24 maí 2008

Fyrsta kertið af fjórum

Dagur barnsins er á morgun að frumkvæði ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur. Markmið hans er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi samverustunda barna og fullorðinna. Líklega verður það seint nógu oft sagt að við Íslendingar vinnum of langan vinnudag og börnin dvelja of lengi á leikskóla - og ein heima hjá sér þegar grunnskólinn tekur við. 

Dagur barnsins er í rökréttu framhaldi af öðrum velferðaráherslum þessarar ríkisstjórnar sem nú blæs á fyrsta kertið af fjórum á afmæliskökunni. 

Dagur barnsins er á morgun, sunnudag. Hátíð í Ráðhúsinu milli 14 og 15; börn syngja og spila, Skilaboðaskjóðan treður upp og Felix Bergsson stýrir. 

Einkunnarorð dagsins eru ,,Gleði og samvera". Fyrir gráglettni örlaganna held ég einmitt til útlanda á sunnudagsmorgun - í ferð á vegum borgarinnar... en mun reyndar kynna mér barnalistahátíðir í Bretlandi til undirbúnings fyrstu barnalistahátíð Reykjavíkurborgar vorið 2009. 

Kveðja, móðir í hjáverkum

22 maí 2008

,,Þessi stelpa fer í Eurovision"

Svo mælti Vanda Sigurgeirsdóttir, þá forstöðumaður Ársels, eftir að Regína hafði rúllað upp söngkeppni Ársels fyrir 17 árum. Stuttu seinna vann hún söngkeppni félagsmiðstöðva og þaðan lá leiðin í MH. Regína tók ekki strax þátt í söngkeppni MH þar sem kórdívurnar áttu gjarnan sviðið. Regína er engin kórstelpa, svo mikið er víst - og því þekkti listaklíkan Regínu lítið þegar hún söng þann geggjaða diskósmell Jóhanns Helgasonar ,,Í Reykjavíkurborg".

Það er skemmst frá því að segja að hátíðarsalur MH sat agndofa eftir flutninginn. ,,Hver var þessi stelpa"? Kórdívurnar voru dálítið abbó en samanborið við Regínu voru þær einfaldlega mjóróma amatörar. Regína var einfaldlega alvöru poppdíva. Ég brosti baksviðs, og rifjaði upp orð Vöndu - hún færi í Eurovision.

Það þarf ekki að taka það fram að Regína rúllaði upp söngkeppni MH þetta árið.

Ég vann hjá Sissu, mömmu Regínu, í bókabúð Eymundssonar á Seltjarnarnesi þegar ég var ennþá í MH. Seinna vann ég með þeim systrum Hildi og Regínu í Eymundsson Austurstræti, í mörg, mörg ár.

Regína var alltaf syngjandi. Og hún syngur aldrei feilnótu. Hún gerði það ekki áðan á sviðinu í Belgrad. Ég óska henni til hamingju með að vera komin í framlínu, búin að standa vaktina í bakraddakórnum í Eurovision í mörg ár.

Ég geri orð Sigmars að mínum: Loksins komumst við upp úr þessum bölvaða riðli.

Þá er það laugardagskvöldið. Regína er vön að sigra söngkeppnir svo við eigum von á góðu.

Innilega til hamingju með kvöldið - áfram Ísland.

Menntaskólinn við Hamrahlíð

Þetta líst mér vel á. Til að kóróna allt væri gott ef Þorgerður Katrín gæti friðað frábæra íslenskukennaradeild MH, kaffið í Maraþaraborg, dásamlegar minningar, Skaramúss, Terry & Wincie, sköpunargleði og kraft, Yndislestur, róttækni og hyldjúpa ævilanga vináttu, listakvöldin í Norðurkjallara og Sigga Hjartar.

Þá gæti þessi dagur ekki verið betri.

Látið okkur vera!


Þetta er rétt hjá Guðrúnu Ögmundsdóttur. Eitt sinn heyrði ég sögu af flóttamannafjölskyldu sem settist að í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Nokkrar íslenskar stuðningsfjölskyldur höfðu gefið kost á sér til halds og trausts og tóku hlutverk sitt alvarlega. Eftir nokkurra mánaða dvöl hafði einn flóttamaður samband við tengilið sinn hjá Rauða Krossinum og var allur hinn vandræðalegasti. 

Allt gekk vel, skólaganga barnanna, aðlögun fjölskyldunnar og öllum leið vel. En flóttamaðurinn vildi þó vekja máls á einu ,,vandamáli". 

Vandamálið reyndist helst vera það að hinar íslensku stuðningsfjölskyldur voru að kæfa hina landflótta fjölskyldu í umhyggju og vinahótum og þau báðust vægðar.

Þessi saga er gjarnan sögð þegar góður árangur Íslendinga í móttöku flóttamanna er reifaður. 

21 maí 2008

Tæp 80% kennara samþykktu samninginn!

Góðar fréttir að berast í hús. Allsherjaratkvæðagreiðsla um framlengingu og breytingar á kjarasamningi kennara við sveitarfélögin hefur farið fram og samningurinn var samþykktur með 79,2% atkvæða.

Þess ber að geta að rétt rúmur helmingur kennara samþykkti síðasta samning - eftir margra vikna verkfall. Þá var talað um að ríkisstjórnin hefði rekið þá til starfa og beiskjan sat í þeim mörgum. Skyldi engan undra.

Þátttaka kennara var mikil því 87,5% greiddu atkvæði sem er þó nokkuð!

Ég vil óska kennurum og launanefnd sveitarfélaganna til hamingju með daginn. Við höfum lært af biturri reynslu og vonandi heyra verkföll kennara og hatrammar deilur sögunni til.

Samningurinn er til eins árs og ég skora á báða aðila að nýta tímann ofurvel og vandlega.

Næsti samningur verður vonandi til lengri tíma og hann varðar framtíð skólastarfs á Íslandi.

20 maí 2008

Fólk & bílar

Einkabíllinn er búinn að fá sitt, þar er ég sammála Hönnu Birnu næsta borgarstjóra Reykjavíkur. Í allri umræðu um samgöngulausnir, þref um mislæg gatnamót versus stokkalausnir virðist gleymast sú leið sem tekur tillit til mannlífs, lýðheilsusjónamiða og viðkvæmra öndunarfæra smábarna, veikra og gamalla.

Nefnilega sú leið að hætta að setja einkabílinn í forgang. Hætta að taka fyrst og fremst tillit til keyrandi vegfarenda. Við höfum gert það lengi, einkabíllinn hefur fengið okkar athygli. Það er komið að þeim tímamótum að við bíleigendur verðum að aðlaga okkur breyttum aðstæðum.

Borgarskipulagið getur ekki endalaust lagað sig að einkabílnum. Heilsa barna og hagur heilla hverfa er í húfi hér. Við erum sprungin - fyrir löngu. Mengun í Reykjavíkurborg væri óbærileg með öllu ef við ættum ekki okkar sjálfvirka hreinsibúnað í rokinu og rigningunni sem sópar fúlu loftinu í burtu um stundarsakir. Mengunarmælingar við leikskóla sýna okkur svart á hvítu að nú er komið nóg.

Það er ótal margt hægt að gera, það er hægt að losa sig við bíl númer 2 (eða 3), nota strætó, sameinast í bíl, ganga og hjóla meira. Losa sig við nagladekk, keyra hægar. Hollt húsráð er að kaupa heilsársdekk á tveggja ára fresti - kostnaðar og öryggissjónarmiðum er mætt með því.

Ótrúlega hátt hlutfall bílferða (um 60%) eru innan við þriggja kílómetra langar.
1/6 bílferða eru innan við kílómetra langar!
Nú á okurtímum er til mikils að vinna að losa sig við annan bílinn, ganga og hjóla.
Ókeypis líkamsrækt, es klingt aber sehr lockend...

,,Þar sem fólki líður vel - þarf bílum að líða illa" sagði Andri Snær Magnason í elegíu sinni um Miðborg Reykjavíkur sem hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni Landsbankans árið 2004. Hann er í frábæru viðtali hjá Kristjönu á 24 stundum í dag. Mæli með því. Ég hef alltaf verið hrifin af lýsingu Andra á gardínunum í Héraðsdómi Reykjavíkur sem hann segir vera banatilræði við mannlíf í miðbænum. Auðvitað á Héraðsdómur að vera í Borgartúni, Ármúla eða bara Hádegismóum. Af hverju að hafa stofnun í hjarta borgarinnar sem hýsir starfsemi sem þolir svo illa dagsljósið að notendur fara helst inn og út úr því við ruslatunnur 10-11 - altsvo bakdyramegin?

Síðan væri gott að flytja starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg annað, það sögufræga hús á að fylla af lífi, gestum og gangandi. Safn, veitingastaður, íslensk hönnun?

Svona fyrst ég er byrjuð að skipuleggja miðbæinn upp á nýtt.

19 maí 2008

Whale & Whole Foods


Ég er sæl með að Samfylkingarráðherrar ætli ekki að styðja veiðar á hrefnu. Við munum öll hvernig hlutirnir æxluðust árið 2006 - fyrir þá sem ekki muna þá er hér gamall pistill sem ég skrifaði - í desember 2006. 

Pistillinn heitir Whale Foods. Það er útúrsnúningur á Whole Foods. 

Alltaf gaman að fólki sem útskýrir brandara. 

18 maí 2008

Íslenska stórfjölskyldukerfið og afslöppuð þjóð

Ég var vakin í morgun af vinkonu í Edinborg sem sagðist hafa séð mig á forsíðu Observer Magazine þegar hún skaust út eftir brauði í morgunsárið. Það er naumast. 


Íslensk hamingja dró blaðamanninn John Carlin upp á klakann í vetur. Hann vildi komast að því hver raunveruleg ástæða góðra lífskjara og sprúðlandi krafts og hamingju væri. 

Niðurstöðurnar má lesa hér. En í grófum dráttum má segja að frábært stórfjölskyldukerfi, hugrekki íslenskra kvenna, þátttaka íslenskra karla í uppeldi barna (sinna og annarra) og fordómaleysi Íslendinga í garð bútasaumsfjölskyldna séu hamingjuvaldarnir. Að mati John Carlin. 

Hann klykkir út með að líkja okkur við Afríkubúa hvað hugarfar okkar til barna snertir. 
Við eigum börnin saman - það hef ég líka alltaf sagt! 

Ég mæli með greininni. 

17 maí 2008

Músíkmús, börn sem ráðamenn og fiskin móðir


Ég fór með börnin á þeirra fyrstu Sinfóníutónleika í dag. Haffí flauta (Hallfríður Ólafsdóttir) á heiðurinn að kostulegri músíkmús, dillandi lagi og sögu. Tóti víóla (Þórarinn Már Baldursson) myndskreytti bókina sem ég mæli hiklaust með, sjaldan hefur jafn gott efni ratað inn á mitt heimili. Í gegnum músíkmúsina kynnast börn (og fullorðnir) unaðssemdum tónlistar, hljóðfærum sinfóníuhljómsveitarinnar og sagan sjálf ásamt tónlistinni fylgja með á geisladiski. 

Í dag kom Maxímús fram ,,live". Þegar við gengum vatnsgreidd og prúðbúin inn í Háskólabíó hrekkur upp úr syni mínum fjögurra ára: 

,,en akkuru spilar hljómsveitin í bíói - ekki tónlistarhúsi?" 

Tja... Þessarar sömu spurningar hefur íslenskt tónlistarfólk spurt sig í tugi ára! Stundum finnst mér sem lífið yrði léttara, réttlátara og sanngjarnara ef börnin héldu um stjórnartaumana.

Nú í kvöld kom þessi sami sonur hlaupandi inn í stofu með hrukku á enninu og spurði mig mjög alvarlegur á svip:

,,Mamma, hvað er frelsi?"

Stundum er allt annað en auðvelt að vera foreldri. Á hinn bóginn er oftrú ungviðisins á foreldrum sínum svo yndislega peppandi að gjörvöll líffæraflóran bráðnar saman í stolti og undrun. Eins og í vikunni þegar við nálguðumst höfuðstöðvar fjölskyldunnar á Sjafnargötu eftir vinnudaginn og sól skein í heiði. Yngri deildin ákvað að halda strax út í garð að njóta veðurblíðunnar og prófa hjól og frisbí-diska en mamman tók undir sig stökk upp tröppurnar til að stinga fisknum í ísskápinn sem hún keypti á heimleiðinni: og tilkynnir dótturinni það sem er þriggja ára.

Dóttirin horfði með aðdáun og stolti á mömmu sína við þessa tilkynningu og spurði: 

,,Varstu að veiða í dag, mamma?"

Svona getur lífið nú verið yndislegt. Miðað við andrúmsloftið í borgarstjórn Reykjavíkur þessi dægrin er reyndar glettilega lokkandi að bregða sér niður á höfn - sitja þar með fæturna fram af og dorga í soðið. Sem minnir mig samstundis á snillinginn Otis Redding.

Óskalag fyrir pabba sem missti vinnuna í vikunni eftir 38 ára samfellt starf - Njóttu vel.

15 maí 2008

Lélegir neytendur

Við erum það - hundlélegir neytendur. Við eyðum miklu og oft um efni fram en niðurstöður skýrslu sem Félagsvísindastofnun HÍ vann fyrir Viðskiptaráðuneytið og var kynnt á Neytendaþingi í gær leiðir okkur í allan sannleikann um það að neytendavitund okkar Íslendinga er lítil.

Dr. Gunni fékk neytendaverðlaunin sem voru veitt í fyrsta skipti - algjörlega frábært og ég vona að Dr. Gunni haldi áfram að upplýsa okkur grunlausu neytendurna um okur, svik og pretti.

Ég mæli með lestri skýrslunnar - og ég segi það og meina af fúlustu alvöru að hún er stórfróðleg og mjög skemmtileg!

Það þarf að stórauka fræðslu um neytendamál, upplýsa um réttindi, kæruferla og lagabókstafinn sem styður neytendann í frumskógi verslunar og þjónustu.

Neytendalög eru t.a.m. ekki til - lög sem verja rétt neytendans eru á tvist og bast í hinum og þessum löggjöfum. Úr þessu þarf að bæta.

Auglýsingar sem beinast að börnum á auðvitað að banna - strax. Það er meirihluti fyrir því samkvæmt könnun á viðhorfi Íslendinga til neytendamála sem kunngjörð er í skýrslunni.

Dóttir mín fékk föt í afmælisgjöf síðustu helgi sem eru of lítil. Á spjaldinu sem hangir í fötunum segir að ég hafi tíu daga til að skila fötunum. Stenst það lög?

Í einu dýrasta landi heims er löngu orðið tímabært að viðskiptaráðherra standi með neytendum. Ég er ánægð með Björgvin G. Sigurðsson.

14 maí 2008

Fátt er svo með öllu illt...

Það má lesa margt út úr nýjustu skoðanakönnuninni - en F-listinn í Ráðhúsinu getur hið minnsta flautað lítinn lagstúf í góða veðrinu í dag.

Áfram Skagamenn!

Fréttaflétta dagsins hefur verið með ótrúlegasta móti. Nýr meirihluti myndaður í bæjarráði Akraness sem einangrar Magnús Þór Hafsteinsson - og hans viðhorf til móttöku flóttamanna á Íslandi.

Bæjarstjórinn Gísli segir að fréttir af því að fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks í Velferðarráði Reykjavíkurborgar hefðu lagt fram tillögu um að bjóða flóttamennina velkomna til Reykjavíkur hefði verið dropinn sem fyllti mælinn.

Í tilkynningu frá kempunni Björku Vilhjálmsdóttur sagði meðal annars: „Það er mat okkar að ekki sé leggjandi á flóttafólk að flytjast í bæjarfélag þar sem formaður félagsmálaráðs er á móti komu þeirra og vinnur opinberlega gegn dvöl þeirra þar.”

Áfram velferðarráð Reykjavíkurborgar!

Ég lýsi hér með yfir stuðningi við nýjan meirihluta á Akranesi. Ég lýsi því yfir að ég treysti Skagamönnum fullkomlega til að taka á móti landflótta mæðrum og börnum þeirra frá Palestínu. Akranes er sveitarfélag í örum vexti, vel í sveit sett og blómlegt að öllu leyti. Hjá bænum starfar harðsnúið og öflugt fólk á vettvangi skóla, leikskóla, félagsþjónustu og ekki síst hefur Rauða Kross deildin á Akranesi yfir einvalaliði að búa.

Enda skilst mér að það sé mikill stuðningur við komu hópsins innan bæjarkerfisins á Akranesi.

Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu. Móttaka flóttamanna er ein af þeim skyldum. Það er gott að andstaða við slíkt sé jörðuð í fæðingu.

09 maí 2008

Hraust fjölbyrja

Ég hitti svo stórskemmtilega og gáfaða konu um daginn sem deilir með mér reynslu af nokkurra daga legu á sængurkvennagangi Landspítalans. Eftir fjörugar samræður yfir hrikalega góðum mat á næstu grösum varð okkur ljóst að við þyrftum að standa fyrir átaki um bætta aðstöðu mæðra & feðra á sængurkvennagangi. Nánar um það síðar.

Að skilnaði lofaði ég að senda henni grein sem ég skrifaði þegar ég gekk með dóttur mína og var með rúmlega eins árs gamalt barn í húsi. Greinin er lofgjörð til móðurhlutverksins og viðeigandi að birta hana hér þar sem dóttir mín verður þriggja ára á morgun. Um daginn ræddi ég femínisma við hinn skemmtilega og róttæka femínista Sóleyju Tómasdóttur og hún skilgreindi mig sem ,,eighties-femínista" - með mæðrahyggju á háu stigi. Ég var nú nokkuð stolt af þeim titli en grunar að Sóleyju þyki hann púkó. En sem betur fer erum við ekki allar eins og það er dásamlega gaman að þekkja Sóleyju Tómasdóttur.

En hér er greinin - vessgú.

Eftir nokkrar vikur verð ég tveggja barna móðir. Fyrir rúmlega tveimur árum var ég nýútskrifuð úr skóla, tvístígandi og áhyggjufull yfir vaxandi flösu í hári mínu og svimandi háu leiguverði í miðbæ Reykjavíkur. Ef ég hefði rekist á völvu á bar fyrir rúmum tveimur árum og hún spáð fyrir barnafjöld og fjölskyldulífi innan svo skamms tíma, hefði ég líklega kíkt á botninn á kristalskúlunni hennar til að gá hvort þar stæði: Made in Taiwan.

Svo fjarstæðukennd var sú hugsun að ég yrði móðir tveggja barna. Fjölbyrja heitir það víst. Á mæðraskýrslunni minni stendur ,,Hraust fjölbyrja", ég held að það sé virðulegasti og jafnframt skondnasti titill sem mér hefur hlotnast að bera. Og hin níu mánaða langa bið eftir barni er á margan hátt eitt hið virðulegasta og jafnframt skondnasta tímabil sem ég hef upplifað. Oft er talað um að konur gangi í gegnum hreinsunareld á meðgöngu, taki til í skúffum fortíðar og viðri gamla, fúla drauga úti á svölum. Sumar pússa og fægja fjölskyldumyndarammana og gera öllum skyldmennum sínum ljóst hvað þeim þyki mikið, eða lítið, varið í þá. Uppgjör eru algeng á meðgöngu, það er engu líkara en að hið ófædda barn knýi þegjandi og hljóðalaust á um að heimurinn, sem það mun bráðlega skrá sig til heimilis í, sé heill og bjartur. Engir lausir endar og ósögð orð. Bara auð og óskrifuð blöð og hrein samviska svo langt sem augað eygir.

Sumum konum er illa við þessa mömmudramatík og leggja á það ríka áherslu að meðganga sé ekkert mál. Að fæða börn sé ekkert mál. Brjóstagjöfin jafnvel enn minna mál. Þetta sé náttúrulegt ferli og hverri konu í blóð borið. Við eigum bara að ganga með börnin, eiga þau og halda svo áfram að vinna og vera töff konur sem geta allt. Pís of keik. Nú, þegar kemur að uppeldi barna, má öllum vera ljóst að þar er á ferð algjörlega ofmetið fyrirbæri. Það er hlægilega lítið mál, bara að setja fáar og góðar reglur og þá verður þetta eins og að drekka vatn. Muna að faðma börnin sín og örva þau, kynna fyrir þeim frumefnin fjögur og fordómaleysi, kenna þeim að elska náungann, hoppa í snú-snú, virða náttúruna, kúka í kopp og poppa popp. Og hlusta á Pétur og úlfinn. No problem.

En ég er ekki alveg sannfærð. Ég veit ekki hvort ég geti kvittað fyrir það að börn og uppeldi barna sé auðvelt. Það er yndislegt, en flókið. Dásamlega ruglandi. Undursamlega óvænt og sjokkerandi. En ég get þó samþykkt eitt: það er náttúrulegt. En það sem er náttúrulegt er ekki endilega alltaf auðvelt því náttúran gefur og tekur. Það vitum við Íslendingar kannski þjóða best. Náttúran getur verið bæði hrikalega grimm og ofboðslega falleg.

Mér finnst sorglegt að hugsa til þess að fólk sé farið að líta meðgönguna og barnauppeldi hversdagslegum augum. Ég vil að meðgangan sé áfram sveipuð dulúð og kynngikrafti, að barnshafandi konur séu hylltar og vegsamaðar og þeim sé hrósað, hlíft, hælt og hjálpað. Það er kannski óþarfi að almenningur falli á kné og lúti höfði í Kringlunni ef ólétt kona rápar á milli búða eða að bílaumferð stöðvist þegar kjagandi kona kemur fyrir hornið. Og auðvitað mega ófrískar konur ekki upplifa sig sem heilagar kýr, leggjast með tærnar upp í loft og láta sér leiðast, ef heilsan býður að þær séu virkar í sínu daglega amstri.

En þetta kraftaverk má heldur ekki verða að einhverju sem nútímaofurkonan innir af hendi án þess að blása úr nös. Og afgreiðir eins og hvert annað verkefni áður en hún snýr sér að því næsta. Ef konur halda að sú hegðun sé til fyrirmyndar í femínísku tilliti og í jafnréttissinnuðum anda, eru þær á villigötum. Femínisminn á að undirstrika kvenleikann og þau mörgu hlutverk sem kvenlíkaminn getur brugðið sér í. Okkur, börnunum okkar og karlmönnum er enginn greiði gerður með því að gera lítið úr sköpunarverkinu.

Nú ætla ég þessum pistli ekki að vera hvatning til kvenna til sjávar og sveita, að þær grípi næsta spegil, vippi sér úr brókinni og spjalli dálítið við pjásuna sína, safni hári í handarkrikum, dansi naktar í fjörunni við tónlist Tracey Chapman og taki upp millinafnið Kona. Það er af og frá, hver og ein kona verður auðvitað að upplifa kvenleika sinn með sínu sniði, á sínu skinni og með sínu nefi. En varðandi hina alræmdu mömmudramatík vil ég benda á að barnlausar konur eiga það einnig til að finna henni allt til foráttu - eflaust hef ég gert það sjálf þegar ég barðist við fjandans flösuna og hafði ekki áhyggjur af neinu nema lónni í mínum eigin nafla og hvort ég ætti að fara í klippingu í þessari viku eða næstu. Sú kona lét sér fátt um galdra lífsins finnast, yppti bara öxlum og hugsaði með sér: Þetta getur nú ekki verið svo mikið mál.

Ég er þessari konu ekki reið og mér finnst hún hvorki vitlaus né ónærgætin. Hún bara vissi ekki betur.


