Ég sat fund í leikfimisal gamla Miðbæjarskólans í dag sem bar yfirskriftina ,,1, 2 og miðborg". Íbúar og borgaryfirvöld krunkuðu þar saman um málefni tengd miðbænum og fóru yfir ábendingar sem bárust inn á vefinn ,,1, 2 og Reykjavík".
En borgarstjóri er kominn í krossferð. Hann gerði sér lítið fyrir á fundinum og dró upp kort af verðlaunatillögunni úr Vatnsmýrarsamkeppninni og fann henni allt til foráttu. Meðal þess sem hann fussaði og sveiaði yfir var að tillagan:
a) er úr takti við þarfir íslensks samfélags
b) stangast algjörlega á við umferðarskipulag á svæðinu
c) gerir ráð fyrir allt of stórri tjörn á þessu meinta verðmæta svæði (bíddu, viljum við ekki standa vörð um útivistarsvæði?)
d) setur skipulag á svæðinu í uppnám sökum þess hversu illa hún er hugsuð.
e) beinlínis truflaði framgang skipulags- og samgöngumála í miðbænum.
f) hefur ekkert gildi því hann sem borgarstjóri hefði auðvitað meira um það að segja hvernig uppbygging í 102 Reykjavík yrði - meira en e-ir verðlaunahafar í e-i samkeppni.
Mikið er ég fegin að borgarstjóri skuli hafa meira vit á skipulagsmálum og fagurfræði, uppbyggingu risavaxins svæðis og framtíðarþróun heillar borgar heldur en heimsfrægir skipulagsfræðingar og arkitektar. Við skulum bara henda þessum 136 tillögum sem bárust í keppnina - en halda kannski eftir þeim þremur sem gerðu ráð fyrir því að flugvöllurinn væri áfram í Vatnsmýrinni.
Það er bara eitt sem ég klóra mér í hausnum yfir - hvað segja borgarfulltrúarnir sem sátu í dómnefndinni ásamt þeim nafntoguðu arkitektum sem völdu tillögu Skotanna sem þá bestu?
Hvað segja borgarfulltrúarnir sem völdu þessa tillögu úr hópi 136 tillagna, borgarfulltrúarnir sem dásömuðu tillöguna og töldu hana einmitt mæta þörfum Reykjavíkur og kallast á við hið besta úr reykvískri skipulagssögu og byggingarlist?
Hvað segja Hanna Birna og Gísli Marteinn um orð borgarstjóra? Hvað segja þau um krossferð borgarstjóra um hverfi borgarinnar þar sem hann beinlínis ,,hraunar" yfir verðlaunatillöguna Skotanna og störf alþjóðlegrar dómnefndar sem sat með sveittan skallann í þrjú ár og kom málefnum flugvallarins loksins upp úr djúpum hjólförunum?
Ætla Hanna Birna og Gísli Marteinn endanlega að láta ýta sér og sínum skoðunum út af borðinu af Ólafi F. Magnússyni?
Hvað með málefnasamninginn - samkomulag þeirra á milli? Munu þau ekki krefjast þess að hann dragi orð sín til baka?
Þess ber að geta að 1, 2 og miðborg er síðasti samráðsfundur borgarstjóra og íbúa. Fyrirlesturinn um ömurlegu verðlaunatillöguna hefur verið fluttur á nokkrum þeirra, a.m.k. á ,,1, 2 og Laugardalur" og ,1, 2 og Háaleiti" - kannski þeim öllum.
Á einum fundinum tiltók hann sérstaklega að verðlaunahafarnir væru ekki íslenskir og skildu því ekki þarfir íslensks samfélags.
Það er nefnilega það. Hanna Birna sagði einmitt við afhendingu verðlaunanna að dómnefndin hefði vart trúað því að verðlaunahafarnir væru útlendingar - svo íslensk var tillagan að þeirra mati.
Það er spurning hvort yfirskrift fundanna hefði ekki átt að vera ,,1, 2 og Reykjavíkurflugvöllur".
03 maí 2008
Krossferð borgarstjóra
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hjálp.... Sjálfstæðismenn!!
Hvað ætlið þið að kvelja borgarbúa lengi með Ólafi F.?????
Borgarstjórinn Ólafur F. mun vara sem ævarandi skammarblettur á sögu Sjálfstæðisflokksins.
Gott verk.... gott verk... Sjálfstæðismenn.
Til hamingju!
ég er sammála Óla Bogga ...það er ekkert varið í þetta
Ég segi nú bara húrra fyrir Ólafi að láta ekki einhverja Skota sem ekkert vita um þarfir landsmanna hér á landi og búa sjálfir við flugvöll sem er nánast inni í byggð og full sátt er um. Þetta er fínasta tillaga en réttara væri að hugsa um þjóð okkar frekar en hagsmuni einhverra arkitekta sem hugsa jú bara um að fá verkefnið, ekki almenning. Sjálfstæðismenn hafa svo reyndar ekki um neitt annað að velja en að vinna með Ólafi, að öðrum kosti kemur enn og aftur upp vinstri stjórn sem fáum hugnast, a.m.k. er betra að hafa þokkalega samstöðu á bak við stjórnun borgarinnar en enga. Af tvennu illu mætti kannski segja að þetta væri besti kosturinn.
Skrifa ummæli