Ég hitti svo stórskemmtilega og gáfaða konu um daginn sem deilir með mér reynslu af nokkurra daga legu á sængurkvennagangi Landspítalans. Eftir fjörugar samræður yfir hrikalega góðum mat á næstu grösum varð okkur ljóst að við þyrftum að standa fyrir átaki um bætta aðstöðu mæðra & feðra á sængurkvennagangi. Nánar um það síðar.
Að skilnaði lofaði ég að senda henni grein sem ég skrifaði þegar ég gekk með dóttur mína og var með rúmlega eins árs gamalt barn í húsi. Greinin er lofgjörð til móðurhlutverksins og viðeigandi að birta hana hér þar sem dóttir mín verður þriggja ára á morgun. Um daginn ræddi ég femínisma við hinn skemmtilega og róttæka femínista Sóleyju Tómasdóttur og hún skilgreindi mig sem ,,eighties-femínista" - með mæðrahyggju á háu stigi. Ég var nú nokkuð stolt af þeim titli en grunar að Sóleyju þyki hann púkó. En sem betur fer erum við ekki allar eins og það er dásamlega gaman að þekkja Sóleyju Tómasdóttur.
En hér er greinin - vessgú.
Eftir nokkrar vikur verð ég tveggja barna móðir. Fyrir rúmlega tveimur árum var ég nýútskrifuð úr skóla, tvístígandi og áhyggjufull yfir vaxandi flösu í hári mínu og svimandi háu leiguverði í miðbæ Reykjavíkur. Ef ég hefði rekist á völvu á bar fyrir rúmum tveimur árum og hún spáð fyrir barnafjöld og fjölskyldulífi innan svo skamms tíma, hefði ég líklega kíkt á botninn á kristalskúlunni hennar til að gá hvort þar stæði: Made in Taiwan.
Svo fjarstæðukennd var sú hugsun að ég yrði móðir tveggja barna. Fjölbyrja heitir það víst. Á mæðraskýrslunni minni stendur ,,Hraust fjölbyrja", ég held að það sé virðulegasti og jafnframt skondnasti titill sem mér hefur hlotnast að bera. Og hin níu mánaða langa bið eftir barni er á margan hátt eitt hið virðulegasta og jafnframt skondnasta tímabil sem ég hef upplifað. Oft er talað um að konur gangi í gegnum hreinsunareld á meðgöngu, taki til í skúffum fortíðar og viðri gamla, fúla drauga úti á svölum. Sumar pússa og fægja fjölskyldumyndarammana og gera öllum skyldmennum sínum ljóst hvað þeim þyki mikið, eða lítið, varið í þá. Uppgjör eru algeng á meðgöngu, það er engu líkara en að hið ófædda barn knýi þegjandi og hljóðalaust á um að heimurinn, sem það mun bráðlega skrá sig til heimilis í, sé heill og bjartur. Engir lausir endar og ósögð orð. Bara auð og óskrifuð blöð og hrein samviska svo langt sem augað eygir.
Sumum konum er illa við þessa mömmudramatík og leggja á það ríka áherslu að meðganga sé ekkert mál. Að fæða börn sé ekkert mál. Brjóstagjöfin jafnvel enn minna mál. Þetta sé náttúrulegt ferli og hverri konu í blóð borið. Við eigum bara að ganga með börnin, eiga þau og halda svo áfram að vinna og vera töff konur sem geta allt. Pís of keik. Nú, þegar kemur að uppeldi barna, má öllum vera ljóst að þar er á ferð algjörlega ofmetið fyrirbæri. Það er hlægilega lítið mál, bara að setja fáar og góðar reglur og þá verður þetta eins og að drekka vatn. Muna að faðma börnin sín og örva þau, kynna fyrir þeim frumefnin fjögur og fordómaleysi, kenna þeim að elska náungann, hoppa í snú-snú, virða náttúruna, kúka í kopp og poppa popp. Og hlusta á Pétur og úlfinn. No problem.
En ég er ekki alveg sannfærð. Ég veit ekki hvort ég geti kvittað fyrir það að börn og uppeldi barna sé auðvelt. Það er yndislegt, en flókið. Dásamlega ruglandi. Undursamlega óvænt og sjokkerandi. En ég get þó samþykkt eitt: það er náttúrulegt. En það sem er náttúrulegt er ekki endilega alltaf auðvelt því náttúran gefur og tekur. Það vitum við Íslendingar kannski þjóða best. Náttúran getur verið bæði hrikalega grimm og ofboðslega falleg.
Mér finnst sorglegt að hugsa til þess að fólk sé farið að líta meðgönguna og barnauppeldi hversdagslegum augum. Ég vil að meðgangan sé áfram sveipuð dulúð og kynngikrafti, að barnshafandi konur séu hylltar og vegsamaðar og þeim sé hrósað, hlíft, hælt og hjálpað. Það er kannski óþarfi að almenningur falli á kné og lúti höfði í Kringlunni ef ólétt kona rápar á milli búða eða að bílaumferð stöðvist þegar kjagandi kona kemur fyrir hornið. Og auðvitað mega ófrískar konur ekki upplifa sig sem heilagar kýr, leggjast með tærnar upp í loft og láta sér leiðast, ef heilsan býður að þær séu virkar í sínu daglega amstri.
En þetta kraftaverk má heldur ekki verða að einhverju sem nútímaofurkonan innir af hendi án þess að blása úr nös. Og afgreiðir eins og hvert annað verkefni áður en hún snýr sér að því næsta. Ef konur halda að sú hegðun sé til fyrirmyndar í femínísku tilliti og í jafnréttissinnuðum anda, eru þær á villigötum. Femínisminn á að undirstrika kvenleikann og þau mörgu hlutverk sem kvenlíkaminn getur brugðið sér í. Okkur, börnunum okkar og karlmönnum er enginn greiði gerður með því að gera lítið úr sköpunarverkinu.
Nú ætla ég þessum pistli ekki að vera hvatning til kvenna til sjávar og sveita, að þær grípi næsta spegil, vippi sér úr brókinni og spjalli dálítið við pjásuna sína, safni hári í handarkrikum, dansi naktar í fjörunni við tónlist Tracey Chapman og taki upp millinafnið Kona. Það er af og frá, hver og ein kona verður auðvitað að upplifa kvenleika sinn með sínu sniði, á sínu skinni og með sínu nefi. En varðandi hina alræmdu mömmudramatík vil ég benda á að barnlausar konur eiga það einnig til að finna henni allt til foráttu - eflaust hef ég gert það sjálf þegar ég barðist við fjandans flösuna og hafði ekki áhyggjur af neinu nema lónni í mínum eigin nafla og hvort ég ætti að fara í klippingu í þessari viku eða næstu. Sú kona lét sér fátt um galdra lífsins finnast, yppti bara öxlum og hugsaði með sér: Þetta getur nú ekki verið svo mikið mál.
Ég er þessari konu ekki reið og mér finnst hún hvorki vitlaus né ónærgætin. Hún bara vissi ekki betur.
Greinin birtist í Nýju Lífi árið 2005
09 maí 2008
Hraust fjölbyrja
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli