Svo mælti Vanda Sigurgeirsdóttir, þá forstöðumaður Ársels, eftir að Regína hafði rúllað upp söngkeppni Ársels fyrir 17 árum. Stuttu seinna vann hún söngkeppni félagsmiðstöðva og þaðan lá leiðin í MH. Regína tók ekki strax þátt í söngkeppni MH þar sem kórdívurnar áttu gjarnan sviðið. Regína er engin kórstelpa, svo mikið er víst - og því þekkti listaklíkan Regínu lítið þegar hún söng þann geggjaða diskósmell Jóhanns Helgasonar ,,Í Reykjavíkurborg".
Það er skemmst frá því að segja að hátíðarsalur MH sat agndofa eftir flutninginn. ,,Hver var þessi stelpa"? Kórdívurnar voru dálítið abbó en samanborið við Regínu voru þær einfaldlega mjóróma amatörar. Regína var einfaldlega alvöru poppdíva. Ég brosti baksviðs, og rifjaði upp orð Vöndu - hún færi í Eurovision.
Það þarf ekki að taka það fram að Regína rúllaði upp söngkeppni MH þetta árið.
Ég vann hjá Sissu, mömmu Regínu, í bókabúð Eymundssonar á Seltjarnarnesi þegar ég var ennþá í MH. Seinna vann ég með þeim systrum Hildi og Regínu í Eymundsson Austurstræti, í mörg, mörg ár.
Regína var alltaf syngjandi. Og hún syngur aldrei feilnótu. Hún gerði það ekki áðan á sviðinu í Belgrad. Ég óska henni til hamingju með að vera komin í framlínu, búin að standa vaktina í bakraddakórnum í Eurovision í mörg ár.
Ég geri orð Sigmars að mínum: Loksins komumst við upp úr þessum bölvaða riðli.
Þá er það laugardagskvöldið. Regína er vön að sigra söngkeppnir svo við eigum von á góðu.
Innilega til hamingju með kvöldið - áfram Ísland.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli