Frá árinu 1999 hef ég viljað flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni. Ég arkaði um með aktivistum í aðdraganda íbúakosninga um flugvöllinn um síðustu aldamót, með merki í barminum sem á stóð "102 Reykjavík". Mín helstu rök voru - og eru þessi:
Tækifæri til uppbyggingar í Vatnsmýri og þar með ljúka borgarmyndinni í eldri hluta hennar eru of dýrmæt til að nýta þau ekki.
Öryggissjónarmið - ég hef búið á ótal stöðum í 101 Reykjavík og fæ alltaf hroll þegar flugvélarnar fljúga svo nálægt þéttustu íbúabyggð landsins að vel má greina hver situr í sæti 8b.
Umhverfissjónarmið - a) mengun af flugi í þéttbýlasta kjarna landsins b) þétt íbúabyggð í 102 sem vonandi nær því markmiði að vera kjörin fyrir Reykvíkinga sem vilja búa nálægt vinnu og hjóla/ganga í stað þess að keyra bíl.
Og jú - mér finnst það á vissan hátt eigingirni að farþegar innanlandsflugs (og Færeyja-Grænlands og einkaþotuflugs) þurfi að lenda í túnfætinum hjá þúsundum Reykvíkinga. Og ég er ekki ein um það.
Þó bý ég vel hvað varðar aðgengi að flugvellinum, í ca. 3ja mínútna göngufjarlægð og þyrfti - ef flugvöllurinn færi - að þræla mér í bíl upp á Hólmsheiði eða alla leið til Keflavíkur þegar ég flýg norður.
En það búa tugir þúsunda Reykvíkinga og annarra víkinga s.s. úr Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, nær t.d. Hólmsheiði. Keflavíkin er svo ekki langt undan ef við ráðumst í verulegar samgöngubætur. Þannig myndum við fara best með almannafé því það kostar sáralítið að sameina innanlandsflug millilandaflugi í Keflavík.
Að öllu þessu framansögðu verð ég að viðurkenna að samgöngumiðstöðin hefur verið mér töluverður höfuðverkur. Höfuðverkur í miðri höfuðborg. En sá verkur er á undanhaldi. Því ég sé alltaf betur og betur að alvöru samgöngumiðstöð á góðum stað - stað sem heildarskipulag Vatnsmýrarinnar kallar á - eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja sjá byggð í Vatnsmýri.
Því ef flugvöllurinn fer - þurfum við alvöru samgöngumiðstöð, fyrir lest til Keflavíkur til dæmis, fyrir strætó sem þarf að hugsa fyrir í tengslum við grænar samgöngur í 102 Reykjavík, fyrir rúturnar sem koma frá Keflavík með millilandafarþegana. En hún þarf að vera á góðum stað og í verðlaunatillögu Skotanna er einmitt gert ráð fyrir henni, fyrir norðan Hótel Loftleiði.
En samgöngumiðstöðin verður að vera á forsendum bættra samgangna - ekki flugvallar. Þó svo að flugfélög geti nýtt sér hana á meðan flugvöllurinn er ennþá í Vatnsmýrinni. Síðan er hægt að breyta flugstöðvarhlutanum í verslunarmiðstöð, skrifstofur, diskótek eða flugstöðvarsafn. Þess vegna er ég ekki nógu ánægð með útfærslu Ólafs F og Kristjáns Möller. Í fyrsta lagi er útfærslan sem við sáum í tölvumyndunum ekki góð, tröllaukið svæði undir bíla og þeir voru með mjög glannalegar yfirlýsingar um hraða uppbyggingar.
Við megum ekki kasta til höndum þegar byggja á samgöngumiðstöð sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir allar samgöngur í Reykjavík næstu 100 árin. Til þess er ábyrgð okkar of mikil. Ég heiti á unga fólkið í borgarstjórn að stuðla að því að samgöngumiðstöðin verði byggð með það fyrir augum að hún gagnist jafn vel eftir að flugvöllurinn fer. Það er algjört höfuðatriði.
Ný samgöngumiðstöð verður að veruleika og það eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja byggð í Vatnsmýri. Ef rétt er á spilum haldið. Þar fyrir utan er BSÍ frá 1967 og það ágæta hús er barn síns tíma. Svo verulega vægt sé til orða tekið.
31 mars 2008
Höfuðverkur í miðri höfuðborg eða frábærar fréttir?
30 mars 2008
Miðborgin, braskarar og hús skáldsins
Góður dagur að baki. Utanríkisráðherrann okkar ætlar að leiðrétta eftirlaunaskandalinn, gagnrýnir harkalega verðhækkanir og mælti kvenna heilust um hnignun borgarinnar.
Í þætti Evu Maríu lék Björn Ólafs arkitekt og vinur okkar hjónaleysa á als oddi. Þau skiptust á skoðunum um hverfi borgarinnar, kíktu á sköpunarverk Björns; Bryggjuhverfi og Sjálandshverfi, sem að mínu mati eru mjög vel heppnuð. Birni rötuðust rétt orð á munn þegar hann sagði að síðastliðin 40 ár hefðum við Reykvíkingar bruðlað með land. Af hverju erum við að tala um landfyllingar árið 2008 - í borg sem á nóg af landi? Vegna þess að við viljum byggja þar sem byggðin er. Þannig nýtum við betur góða þjónustu, skóla, almenningssamgöngur og erum í nálægð við stóra atvinnukjarna.
Björn Ólafs leiðrétti hvimleiðan misskilning um 101 Reykjavík. 101 Reykjavík er nefnilega gríðarlega vel skipulagt hverfi, það er ekki kofahverfi, ekki kaotískt, ekki bara samansafn skringilegra húsa. 101 Reykjavík er elsta hverfi borgarinnar, skipulagt af Dönum að danskri fyrirmynd. Íslenskir arkitektar tóku svo við og skipulögðu glæsilega hluta hverfisins, nægir að nefna gamla Vesturbæinn, suðurhlíðar Skólavörðuholts og svona mætti lengi telja. Einn helsti kostur 101 er hversu skynsamlega þétt byggðin er. Bryggju- og Sjálandshverfi, að ótöldu verðlaunahverfi skosku náunganna sem unnu Vatnsmýrarsamkeppnina, kinka öll kolli í átti til þess lags byggðamunsturs.
Björn Ólafs tæpti líka á braskinu - sem svo mjög er til umræðu þessi dægrin. Yfirgefin, niðurnídd hús setja ákaflega ljótan blett á bæinn. Brask er óvinur borgaruppbyggingar og sérstaklega miðborga. Braskarar vilja eingöngu kaupa lóðir til að selja - ekki til að byggja upp. Björn Ólafs sagði að í USA væru strangar reglur og viðurlög gegn braski af þessu tagi. Við ættum að skoða það alvarlega því þetta ástand gengur ekki mikið lengur.
En ég vil samt koma miðbænum til varnar. Ég þoli ekki þegar sá söngur fer að hljóma að miðborgin sé ljót. Miðborg Reykjavíkur er ekki ljót. Þar hef ég búið í 12 ár, á mörgum stöðum við Laugaveg, við Njálsgötu, Vesturgötu, Vitastíg, Bergstaðastræti og nú Sjafnargötu. Miðborg Reykjavíkur prýða margir góðir kostir. Þar er iðandi mannlíf, gullfalleg hús, frábærir leikskólar, mergjaður trjágróður, söfn og leikhús, góðar búðir og fallegar gönguleiðir.
Laugavegurinn er hins vegar í mikilli krísu nú um mundir og ég hreinlega skil ekki hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson - sem hefur manna mest tjáð sig um ljótleika og hrylling miðborgarinnar - getur setið hjá og skilað auðu núna þegar eldar brenna heitastir. Eigum við að rifja upp kosningabaráttuna 2006 þegar Vilhjálmur talaði í hverri einustu ræðu um skítuga borg? Eigum við að rifja upp þegar Vilhjálmur lét sem miðbærinn væri snarhættulegur staður til að dvelja á (sem er alrangt!), miðbærinn væri skítugur og veggjakrotið óþolandi. Eigum við að rifja upp andvaraleysið þegar reykingaleysið skall á kráareigendum, eigum við að rifja upp þegar það eina sem Vilhjálmi datt í hug að gera til að bæta ástandið var að kippa bjórkæli úr sambandi?
Af hverju gerði hann ekkert þá - og af hverju gerir hann ekkert núna? Hann hefur gert sitt með því að tala niður miðborgina í öðru hverju orði. Nú er komið að því að hann taki upp hanskann fyrir miðborgina. 1, 2 og nú.
Borgarstjóri er hændur að gömlum húsum eins og frægt er orðið - af hverju koma þessir menn ekki fram með neinar lausnir?
Ég geri orð Gunnu Ögmunds, reynds borgarfulltrúa, að mínum, en hún sagði í DV í vikunni að það þyrfti eina viku + einbeittan vilja + 15 manna sprengiteymi til að rétta af kúrsinn. Ákveða hvað á að gera við þessi niðurníddu hús, hreinsa, þrífa veggjakrot. Eins er ég hrifin af hugmynd sem ég hef lengi gælt við - en það er embætti umboðsmanns íbúa hvað skipulagsmál varðar. Ég held að það verði til mikilla bóta og hjálpi íbúum að rata um þá refilstigu sem reglugerðir skipulagsmála eru.
Ég minni líka á tillögu okkar í Samfó um endurskoðun húsverndaráætlana frá því 16. júní 2007. Sú tillaga ávarpaði þann vanda sem blasir nú við í miðbænum. Henni var vísað í einhvern starfshóp og sáralítið gerðist þar til kempan Svandís settist í stól formanns skipulags- og byggingarráðs og tók til hendinni.
En aðallega ætlaði ég í þessari færslu að tala um það allra skemmtilegasta sem henti mig í dag - heimsókn á Gljúfrastein sem innihélt tölu bónda um Íslandsklukku þar sem komu við sögu Don Kíkotí, minnisleysi Íslendinga, kynni mín af Steinway flygli skáldsins og dramatísk stund þegar skáldið lét vita af sér með klukknaslögum á hárréttu augnabliki.
Hún bíður betri tíma.
28 mars 2008
Lengi býr að fyrstu gerð
Hún er skemmtileg umræðan sem hefur blossað upp síðustu daga og vikur um gildi heimanáms, nú síðast á Bylgjunni í gær. Umræðan hófst vegna frétta frá Bretlandi en þar hafa stærstu samtök kennara gengið fram fyrir skjöldu og mælt með endalokum heimanáms fyrir 5-11 ára gömul börn.
Þegar ég var formaður menntaráðs settum við einmitt hóp af stað sem átti að skoða heimanám - kosti þess og galla. Eitthvað er ég hrædd um að hann sé á svefnlyfjum núna í fangi núverandi meirihluta - eins og svo margt annað því miður.
Að mínu mati á heimanám barna á þessum aldri, frá ca. 5-11 ára, að snúast um lestur í víðasta skilningi þess orðs. Lestur, læsi, lesskilningur, uppgötvun bóka, hlustun, orðaforði, orðagnótt, krossgátur, orðaleikir, rím, vísur, samtal, spjall. Allt eru þetta ómetanleg verðmæti og undirstaða alls náms. Þarna skipta foreldrar, systkini, ömmur og afar öllu máli. Heima gefst tækifæri til að þroska ýmsa þætti tungumálsins sem ekki gefst tækifæri til í skólanum.
Þess vegna stökk minn meirihluti menntaráðs til og gerði samning við nýstofnaða rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi í KHÍ. Þær rannsóknir munu byggja undir þekkingu okkar á því hvernig íslensk börn læra að tala, hlusta, skilja, lesa og læra. Takið eftir því að ÞROSKI er einn af rannsóknarþáttunum.
Því hver ætli sé helsti forspárþáttur um krefjandi hegðun barna um ellefu ára aldur?
Rétt svar: Orðaforði barnanna og ýmsir þættir tengdir máltöku um fimm ára aldur.
Lesturinn og tungumálið er allt. Lengi býr að fyrstu gerð.
18 mars 2008
Tímamót
Í borgarstjórn í dag urðu þau tímamót að fyrsti útlendingurinn steig í pontu og hélt ræðu. Falasteen Abu Libdeh er tæplega þrítug, fæddist í Jerúsalem og fluttist til Íslands á unglingsaldri. Hún er fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindaráði og stóð sig afburða vel í umræðu um stefnu meirihlutans í mannréttindamálum.
Hér má lesa mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var 16. maí árið 2006, í tíð Reykjavíkurlistans. Þá var Bryndís Ísfold formaður jafnréttisráðs sem síðar breyttist í mannréttindaráð.
Talað í budduna
Fyrir þá sem ekki leggja sig eftir því að fylgjast með grafi gjaldmiðlakrossa og ýta á ,,refresh" með reglulegu millibili - er gott að lesa þessa grein eftir Hildigunni Hafsteinsdóttur, stjórnanda leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna.
Hún lýsir því á manna/kvennamáli hvernig jarðhræringar á gjaldeyrismörkuðum koma við budduna þína & mína.
Athyglisverð ráð er að finna í greininni til þeirra fjölmörgu sem keypt hafa sér ferðir til útlanda á kreditkort.
Ég þekki reyndar engan sem hefur staðgreitt ferðir til útlanda - ef út í það er farið.
17 mars 2008
Vorboðinn ljúfi
Þó krónan sé á hraðri niðurleið hækkar sólin á lofti - með tilheyrandi samverustundum utandyra. Samtímis hefst hið árlega karp milli móður og barna um það hvort börnin séu nógu vel klædd. Mæðurnar vilja gjarnan meina að börnin þurfi að fara aftur í peysuna, vera í jakkanum, með húfu, jafnvel með trefil og vettlinga. Alltaf. Annars slær að þeim. Annars fá þau kvef. Það er svo lúmskt kalt í skugganum. Og svo framvegis.
Síðasta sumar snæddi fjölskyldan hjá Rögnvaldi ,,gáfaða" Hvannadalsbróður og konu hans Birnu að Móbergi í Hrísey. Dásamlegt kvöld enda leitun að skemmtilegra fólki. Sem von var hlupu drengirnir 3-9 ára um allan garðinn og mæðurnar höfðu gjarnan á orði að ,,betra væri nú að þeir færu í peysurnar, ósköp er orðið svalt, slær ekki að þeim?"
Þá segja þau sómahjón sögu af litlum frænda sem skilgreindi fyrirbærið peysu á eftirfarandi hátt:
,,Peysa er flík sem mamma mín klæðir mig í þegar henni er kalt."
Raunir raungreina
Þetta er uggvænlegt. Það sem er einnig allrar athygli vert eru tengslin milli árangurs grunnskólanemenda í raungreinum og umhverfisvitundar. Í síðustu PISA könnun kom í ljós að umhverfisvitund íslenskra ungmenna er ein sú daprasta í Evrópu.
Því sterkari umhverfisvitund - því betri árangur ungmenna í náttúrufræðum. Af því má leiða líkum að fleiri mennti sig í fræðunum og að áhuginn aukist almennt.
Þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir orkufyrirtæki í eigu almennings. Þau gætu til dæmis beitt sér af miklum krafti fyrir stórsókn í náttúrufræðakennslu í samvinnu við skólana í sínu umdæmi og tekið þátt í að styrkja umhverfisvitund ungra og gamalla. Ekki síður er mikilvægt fyrir slík fyrirtæki að lokka ungt fólk til þess að mennta sig í raungreinum, í raun og veru er það lífsspursmál fyrir þessi fyrirtæki í framtíðinni.
Mér dettur sisvona í hug tiltekið orkufyrirtæki í Reykjavík sem þarf sárlega á jákvæðu og uppbyggilegu verkefni að halda til að flikka upp á ímynd sína.
En ég nefni engin nöfn.
14 mars 2008
Villandi fréttaflutningur
Í gær var ansi hreint villandi fréttaflutningur af fundi Viðskiptaráðs með þátttöku utanríkisráðherra í Köben. Af fjölmiðlum hér heima að dæma mátti skynja að fundurinn hefði verið púkaleg PR-mistök en annað heyrist mér á heimildamönnum mínum í Köben sem fylgst hafa með fréttum af fundinum.
Danskir fjölmiðlar hafa aldrei fjallað ítarlegar um fund Viðskiptaráðs með íslenskum stjórnmálamanni og munar þar verulega frá fundum með forseta Íslands fyrir ári og forsætisráðherra þar áður. Ingibjörg Sólrún var í beinni útsendingu frá fundinum á TV2 sem síðan var ítrekað endurtekið, öll viðskiptablöðin fjölluðu um fundinn í gær og í gær átti Ingibjörg Sólrún fundi með ritstjórum stærstu blaðanna í Danmörku. Í dag er svo stórt viðtal við hana í Politiken og annað von bráðar í Jyllandsposten.
Eins og við öll vitum hefur umfjöllun fjölmiðla í Danmörku verið neikvæð í garð íslenskra viðskiptamanna. Þess vegna voru samtöl utanríkisráðherra við lykilfólk í fjölmiðlaheimi Dana mikilvæg.
En þrátt fyrir neikvæð viðhorf Dana í okkar garð elskum við þá sem aldrei fyrr! Drottningin þeirra elskuleg ku víst hafa verið sæl og glöð með að 40% Íslendinga telja Dani vera sína mestu vinaþjóð. Mestar eru vinsældirnar í yngsta aldurshópnum.
Det er nu det.
13 mars 2008
Beðið í Samgönguráðuneytinu
Ég þurfti að ná í manneskju í Samgönguráðuneytinu. Ég var sett á bið eins og gengur og gerist. Á meðan ég beið hlustaði ég á lagið: ,,Ég er á leiðinni". Mér fannst það stórfyndið.
Myndi það ekki flokkast undir vegasöngva? En það á kannski betur við Sjávar- og landbúnaðarráðuneytið, samanber ,,skip mitt skríður frá landi".
Menntamálaráðuneytið hlýtur að bjóða upp á eitt besta lag allra tíma: To Sir with Love - úr samnefndri bíómynd.
Spenntust er ég þó fyrir því að heyra hvað fjármálaráðuneytið hefur upp á að bjóða.
Ég hringi þangað snöggvast.
12 mars 2008
Spurning um mótvægisaðgerðir?
a) eignast barn/börn eða
08 mars 2008
Slice of life
Ég heimsótti höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í gær, nánar tiltekið ,,The Deligates Lounge". The lounge er opið á föstudögum eftir vinnu, þar hittast sendierindrekar, fulltrúar, sendiherrar, starfsfólk og starfsnemar Sameinuðu þjóðanna. Ég var í boði vinkonu sem vinnur hjá fastanefndinni.
07 mars 2008
Geimskot frá Nasa
Sit hér á flugvellinum í Boston og bíð flugs til New York þar sem vinkonur og bróðir hafa prógrammerað helgina (byrjum á kokteil í SÞ) fyrir vel sérskólaða og yfirfundaða konu eftir vikuna hér í Massachussettes. Mikið fyrirmyndaríki þar á ferð. Einskonar Svíþjóð Bandaríkjanna.
05 mars 2008
Hafðu fiðrildaáhrif
Gaman og fróðlegt hér í Boston en vont að komast ekki í Fiðrildagönguna í Reykjavík í kvöld. Ég skora á alla, konur og kalla, að slást í för með þeim djörfu konum í BAS-hópnum og UNIFEM. Hugarvængjum sem blakað er á Fróni geta haft áhrif í fjarlægum heimshlutum.
04 mars 2008
Kveðja frá Boston
Ég kom inn á hótelherbergi eftir langan dag í New England Center for Children. Ég kveikti á tölvunni, ræsti Útvarp Reykjavík og náði eftirfarandi lokaandvarpi forseta borgarstjórnar;
...og að lokum greiðum við atkvæði um frumvarpið í heild sinni...
Þá var klukkan 22.30 að íslenskum tíma. Þeir geta verið langir fundirnir í borgarstjórn. Og enn tala þeir kollegar mínir í borgarstjórn og nú um REI-skýrsluna. Fram á RAUða nótt býst ég við.
Ég er hins vegar í stórum hópi fólks að skoða stórmerkilegan skóla fyrir einhverf börn í Boston. Senn rís nýr sérskóli í Reykjavík og því skolli mikilvægt að skoða ,,best practices" sem víðast.
Ég var einmitt í einni slíkri heimsókn með hópi af Menntasviði í janúarlok. Við flökkuðum á milli borga í Skandinavíu og stigum einn daginn um borð í lest í Kaupmannahöfn og þá var við völd félagshyggjumeirihluti í Reykjavíkurborg. Við fórum frá borði í Óðinsvé tveimur klukkustundum síðar og þá hafði nýr meirihluti tekið við. Það var skrýtin lestarferð.
Einn af dyggustu embættismönnum borgarinnar komst þá svo að orði:
Við hefðum aldrei átt að stíga fæti um borð í þessa lest...