14 maí 2008

Áfram Skagamenn!

Fréttaflétta dagsins hefur verið með ótrúlegasta móti. Nýr meirihluti myndaður í bæjarráði Akraness sem einangrar Magnús Þór Hafsteinsson - og hans viðhorf til móttöku flóttamanna á Íslandi.

Bæjarstjórinn Gísli segir að fréttir af því að fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks í Velferðarráði Reykjavíkurborgar hefðu lagt fram tillögu um að bjóða flóttamennina velkomna til Reykjavíkur hefði verið dropinn sem fyllti mælinn.

Í tilkynningu frá kempunni Björku Vilhjálmsdóttur sagði meðal annars: „Það er mat okkar að ekki sé leggjandi á flóttafólk að flytjast í bæjarfélag þar sem formaður félagsmálaráðs er á móti komu þeirra og vinnur opinberlega gegn dvöl þeirra þar.”

Áfram velferðarráð Reykjavíkurborgar!

Ég lýsi hér með yfir stuðningi við nýjan meirihluta á Akranesi. Ég lýsi því yfir að ég treysti Skagamönnum fullkomlega til að taka á móti landflótta mæðrum og börnum þeirra frá Palestínu. Akranes er sveitarfélag í örum vexti, vel í sveit sett og blómlegt að öllu leyti. Hjá bænum starfar harðsnúið og öflugt fólk á vettvangi skóla, leikskóla, félagsþjónustu og ekki síst hefur Rauða Kross deildin á Akranesi yfir einvalaliði að búa.

Enda skilst mér að það sé mikill stuðningur við komu hópsins innan bæjarkerfisins á Akranesi.

Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu. Móttaka flóttamanna er ein af þeim skyldum. Það er gott að andstaða við slíkt sé jörðuð í fæðingu.

Engin ummæli: