Ráðning verkefnastjóra miðborgarinnar, hvernig hún bar að og á hvaða launakjörum hann verður á - veldur gríðarlegum titringi meðal starfsmanna borgarinnar. Ég vil taka það fram að ég held að nýráðinn verkefnastjóri muni standa sig vel í starfi, hann er lífsglaður og kraftmikill maður sem ég hef þekkt af góðu einu undanfarin ár.
Persóna Jakobs Frímanns er ekki mergurinn málsins hér. Ráðningu hans er einfaldlega ekki skynsamlega háttað, síst af öllu fyrir hann sjálfan. Launakjör hans skapa úlfúð í hópi annarra starfsmanna Ráðhúss og Reykjavíkurborgar. Hann er pólitískt ráðinn, sérlegur ráðgjafi borgarstjóra en þó situr hann í nefndum og ráðum sem kjörinn fulltrúi væri. Ekkert umsóknarferli, ekkert óháð mat. En svimandi há laun.
Laun framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar, sem jafnframt eru framkvæmdastjórar stórra hverfa eru um 632.636 krónur - með akstri og öllu. Þeir hafa 300 manns undir sér, bera ábyrgð á pólitískum hverfisráðum, öllum samskiptum við Ráðhús og sitja í ótal vinnuhópum. Hörkuduglegir starfsmenn borgarinnar sem voru ráðnir til starfa eftir settum reglum, umsóknarferli og óháðu mati. Verkefnisstjóri miðborgarinnar verður með 861.700 krónur. Engin furða þó fólk sé reitt.
Gagnsæi og almennar leikreglur eru algjört höfuðatriði í stjórnmálum í dag. Kjósendur verða að geta treyst okkur sem erum í vinnu hjá þeim - treyst því að við virðum reglurnar. Treyst því að við förum eftir þeim.
Af hverju ætti hæfileikaríkt fólk að sækja um spennandi störf hjá Reykjavíkurborg ef þetta eru skilaboðin til þess?
Reykjavíkurlistinn var í mörg ár að hreinsa upp óheilbrigða og gallsúra stjórnsýslu íhaldsins þar sem reglur voru ekki virtar. Stjórnsýslu sem gerir vinum sínum greiða. Við skulum ekki stíga skrefið afturábak til þess tíma.
Þó tilhneigingin hafi vissulega verið til staðar á þessu kjörtímabili.
08 maí 2008
Ólga í Ráðhúsi
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Jakob Fímann styrkir Ólaf Friðrik sem borgarstjóra!
Sjá: http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/533247/
Tekið af Vísi: "Ólafur segir að í þeirri tölu séu 140 þúsund krónur sem Jakob fái fyrir að gegna nefndarstörfum fyrir Reykjavíkurborg. Jakob er formaður hverfisráðs miðborgar og situr í menningar og ferðamálanefnd borgarinnar."
Þetta er nú ekki alls kostar rétt að hann fá allar 861þús. krónurnar fyrir nýju stöðuna.
Skrifa ummæli