Greinin birtist í Nýju Lífi árið 2005

08 maí 2008

Ólga í Ráðhúsi

Ráðning verkefnastjóra miðborgarinnar, hvernig hún bar að og á hvaða launakjörum hann verður á - veldur gríðarlegum titringi meðal starfsmanna borgarinnar. Ég vil taka það fram að ég held að nýráðinn verkefnastjóri muni standa sig vel í starfi, hann er lífsglaður og kraftmikill maður sem ég hef þekkt af góðu einu undanfarin ár.

Persóna Jakobs Frímanns er ekki mergurinn málsins hér. Ráðningu hans er einfaldlega ekki skynsamlega háttað, síst af öllu fyrir hann sjálfan. Launakjör hans skapa úlfúð í hópi annarra starfsmanna Ráðhúss og Reykjavíkurborgar. Hann er pólitískt ráðinn, sérlegur ráðgjafi borgarstjóra en þó situr hann í nefndum og ráðum sem kjörinn fulltrúi væri. Ekkert umsóknarferli, ekkert óháð mat. En svimandi há laun.

Laun framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar, sem jafnframt eru framkvæmdastjórar stórra hverfa eru um 632.636 krónur - með akstri og öllu. Þeir hafa 300 manns undir sér, bera ábyrgð á pólitískum hverfisráðum, öllum samskiptum við Ráðhús og sitja í ótal vinnuhópum. Hörkuduglegir starfsmenn borgarinnar sem voru ráðnir til starfa eftir settum reglum, umsóknarferli og óháðu mati. Verkefnisstjóri miðborgarinnar verður með 861.700 krónur. Engin furða þó fólk sé reitt.

Gagnsæi og almennar leikreglur eru algjört höfuðatriði í stjórnmálum í dag. Kjósendur verða að geta treyst okkur sem erum í vinnu hjá þeim - treyst því að við virðum reglurnar. Treyst því að við förum eftir þeim.

Af hverju ætti hæfileikaríkt fólk að sækja um spennandi störf hjá Reykjavíkurborg ef þetta eru skilaboðin til þess?

Reykjavíkurlistinn var í mörg ár að hreinsa upp óheilbrigða og gallsúra stjórnsýslu íhaldsins þar sem reglur voru ekki virtar. Stjórnsýslu sem gerir vinum sínum greiða. Við skulum ekki stíga skrefið afturábak til þess tíma.

Þó tilhneigingin hafi vissulega verið til staðar á þessu kjörtímabili.

05 maí 2008

Ljáðu því eyra

Á morgun er megrunarlausi dagurinn.

Það þýðir ekki að við tökum til óspilltra málanna og borðum yfir okkur af djúpsteiktum mat.

Vonandi færir megrunarlausi dagurinn okkur nær því að láta af landlægum fordómum okkar í garð feitra, þybbinna og holdgóðra.

Fögnum margbreytileikanum

Gerum ekki ráð fyrir því að feitir séu óheilbrigðir og grannir heilbrigðir.

Hættum að hrósa fólki fyrir að missa nokkur kíló.

Hættum að skammast okkar fyrir að uppfylla ekki staðalímyndir sem aðrir hafa búið til.

Ljáum því eyra sem við þurfum að heyra.

-Nefndin-

03 maí 2008

Krossferð borgarstjóra

Ég sat fund í leikfimisal gamla Miðbæjarskólans í dag sem bar yfirskriftina ,,1, 2 og miðborg". Íbúar og borgaryfirvöld krunkuðu þar saman um málefni tengd miðbænum og fóru yfir ábendingar sem bárust inn á vefinn ,,1, 2 og Reykjavík".

En borgarstjóri er kominn í krossferð. Hann gerði sér lítið fyrir á fundinum og dró upp kort af verðlaunatillögunni úr Vatnsmýrarsamkeppninni og fann henni allt til foráttu. Meðal þess sem hann fussaði og sveiaði yfir var að tillagan:

a) er úr takti við þarfir íslensks samfélags

b) stangast algjörlega á við umferðarskipulag á svæðinu

c) gerir ráð fyrir allt of stórri tjörn á þessu meinta verðmæta svæði (bíddu, viljum við ekki standa vörð um útivistarsvæði?)

d) setur skipulag á svæðinu í uppnám sökum þess hversu illa hún er hugsuð.

e) beinlínis truflaði framgang skipulags- og samgöngumála í miðbænum.

f) hefur ekkert gildi því hann sem borgarstjóri hefði auðvitað meira um það að segja hvernig uppbygging í 102 Reykjavík yrði - meira en e-ir verðlaunahafar í e-i samkeppni.

