28 mars 2008

Lengi býr að fyrstu gerð

Hún er skemmtileg umræðan sem hefur blossað upp síðustu daga og vikur um gildi heimanáms, nú síðast á Bylgjunni í gær. Umræðan hófst vegna frétta frá Bretlandi en þar hafa stærstu samtök kennara gengið fram fyrir skjöldu og mælt með endalokum heimanáms fyrir 5-11 ára gömul börn.

Þegar ég var formaður menntaráðs settum við einmitt hóp af stað sem átti að skoða heimanám - kosti þess og galla. Eitthvað er ég hrædd um að hann sé á svefnlyfjum núna í fangi núverandi meirihluta - eins og svo margt annað því miður.

Að mínu mati á heimanám barna á þessum aldri, frá ca. 5-11 ára, að snúast um lestur í víðasta skilningi þess orðs. Lestur, læsi, lesskilningur, uppgötvun bóka, hlustun, orðaforði, orðagnótt, krossgátur, orðaleikir, rím, vísur, samtal, spjall. Allt eru þetta ómetanleg verðmæti og undirstaða alls náms. Þarna skipta foreldrar, systkini, ömmur og afar öllu máli. Heima gefst tækifæri til að þroska ýmsa þætti tungumálsins sem ekki gefst tækifæri til í skólanum.

Þess vegna stökk minn meirihluti menntaráðs til og gerði samning við nýstofnaða rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi í KHÍ. Þær rannsóknir munu byggja undir þekkingu okkar á því hvernig íslensk börn læra að tala, hlusta, skilja, lesa og læra. Takið eftir því að ÞROSKI er einn af rannsóknarþáttunum.

Því hver ætli sé helsti forspárþáttur um krefjandi hegðun barna um ellefu ára aldur?

Rétt svar: Orðaforði barnanna og ýmsir þættir tengdir máltöku um fimm ára aldur.

Lesturinn og tungumálið er allt. Lengi býr að fyrstu gerð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég man að það var tekið strangt á þessu með heimalærdóminn þegar ég bjó í Noregi með þeim hætti að bannað var að setja okkur fyrir um helgar og reyndar man ég ekki eftir miklum heimalærdómi yfirleitt. Kannski þess vegna sem ég náði svona góðum tökum á norskunni þar sem ég fékk að spreyta mig í tómstundum í fjölbreyttum leik við innfædda ;) Kaupi það alveg. Skólinn var líka það góður að maður gat leikið sér áhyggjulaus í frístundum.

Nafnlaus sagði...

Ég fór yfirum á heimanámi og sleppti ég þó um 90% af þeim verkefnum sem átti að leysa. Skólafélagar mínir sem leystu öll verkefni fóru enn verr út úr lífinu og eru nú sumir í ríkisstjórn.

Nafnlaus sagði...

Er búin að kenna í yfir 20 ár og er á nákvæmlega sömu skoðun og þú. Heimanám á að snúast um lestur og aftur lestur. Annað heimanám er óþarft og börn á þessum aldri hafa nóg annað fyrir stafni en að eyða tíma í það.
Með góðri kveðju
Aðalheiður