20 maí 2008

Fólk & bílar

Einkabíllinn er búinn að fá sitt, þar er ég sammála Hönnu Birnu næsta borgarstjóra Reykjavíkur. Í allri umræðu um samgöngulausnir, þref um mislæg gatnamót versus stokkalausnir virðist gleymast sú leið sem tekur tillit til mannlífs, lýðheilsusjónamiða og viðkvæmra öndunarfæra smábarna, veikra og gamalla.

Nefnilega sú leið að hætta að setja einkabílinn í forgang. Hætta að taka fyrst og fremst tillit til keyrandi vegfarenda. Við höfum gert það lengi, einkabíllinn hefur fengið okkar athygli. Það er komið að þeim tímamótum að við bíleigendur verðum að aðlaga okkur breyttum aðstæðum.

Borgarskipulagið getur ekki endalaust lagað sig að einkabílnum. Heilsa barna og hagur heilla hverfa er í húfi hér. Við erum sprungin - fyrir löngu. Mengun í Reykjavíkurborg væri óbærileg með öllu ef við ættum ekki okkar sjálfvirka hreinsibúnað í rokinu og rigningunni sem sópar fúlu loftinu í burtu um stundarsakir. Mengunarmælingar við leikskóla sýna okkur svart á hvítu að nú er komið nóg.

Það er ótal margt hægt að gera, það er hægt að losa sig við bíl númer 2 (eða 3), nota strætó, sameinast í bíl, ganga og hjóla meira. Losa sig við nagladekk, keyra hægar. Hollt húsráð er að kaupa heilsársdekk á tveggja ára fresti - kostnaðar og öryggissjónarmiðum er mætt með því.

Ótrúlega hátt hlutfall bílferða (um 60%) eru innan við þriggja kílómetra langar.
1/6 bílferða eru innan við kílómetra langar!
Nú á okurtímum er til mikils að vinna að losa sig við annan bílinn, ganga og hjóla.
Ókeypis líkamsrækt, es klingt aber sehr lockend...

,,Þar sem fólki líður vel - þarf bílum að líða illa" sagði Andri Snær Magnason í elegíu sinni um Miðborg Reykjavíkur sem hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni Landsbankans árið 2004. Hann er í frábæru viðtali hjá Kristjönu á 24 stundum í dag. Mæli með því. Ég hef alltaf verið hrifin af lýsingu Andra á gardínunum í Héraðsdómi Reykjavíkur sem hann segir vera banatilræði við mannlíf í miðbænum. Auðvitað á Héraðsdómur að vera í Borgartúni, Ármúla eða bara Hádegismóum. Af hverju að hafa stofnun í hjarta borgarinnar sem hýsir starfsemi sem þolir svo illa dagsljósið að notendur fara helst inn og út úr því við ruslatunnur 10-11 - altsvo bakdyramegin?

Síðan væri gott að flytja starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg annað, það sögufræga hús á að fylla af lífi, gestum og gangandi. Safn, veitingastaður, íslensk hönnun?

Svona fyrst ég er byrjuð að skipuleggja miðbæinn upp á nýtt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hegningarhúsið er ágætis nafn á veitinga eða skemmtistað.