17 maí 2008

Músíkmús, börn sem ráðamenn og fiskin móðir


Ég fór með börnin á þeirra fyrstu Sinfóníutónleika í dag. Haffí flauta (Hallfríður Ólafsdóttir) á heiðurinn að kostulegri músíkmús, dillandi lagi og sögu. Tóti víóla (Þórarinn Már Baldursson) myndskreytti bókina sem ég mæli hiklaust með, sjaldan hefur jafn gott efni ratað inn á mitt heimili. Í gegnum músíkmúsina kynnast börn (og fullorðnir) unaðssemdum tónlistar, hljóðfærum sinfóníuhljómsveitarinnar og sagan sjálf ásamt tónlistinni fylgja með á geisladiski. 

Í dag kom Maxímús fram ,,live". Þegar við gengum vatnsgreidd og prúðbúin inn í Háskólabíó hrekkur upp úr syni mínum fjögurra ára: 

,,en akkuru spilar hljómsveitin í bíói - ekki tónlistarhúsi?" 

Tja... Þessarar sömu spurningar hefur íslenskt tónlistarfólk spurt sig í tugi ára! Stundum finnst mér sem lífið yrði léttara, réttlátara og sanngjarnara ef börnin héldu um stjórnartaumana.

Nú í kvöld kom þessi sami sonur hlaupandi inn í stofu með hrukku á enninu og spurði mig mjög alvarlegur á svip:

,,Mamma, hvað er frelsi?"

Stundum er allt annað en auðvelt að vera foreldri. Á hinn bóginn er oftrú ungviðisins á foreldrum sínum svo yndislega peppandi að gjörvöll líffæraflóran bráðnar saman í stolti og undrun. Eins og í vikunni þegar við nálguðumst höfuðstöðvar fjölskyldunnar á Sjafnargötu eftir vinnudaginn og sól skein í heiði. Yngri deildin ákvað að halda strax út í garð að njóta veðurblíðunnar og prófa hjól og frisbí-diska en mamman tók undir sig stökk upp tröppurnar til að stinga fisknum í ísskápinn sem hún keypti á heimleiðinni: og tilkynnir dótturinni það sem er þriggja ára.

Dóttirin horfði með aðdáun og stolti á mömmu sína við þessa tilkynningu og spurði: 

,,Varstu að veiða í dag, mamma?"

Svona getur lífið nú verið yndislegt. Miðað við andrúmsloftið í borgarstjórn Reykjavíkur þessi dægrin er reyndar glettilega lokkandi að bregða sér niður á höfn - sitja þar með fæturna fram af og dorga í soðið. Sem minnir mig samstundis á snillinginn Otis Redding.

Óskalag fyrir pabba sem missti vinnuna í vikunni eftir 38 ára samfellt starf - Njóttu vel.

Engin ummæli: