Ég leita stundum uppi sniðuga fyrirlestra á þessari frábæru síðu; www.ted.com. Þar er að finna allt milli himins & jarðar en þessi er ekki fyrir viðkvæmar foreldrasálir.
31 ágúst 2008
Gever Tulley & Herdís Storgaard
29 ágúst 2008
Bókmenntaborgin Reykjavík
Í bókmenntaheimum er mikið rætt um þann heiður sem íslenskum bókmenntum verður sýndur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Það ár verður Ísland aðalgestur messunnar sem mun draga gríðarlega athygli að íslenskum bókum og rithöfundum.
Í kjölfarið hefur olíu verið kastað á gamlar glæður og ekki er þar minna spennandi verkefni á ferðinni. Nefnilega sá möguleiki að Reykjavík öðlist þann sess að verða ,,bókmenntaborg UNESCO" - eða UNESCO City of Literature.
Þennan draum hafa margir talsmenn íslenskra bókmennta alið með sér um hríð en það má segja að hjólin séu farin að snúast hraðar nú en áður. Að frumkvæði Katrínar Júlíusdóttur þingkonu mun undirbúningshópur koma saman í haust með fulltrúum menntamálanefndar Alþingis, ráðuneytis menntamála og Reykjavíkurborgar. Eins hafa bókaútgefendur og það ágæta fólk sem skipuleggur aðkomu Íslands að bókamessunni 2011 talað sig saman og mikill hugur er í fólki að fá unga sem aldna rithöfunda með í undirbúning verkefnisins.
Svo vel ber í veiði að við Íslendingar eigum sérfræðing í þessum málum sem búsettur er í Edinborg, en sú borg ber einmitt hinn rómaða titil, ,,Bókmenntaborg UNESCO". Sá sérfræðingur heitir Auður Rán Þorgeirsdóttir og hennar lokaritgerð frá háskólanum í Edinborg fjallaði um það ferli sem Edinborg fór í gegnum til að landa titlinum eftirsótta.
Lítil sendinefnd frá Reykjavíkurborg, ég og tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hittum téða Auði í Edinborg í vor á ferð okkar um Bretland og Skotland til að skoða barnalistahátíðir. Þar leiddi hún okkur í allan sannleikann um þetta verkefni sem kvisaðist svo út til fulltrúa í menntamálanefnd Alþingis. Og eins og fyrr segir leiðir Katrín Júlíusdóttir undirbúningshópinn sem senn mun funda í fyrsta sinn og vonandi njótum við krafta Auðar Ránar svo þessi draumur megi rætast.
Þeir þættir sem helst er horft til þegar slíkur heiður er veittur til borga eru;
Rík bókmenntahefð, merkilegur bókmenntaarfur og orðspor lands og borgar t.d. hvort borgin státi af rómaðri bókmenntahátíð.
Allt er þetta til staðar í Reykjavík - og gott betur.
28 ágúst 2008
Af boðsferðum
Ég er sammála félaga mínum Stefáni Jóhanni Stefánssyni um margt. Margir vilja bjóða borgarfulltrúum í hitt og þetta, golf og útreiðartúra og margir þeir viðburðir byggja á gömlum merg og gamalli hefð. Það má því kannski teljast eðlilegt að fólk hafi ekki spurt sjálft sig í gegnum tíðina - er þetta eðlilegt?
Meistari tungumáls og andagiftar
...allt, sem eftir oss liggur í hinum sýnilega heimi, týnist með kulnuðum eða logandi hnetti út í tómið, með jörð, sem hefur lokið ætlunarverki sínu og verður köld og dimm og líflaus eyðistjarna á öræfaslóðum geimsins, eða blossar upp og hverfur samstundis. En yfir oss hvílir annað og meira en hverfulleiki duftsins, sem vér lifum í og fæðumst og nærumst af. Yfir oss hvílir auglit hins eilífa og orð hins eilífa í náð og í dómi.“
Úr prédikun Sigurbjörns Einarssonar. Það er magnaður lestur að fara í gegnum texta Sigurbjörns, þvílík tök sem hann hafði á íslenskri tungu.
Hér er afbragðs góð mynd dregin upp af manninum, prédikaranum og orðsnillingnum - eftir Sigurð Árna Þórðarson.
Blessuð sé minning Sigurbjörns Einarssonar.
27 ágúst 2008
Eins og fullur Svíi...
Ég brá mér í Norræna húsið á eitt af mörgum afmæliskvöldum hússins en það eru 40 ár síðan húsið var vígt. Húsið sjálft er dásamlega vel lukkað að innan sem utan - svo útsjónarsöm er hönnun hússins að hvert einasta sjónarhorn er fallegt, hvort sem ég sit eða stend í kaffiteríu, sal, frammi á gangi eða inni á bókasafni.
26 ágúst 2008
Einmitt!
Ósköp var gaman að vakna upp við það að heyra borgarstjóra lýsa þeirri skoðun að nýja hugsun vanti í þjónustu frístundaheimila. Eða eins og hún sagði sjálf: ,,Hvernig samþættum við betur þjónustu skóla og frístundaheimila...?" og einnig ,,við stöndum frammi fyrir því að fá ekki fólk til þessara starfa (...) og þess vegna þurfum við kannski nýja hugsun ..."
Um þetta má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Og hér (leiðari blaðsíðu 14). Tjarnarkvartettinn setti þessa góðu hugmynd á dagskrá í janúar síðastliðnum og gerði gott betur með því að mæla fyrir því í borgarstjórn (liður 2) og borgarráði (liður 32) á vordögum.
Á þessu hausti stefnir í að tæplega 3000 umsóknir fyrir börn í 1.-4. bekk skili sér inn til ÍTR. Það er jafn og þéttur stígandi ár frá ári og því löngu morgunljóst að það fyrirkomulag sem við búum við í dag er úr sér gengið.
Borgarstjóra er guðvelkomið að skreyta sig með þessum stolnu fjöðrum því að mínu mati er sama hvaðan gott kemur.
22 ágúst 2008
Bein útsending á Grænuborg
Bóndi minn leit við á leikskóla barnanna í hálfleik og þar var geggjuð stemning. Börnin voru hvött til að mæta í fötum í fánalitum í dag, þau veifa íslenskum fána og í stórasal er bein útsending frá leiknum. Þriggja ára heimasætan fór í bláum kjól með rauðum og hvítum hjörtum í skólann í morgun, með íslenska fánann í höndinni. Foreldrar voru boðnir velkomnir að fylgjast með leiknum og það þykir mér til fyrirmyndar, skólarnir ættu einmitt að nýta hvert tækifæri til að tengja saman foreldra og börn í skólunum.
Meira um frístundaheimili & skóla
Mér þótti súrt í broti að heyra að skipta ætti um formann í menntaráði á miðju kjörtímabili (ekki vegna þess að ég sakna fráfarandi formanns af persónulegum ástæðum heldur vegna þess að menntaráð er eitt allra mikilvægasta fagráð borgarinnar með mjög viðamikil verkefni á sinni könnu og gríðarlega ábyrgð á velferð þúsunda barna og kennara í Reykjavík).
Frístundaheimili & skólar
200 starfsmenn vantar á frístundaheimili borgarinnar og stefnir í að hundruðir barna í 1.-4. bekk eigi ekki í nein hús að venda eftir að skóla lýkur á daginn. Þetta er gömul saga og ný og tími til kominn að skoða aðrar lausnir.
20 ágúst 2008
Áfram Ísland
Það er undantekningalítið gaman að vera Íslendingur. En alveg sérstaklega þegar okkur gengur vel í handbolta.
18 ágúst 2008
Wild moves and savvy battle for chairs...
Framkvæmdastýra UJ er góður penni eins og raunar allir pennar á Vefritinu. Eva Bjarnadóttir á grein dagsins og fer þar á kostum. Greinin er ætluð til kynningar á gleðiborginni Reykjavík, er á ensku og lýsir athyglisverðum uppákomum í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Tákn nýrra tíma í utanríkisráðuneytinu
Í dag á fröken Reykjavík afmæli og hún fær mínar bestu afmælisóskir. Í kjölfarið kemur menningarnótt - sem verður um næstu helgi - og þar kennir ýmissa grasa eins og venjulega.
Eitt það athyglisverðasta sem verður á boðstólum er á vegum Utanríkisráðuneytisins - í fyrsta sinn (og fyrst allra ráðuneyta) verður almenningi boðið að skoða húsakynni utanríkisráðuneytisins og kynna sér starfsemi þess. Þetta er tímanna tákn því utanríkisráðuneytinu hefur ekki beinlínis verið stjórnað þannig í gegnum tíðina að almenningur ætti mikla hlutdeild í því. Utanríkisþjónustan er þó þjónusta allra landsmanna og stendur vörð um um hagsmuni ríkisins á erlendri grundu. Þjónusta þess á ekki að einkennast af launhelgi og því á ekki að vera stjórnað eins og um einkaklúbb væri að ræða.
Næstkomandi laugardag verða starfsmenn á staðnum að kynna sín störf og boðið verður upp á fyrirlestra, tölvukosningu til öryggisráðs SÞ, sýningu á vegum friðargæslunnar, á veggjunum verða verk listamanna sem tekið hafa þátt í Fenyja-tvíæringnum, Ólöf Arnalds verður með tónlistaratriði, teiknisamkeppni verður fyrir börnin og þau fá að velja sér andlitsmálningu úr fánum heimsins.
Ferskir vindar leika sannarlega um ráðuneyti utanríkismála - einhvern veginn þykir mér ólíklegt að forverar núverandi utanríkisráðherra hafi lagt sig eftir því að opna ráðuneytið upp á gátt, bjóða fólki í heimsókn og það alla leið inn á skrifstofu ráðherra.
Hvað þá andlitsmálningu fyrir börnin.
15 ágúst 2008
Marsibil - sagan endurtekur sig.
Það var ýmislegt sem fór í gegnum huga minn í janúar þegar Ólafur F. Magnússon og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta. Það sem mér blöskraði þó mest var framkoma Ólafs - og Sjálfstæðisflokksins - við Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur. Margrét hafði að mestu séð um málefni F-listans í borgarstjórn vegna veikinda Ólafs. Margrét og Guðrún áttu ekki lítinn þátt í 10% fylgi F-listans í kosningunum 2006 enda fara þar heiðarlegar, skapandi og réttsýnar manneskjur sem gott er að vinna með.
Þá skildist manni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið miður sín yfir því að Margréti og Guðrúnu vantaði í hópinn og eðlilega kviðu borgarfulltrúar því að Ólafur F. Magnússon mætti svo til einn í nýja samstarfið - án síns varamanns, enginn til að manna formennsku í ráðum og nefndum.
Margrét og Guðrún voru sigurvegarar gærdagsins, ósköp sem ég held að þær hafi verið glaðar að hafa ekki tekið þátt í myndun meirihlutans í janúar!
En lítið hefur fólk lært. Í annað skipti gengur karlmaður í oddvitasæti freklega framhjá kvenkyns varamanni sínum, manneskju númer tvö á lista. Marsibil hafði sannarlega gert honum grein fyrir því að hún ætlaði ekki að kasta björgunarhring til Sjálfstæðismanna, hún ætlaði ekki að styðja nýja meirihlutann. Samt lýgur Óskar því blákalt að fjölmiðlum að samskipti þeirra hefðu verið með öðrum hætti - hann ætti eftir að ,,kynna málið betur fyrir henni". En hann var sannarlega oft búinn að ráðfæra sig við ,,þungaviktarMENN" í Framsóknarflokknum. En gleymdi óvart sínum helsta samstarfsmanni, Marsibil Jónu Sæmundardóttur.
Ég er stolt af Marsibil. Hún hefur fína reynslu í borgarmálunum, hefur verið varaborgarfulltrúi í sex ár og farið með formennsku í ráðum. En hún treystir sér ekki í þetta samstarf og stendur með sjálfri sér.
Það er gaman að velta því fyrir sér hvort þetta yfirgengilega virðingarleysi hefði átt sér stað ef varamenn Ólafs F og Óskars Bergssonar hefðu verið karlkyns. Ég efast um það.
En stóra spurningin er: Af hverju lét Hanna Birna þetta gerast í tvígang, eftir að hafa brennt sig á því einu sinni?
Næsta manneskja á eftir Marsibil á lista er Ásrún Kristjánsdóttir. Hún er hætt í Framsókn.
13 ágúst 2008
Hallveig
Hallveig er nýtt nafn á félagi ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. UJ samþykkti nýverið að skíra félögin sín í höfuðið á þekktum bókmenntapersónum. Ugla heitir félag ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum og nú er Hallveig orðin til - nafnavalið fór fram á aðalfundi UJR/Hallveigar í kvöld, á Hallveigarstíg 1.
06 ágúst 2008
Ég gefst upp
Ég tel mig ala börn mín upp í jafnréttissinnuðum anda.