Á Vísi er slegið upp frétt um að ekki sé tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB. Það er rangt. Hið rétta í málinu er eftirfarandi: Sjávarútvegsstefna ESB er endurskoðuð reglulega í víðtæku samráði við alla hagsmunaaðila. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika hefur alltaf verið rædd í reglulegri endurskoðun en viti menn - þeirri reglu hefur ekki verið breytt frá árinu 1983.
Ein af þeim hugmyndum sem framkvæmdastjórn ESB setur fram núna er að hafa framseljanlegar aflaheimildir á öllu svæðinu og að búa svo í haginn að aflaheimildir rati þangað þar sem fiskveiðar eru mikilvæg atvinnugrein og þar sem hagkvæmni í fiskveiðum er mest.
Framkvæmdastjórn ESB spurði aðildarríkin um þeirra skoðun á þessu og í ljós kom að 26 af 27 aðildarríkjum vilja ekki hrófla við hlutfallslega stöðugleikanum.
Það er hið rétta í málinu.
24 apríl 2009
Rétt og rangt um sjávarútvegsstefnu ESB
Enn skilar Sjálfstæðisflokkurinn auðu...
Sjálfstæðisflokkur lofar 50% lægri greiðslum af húsnæðislánum í heilsíðuauglýsingu í blöðunum í dag. Hér er í raun um greiðslujöfnun að ræða, sem er ein af 18 aðgerðum ,,Velferðarbrúarinnar" sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur reist til að koma heimilunum yfir erfiðasta tímabilið.
Lögin um greiðslujöfnun voru fyrst sett árið 1985 og svo breytt í nóvember 2008 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, sem aðrir hafa löngu uppfyllt, skýtur því skökku við og því varla við því að búast að nokkur kjósandi bíti á agnið. Enda er full seint að koma með lausnir fyrir heimilin í landinu daginn fyrir kjördag.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur því áfram að skila auðu. Bæði í Evrópumálum og raunhæfum lausnum fyrir heimilin. Og enn er lýst eftir peningamálastefnu þess flokks, sem fór frá heimili sínu árið 2005 og lítið hefur til spurst síðan...
22 apríl 2009
Ekkert pönk í vantrausti
Nú magnast upp hræðsluáróður ESB-andstæðinga - sem umfram allt treysta ekki þjóðinni til að taka ákvörðun á upplýstum grunni. Áróðurinn er gjarnan á þeim nótum að Samfylkingin vilji ganga í ESB - sama hvað. Það er rangt.
Samfylkingin treystir þjóðinni. Og Samfylkingin vill ganga í ESB en ekki með hvaða skilyrðum sem er. Við viljum semja á grundvelli skýrra samningsmarkmiða. Aðeins þannig fær þjóðin sjálf að taka lýðræðislega ákvörðun um raunverulegan aðildarsamning.
Til að tryggja þessa niðurstöðu verður Samfylkingin að fá góða kosningu og Jóhanna að fá skýrt umboð. Samningsmarkmið okkar eru:
Full yfirráð okkar yfir auðlindum.
Raunverulegt forræði fyrir úthlutun veiðiheimilda á Íslandsmiðum.
Viðurkenning á sömu réttindum og Svíar og Finnar hafa varðandi landbúnað.
Sérstakt tillit verði tekið til íslensks landbúnaðar í ljósi matvælaöryggissjónarmiða og fjarlægðar Íslands frá mörkuðum.
Að lokum kýs þjóðin. Óttar Proppé pönkari vék orðum að þessu vantrausti ákveðinna stjórnmálaflokka til þjóðarinnar á frábærum fundi Sammála-hópsins í Iðnó.
Það er nefnilega ekkert pönk í því að vera ekki treyst.
Tímamótasamþykkt um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga
Ég hef heyrt marga úr frístunda - og íþróttageiranum fagna því að sjá í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar að móta eigi rammalöggjöf um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga.
Hér á eftir fer greinargerð hópsins sem fjallaði um menntun og menningu, sem útskýrir betur hvað við eigum við:
Samfylkingin leggur á það ríka áherslu að Ísland móti sér stefnu í málefnum frítímans. Mótuð verði rammalöggjöf um tómstunda- og íþróttastarf í landinu sem vettvang uppeldis og óformlegrar menntunar þar sem starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga, sem og tómstunda- og félagsstarf á vegum sveitarfélaga verði undir. Horft verði til menntunar leiðbeinenda, aðstöðu til starfsemi, gæðakrafna og gæðamats.
Markmið lagasetningarinnar verði að tryggja rétt barna og unglinga til góðrar og þroskandi frístundaiðju sem byggir undir fagmennsku á sviði frítímans og viðurkenna mikilvægi vandaðs frístundastarfs í lærdómsumhverfi barna og ungmenna. Í því samhengi er mikilvægt að styrkja uppeldisgildi í starfi frjálsra félaga, efla félagslega virkni og lýðræðisleg áhrif iðkenda og koma á eðlilegu jafnvægi milli afreksmiðaðra íþrótta og almennrar iðkunar barna, ánægjunnar vegna.
Samfylkingin vill stefna að frekari samþættingu frístunda- og skólastarfs hjá börnum á grunnstigi grunnskólans enda er það lykillinn að innihaldsríkari skóladegi og kemur betur til móts við ólíkar þarfir barna
Samfylkingin boðar aukna samvinnu og samþættingu á öllum sviðum mennta, menningar, íþrótta- og frístundamála. Brýnt er að menntakerfið og frístundageirinn starfi sem ein heild, brúa þarf bil milli skólastiga og fagstétta og leggja alla áherslu á gæði, fjölbreytni og skilvirkni í skólastarfi, kennaramenntun og menntunarfræðum.
Tónlistarskólar í Reykjavík
Í allri umræðu um niðurskurð til skóla sem starfa frá hausti og fram á vor hefur verið tekið tillit til þess að skólaár og fjárhagsár er ekki það sama. Því kemur það mjög á óvart að niðurskurður til tónlistarskóla eigi að taka gildi frá og með 1. janúar síðastliðnum.
Styrkur borgarinnar til tónlistarskóla fer í að greiða laun kennara, ekki í reksturinn. Það er því útilokað að þessi ákvörðun standist hreinlega lög, því varla er hægt að afturkalla þegar greidd laun.
21 apríl 2009
Bókmenntaborg UNESCO
Í dag flutti ég fyrir hönd Samfylkingar tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur að borgin sækist eftir útnefningu sem „bókmenntaborg UNESCO“ (UNESCO´S City of Literature). Menningarleg jafnt sem hagræn áhrif útnefningarinnar verði könnuð í víðtæku samráði við ráðuneyti menntamála, bókmenntasjóð, Rithöfundasambandið, Félag bókaútgefenda og aðra þá sem málið varðar.
Um alllangt skeið hafa ýmsir aðilar innan íslenska bókmenntageirans haft áhuga á því að Reykjavík sækist eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Útnefningin yrði mikill heiður fyrir íslenskar bókmenntir og myndi vekja jákvæða athygli á menningarborginni Reykjavík. Útnefningin er varanleg og nú eru þrjár borgir í heiminum sem hafa hlotið hana; Iowa, Melbourne og Edinborg. Þær borgir sem tilheyra netverki UNESCO-borga starfa saman undir regnhlífinni ,,Creative Cities Network” og skapa saman fjölmörg tækifæri til samvinnu á sviðum lista og menningar.
Skilyrði fyrir útnefningu eru margvísleg en helst ber að nefna að borgir sem hljóta útnefningu tilheyra þjóð sem státar af ríkulegum bókmenntaarfi, alþjóðlega viðurkenndri bókmenntahátíð, öflugri útgáfa nútímabókmennta og verðlaunuðum rithöfundum. Eins er litið til lestrarstefnu borgarinnar, aðgengi almennings að bókasöfnum, lestrarmenningu þjóðarinnar og þá áherslu sem þjóðin leggur á að ala nýjar kynslóðir upp með tilliti til lesturs og að njóta unaðssemda bókmenntanna.
Ísland státar af mörgum þessara atriða og fari svo að Reykjavík falist eftir útnefningu mun það efalaust hafa jákvæð áhrif á bóklestur, stefnumörkun í fræðslumálum og alla umræðu um læsi og uppeldisleg áhrif bókmennta. Árið 2011 verður Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókamessu í heimi. Það mun vekja gríðarlega athygli á íslenskum bókmenntum og því er lag að sækjast eftir útnefningunni meðfram þeim landvinningum, eða í kjölfar þeirra.
Útnefning sem þessi styrkir ímynd borgarinnar sem menningar- og ferðamannastaðar og mun skila sér rakleitt í fjölgun ferðamanna til borgarinnar. Auk þess verður hún lyftistöng fyrir bókasöfnin í borginni. Útnefningin eykur samvinnu milli aðila sem vinna að læsi og bókmenntum, bæði innanlands sem og milli borga sem hlotið hafa útnefningu.
Nú er í vinnslu sóknaráætlun fyrir Reykjavík og einn af þeim þáttum sem litið er til verður menningarborgin Reykjavík. Því er það borgarstjórn Reykjavíkur til sóma að hafa forgöngu um að kanna strax kosti þess að Reykjavík sækist formlega eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Það yrði þó aldrei verk Reykjavíkurborgar eingöngu heldur unnið í nánu samstarfi við ráðuneyti menntamála, Bókmenntasjóð og aðra þá sem starfa að kynningu íslenskra bókmennta, bókaútgefendur, bókasöfn, rithöfunda, Hagþenki og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tillagan var samþykkt.
20 apríl 2009
Lýst er eftir peningamálastefnu...
Ég las ,,status" á Facebook-síðu vinkonu minnar í gær sem var nokkuð skondinn:
,,Lýst er eftir peningamálastefnu Sjálfstæðisflokksins. Hún fór að heiman árið 2005 og hefur ekki spurst til hennar síðan. Stefnan var í dökkbláum jakkafötum þegar síðast sást til hennar..."
Í dag opinberast þó enn frekar vandræðagangur Sjálfstæðismanna þegar sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi segir þá hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vera algerlega óraunhæfa. Óneitanlega læðist að konu sá grunur að útspil íhaldsins sé einvörðungu til að hylja þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er í andstöðu við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda.
Launafólk og atvinnurekendur vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar. Sjálfstæðisflokkur skilar auðu.
En þetta er þó ekkert nýtt. Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið, einhliða upptöku evru, í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur Evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.
Það má því vel halda áfram að lýsa eftir peningamálastefnu Sjálfstæðisflokksins. Hún er týnd og tröllum gefin...
18 apríl 2009
Samfylkingin, verkalýðshreyfingin og atvinnulífið
Í Evrópuskýrslunni sem birt var í dag kemur í ljós að Samfylkingin, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda sem ná til um 70% atvinnulífsins tala algjörlega einum rómi.
16 apríl 2009
Hvað með Framsókn, Einar?
Einar Skúlason spyr Jóhönnu Sigurðardóttur út í málefni innflytjenda í pistli á Pressunni nú í vikunni. Því er til að svara að í ráðuneyti félags- og tryggingarmála undir forystu Samfylkingarkvennanna Jóhönnu og Ástu Ragnheiðar hefur heldur betur þokast áfram í málefnum innflytjenda undanfarin misseri og verður hér stiklað á stóru:
07 apríl 2009
Byggjum velferðarbrú yfir boðaföllin
Leið Samfylkingarinnar í gegnum erfiðleikatímabilið framundan er að byggja velferðarbrú. Velferðarbrúin mætir vanda heimila þannig að takmarkaðir fjármunir ríkissjóðs nýtist þeim sem mest þurfa á að halda. Brúarleiðin felur í sér tækifæri til að lækka greiðslubyrði, greiðslufresti, auknar endurgreiðslur vaxtabyrða og greiðsluaðlögun fyrir þá sem eru í mestum vanda.
04 apríl 2009
Valdir eða útvaldir?
Málþófið á Alþingi í dag snýst í hnotskurn um eftirfarandi: