn var samþykktur með 79,2% atkvæða.

Þess ber að geta að rétt rúmur helmingur kennara samþykkti síðasta samning - eftir margra vikna verkfall. Þá var talað um að ríkisstjórnin hefði rekið þá til starfa og beiskjan sat í þeim mörgum. Skyldi engan undra.

Þátttaka kennara var mikil því 87,5% greiddu atkvæði sem er þó nokkuð!

Ég vil óska kennurum og launanefnd sveitarfélaganna til hamingju með daginn. Við höfum lært af biturri reynslu og vonandi heyra verkföll kennara og hatrammar deilur sögunni til.

Samningurinn er til eins árs og ég skora á báða aðila að nýta tímann ofurvel og vandlega.

Næsti samningur verður vonandi til lengri tíma og hann varðar framtíð skólastarfs á Íslandi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki að þessi samningur skyldi vera samþykktur. Hann felur i sér að eftir eitt ár þarf að byrja upp á nýtt og reyna að tryggja þessari stétt sæmileg kjör.
Það er ekki gert i nýja samningnum. Hann felur aðeins í sér leiðréttingu á kjörum.
Og hver verður samningsstaðan á næsta ári? Hún verður verri vegna þess að þá mun dýpri efnahagskreppa ríkja í landinu.
Samningurinn er afleitur og enn hlýtur maður að efast um getu kennaraforustunnar til að semja fyrir hönd þessarar góðu stéttar.
Mistökin sem forustan hefur gert mörg síðustu ár verða seint upp talin.
Ég get því miður ekki fagnað með þér, Oddný. Hvet þig til að skoða málið betur.
Kveðja,
Karl