15 maí 2008

Lélegir neytendur

Við erum það - hundlélegir neytendur. Við eyðum miklu og oft um efni fram en niðurstöður skýrslu sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir Viðskiptaráðuneytið og var kynnt á Neytendaþingi í gær leiðir okkur í allan sannleikann um það að neytendavitund okkar Íslendinga er lítil.

Dr. Gunni fékk neytendaverðlaunin sem voru veitt í fyrsta skipti - algjörlega frábært og ég vona að Dr. Gunni haldi áfram að upplýsa okkur grunlausu neytendurna um okur, svik og pretti.

Ég mæli með lestri skýrslunnar - og ég segi það og meina af fúlustu alvöru að hún er stórfróðleg og mjög skemmtileg!

Það þarf að stórauka fræðslu um neytendamál, upplýsa um réttindi, kæruferla og lagabókstafinn sem styður neytendann í frumskógi verslunar og þjónustu.

Neytendalög eru t.a.m. ekki til - lög sem verja rétt neytendans eru á tvist og bast í hinum og þessum löggjöfum. Úr þessu þarf að bæta.

Auglýsingar sem beinast að börnum á auðvitað að banna - strax. Það er meirihluti fyrir því samkvæmt könnun á viðhorfi Íslendinga til neytendamála sem kunngjörð er í skýrslunni.

Dóttir mín fékk föt í afmælisgjöf síðustu helgi sem eru of lítil. Á spjaldinu sem hangir í fötunum segir að ég hafi tíu daga til að skila fötunum. Stenst það lög?

Í einu dýrasta landi heims er löngu orðið tímabært að viðskiptaráðherra standi með neytendum. Ég er ánægð með Björgvin G. Sigurðsson.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Il dottore er líka einn albesti pistlahöfundur landsins:

http://visir.is/article/20080515/SKODANIR06/447134467/-1/SKODANIR

Rómverji

Nafnlaus sagði...

(Oddný) ,,Á spjaldinu sem hangir í fötunum segir að ég hafi tíu daga til að skila fötunum. Stenst það lög?"

Ég held að það standist lög. Í rauninni þurfa verslunareigendur ekki að taka aftur við vörum sem búið er að kaupa, ef þeir vilja það ekki.

Flestir þeirra vilja það samt, enda liðka liðlegheit fyrir áframhaldandi viðskiptum.

Balzac.

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný, þú spyrð hvort það standist lög að gefa bara 10 daga skilafrest. Hrædd um að svarið sé já. Verslanir þurfa í raun ekki að taka vöru til baka nema hún sé gölluð. Það, að þú getur farið með heila vöru í verslun, skilað og skipt, er ákvörðun verslunarinnar. Þessi geiri er að ganga soldið lengra í þjónustunni en lög leyfa.

Mér finnst frábært að verið sé að vinna markvisst í neytendamálum hér enda hafa fyrrverandi ríkisstjórnir í besta falli slegið afar slöku við , jafnvel sett lög sem rýra rétt neytenda enn frekar.

Og við erum lélegir neytendur, það segir þú satt. Verðskyn mitt er til dæmis alveg farið, veit ekki hvað hlutir kosta og finnst ótrúlega oft að það sé verið að okra á mér. Hlutir sem mér finnst að eigi að kosta 200 kall kosta 2990 og svo fram eftir götunum. Ætlaði að kaupa ís handa krökkunum um helgina í ísbúð og barnaísinn var á 300 kall. Arg. Var heppin þar sem Ikea var næsti viðkomustaður þar sem við fengum fjóra ísa á 200 kall.