Mikið er ég fegin að borgarstjóri skuli hafa meira vit á skipulagsmálum og fagurfræði, uppbyggingu risavaxins svæðis og framtíðarþróun heillar borgar heldur en heimsfrægir skipulagsfræðingar og arkitektar. Við skulum bara henda þessum 136 tillögum sem bárust í keppnina - en halda kannski eftir þeim þremur sem gerðu ráð fyrir því að flugvöllurinn væri áfram í Vatnsmýrinni.

Það er bara eitt sem ég klóra mér í hausnum yfir - hvað segja borgarfulltrúarnir sem sátu í dómnefndinni ásamt þeim nafntoguðu arkitektum sem völdu tillögu Skotanna sem þá bestu?

Hvað segja borgarfulltrúarnir sem völdu þessa tillögu úr hópi 136 tillagna, borgarfulltrúarnir sem dásömuðu tillöguna og töldu hana einmitt mæta þörfum Reykjavíkur og kallast á við hið besta úr reykvískri skipulagssögu og byggingarlist?

Hvað segja Hanna Birna og Gísli Marteinn um orð borgarstjóra? Hvað segja þau um krossferð borgarstjóra um hverfi borgarinnar þar sem hann beinlínis ,,hraunar" yfir verðlaunatillöguna Skotanna og störf alþjóðlegrar dómnefndar sem sat með sveittan skallann í þrjú ár og kom málefnum flugvallarins loksins upp úr djúpum hjólförunum?

Ætla Hanna Birna og Gísli Marteinn endanlega að láta ýta sér og sínum skoðunum út af borðinu af Ólafi F. Magnússyni?
Hvað með málefnasamninginn - samkomulag þeirra á milli? Munu þau ekki krefjast þess að hann dragi orð sín til baka?

Þess ber að geta að 1, 2 og miðborg er síðasti samráðsfundur borgarstjóra og íbúa. Fyrirlesturinn um ömurlegu verðlaunatillöguna hefur verið fluttur á nokkrum þeirra, a.m.k. á ,,1, 2 og Laugardalur" og ,1, 2 og Háaleiti" - kannski þeim öllum.

Á einum fundinum tiltók hann sérstaklega að verðlaunahafarnir væru ekki íslenskir og skildu því ekki þarfir íslensks samfélags.

Það er nefnilega það. Hanna Birna sagði einmitt við afhendingu verðlaunanna að dómnefndin hefði vart trúað því að verðlaunahafarnir væru útlendingar - svo íslensk var tillagan að þeirra mati.

Það er spurning hvort yfirskrift fundanna hefði ekki átt að vera ,,1, 2 og Reykjavíkurflugvöllur".

01 maí 2008

Maísól

Hún skein skært maísólin okkar í dag. Enda brenna víða eldar heitir í þjóðfélaginu í dag og sannarlega þarfur boðskapur sem félagshyggjuöflin og verkalýðsfélögin kyrja um stræti og torg á þessum fyrsta degi maímánaðar, degi verkalýðsins.

Maísólin heita skein á félaga í verkalýðshreyfingum, hún skein á Frammara og Víkinga sem fögnuðu aldarafmæli sínu í dag. Hún skein á framúrskarandi starfsfólk BUGL, prófessor Rannveigu Traustadóttur og ráðherra félagsmála Jóhönnu Sigurðardóttur sem fengu félagshyggjuverðlaun UJ í dag.

Sólbökuð höldum við hjónaleysin nú í Þjóðleikhúsið. Söngleikur um diskó og pönk verður sýndur í fyrsta skipti nú í kvöld.
Bóndi minn lofar góðri skemmtun. Ég trúi honum.