27 ágúst 2008

Eins og fullur Svíi...

Ég brá mér í Norræna húsið á eitt af mörgum afmæliskvöldum hússins en það eru 40 ár síðan húsið var vígt. Húsið sjálft er dásamlega vel lukkað að innan sem utan - svo útsjónarsöm er hönnun hússins að hvert einasta sjónarhorn er fallegt, hvort sem ég sit eða stend í kaffiteríu, sal, frammi á gangi eða inni á bókasafni. 


Í gær var níundi áratugurinn rómaður og yfirskrift kvöldsins var 1988. Það ár fékk Thor Vilhjálmsson bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Grámosann og áratugurinn sem slíkur var áratugur íslensku skáldsögunnar. Kárason skrifaði Eyjabækurnar, Pétur Gunnarsson lauk við Andrabálkinn, Tímaþjófur Steinunnar kom út og fleiri öndvegisverk. Öllu þessu gerði Halldór Guðmundsson rithöfundur með meiru góð skil í ávarpi. En hann rifjaði líka upp kostuleg atvik frá fyrstu sporum bókmenntahátíðar - sem oftar en ekki hefur notið skjóls af meistarasmíð Alvars Aalto í Vatnsmýrinni. 

Ég leyfi mér að halda því fram að gestir kvöldsins hafi velflestir heyrt sögurnar áður - en það kom ekki að sök því þeir veltust hver um annan þveran af hlátri. 

Frægust er sagan af Halldóri Kiljan Laxness og Knud Ödegaard. Halldór var verndari hátíðarinnar og hana sóttu mörg norsk skáld og rithöfundar. Halldóri var meinilla við nýnorsku og tjáði sig gjarnan fjálglega um það ef blaðamenn voru nærri. Því fór svo að eftirfarandi staðhæfing Halldórs komst á prent: 

,,Nýnorska minnir mig á fullan Svía að reyna að tala forn-íslensku." 

Norðmenn voru ekki par hrifnir en Knud Ödegaard gerðist mannasættir og reyndi að bera í bætifláka fyrir Kiljan. Lítið gekk því Norðmenn voru sármóðgaðir svo Knud brá á það ráð að grípa til orðanna: ,,Hann er nú orðinn gamall maður." 

Það var einum of stór biti fyrir stolt Nóbelsskáld og Halldór Laxness neitaði með öllu að mæta á setningu bókmenntahátíðar - þeirrar fyrstu í Reykjavík og hann sjálfur verndarinn. Thor Vilhjálmsson miðlaði málum og tókst að fá Halldór til að mæta gegn því að hann þyrfti örugglega ekki að heilsa Knud. Allt fór vel að lokum. 

Ekki fór jafn vel fyrir Isabel Allende sem var alla hátíðina hundelt af norskum rithöfundi sem var yfirmáta, ofurheitt og aðeins of mikið fyrir hennar smekk - ástfanginn af henni. Henni var því laumað út bakdyramegin af öllum upplestrum og veislum hátíðarinnar. 

Annar rithöfundur, Kurt Vonnegut, varð svo frá sér numinn af leiðsögumanni sínum og gestgjafa - Sigurði Valgeirssyni - að hann sagði með tilþrifum á kveðjustund: 
,,Þú hefur verið mér sem móðir." Eftir það var Sigurður ávallt kallaður móðir af innstu koppum í búri bókmenntahátíðar í Reykjavík. 

Síðast en ekki síst tókst aðstandendum hátíðarinnar að týna heilu færeysku ljóðskáldi. Að endingu fannst ljóðskáldið þó í þvottahúsi húss vestur í bæ, heldur reikult í spori en tókst þó að stynja upp tveimur orðum (sem komu honum í réttar hendur); Thor Vilhjálmsson. 

Að ávörpum loknum söng Ragnheiður Gröndal lög Tómasar R. Einarssonar við ljóð íslenskra ljóðskálda - aðallega kvenna - og gerði það vel eins og annað sem hún tekur sér fyrir hendur. 

Ljúfur endir á skemmtilegu kvöldi í einu fallegasta húsi landsins. 

Til hamingju með daginn Norræna hús. Allt er fertugum fært. 

1 ummæli:

The furious mind of a serial mom sagði...

Skemmtilegur pistill.
bestu kveðjur
Steinunn Ólína