11 desember 2008

Nýsköpun í Elliðarárdal, siðareglur og Framsókn

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Samfylkingarinnar um að fela borgarstjóra að kanna mögulega aðkomu Reykjavíkurborgar að því að koma upp tímabundnu nýsköpunarsetri í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Áhugamannahópur skipaður iðnaðarmönnum, arkitektum, frumkvöðlum og hönnuðum hefur unnið að þessari hugmynd um hríð. 

Toppstöðin komst í eigu Reykjavíkurborgar frá Landsvirkjun nýverið með sérstökum samningi þar sem meðal annars voru kvaðir um niðurrif hússins. Í gögnum sem áhugamannahópurinn hefur aflað liggur hins vegar samþykki forstjóra Landsvirkjunar um þessa notkun. Ýmis önnur álitaefni, m.a. umferðarmál og umhverfissjónarmið verður að hafa hugföst en þetta er þó ein af þeim góðu hugmyndum sem vert er að gefa gaum. Enda gæti hún verið innspýting í atvinnumál borgarinnar næstu mánuði og ár. 

Eins voru samþykktar siðareglur fyrir borgarfulltrúa í borgarráði í dag - hér er gamalt baráttumál Dags B. Eggertssonar á ferð og ánægjulegt að það sé loksins í höfn.

En kona bíður spennt eftir fleiri karlkyns kandítötum í formannsembætti Framsóknarflokksins. Það bætist sífellt í hópinn, tilkynningar daglega. Minnir óneitanlega á annan flokk karla sem týnist nú til byggða, einn af öðrum. 

Kannski verða þeir 13 Framsóknarmennirnir sem bítast um sætið í janúar. 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alveg er dásamlegt að sjá þessa minnimáttarkennd í Samfylkingunni brjótast út í smjörklípum um frambjóðendur annarra flokka.

Kynferði ágætrar forystukonu Samfylkingarinnar virðist ekki hafa neitt að segja um þá miður góðu þróun í launa- og jafnréttismálum sem orðið hefur í landinu eftir að Samfylkingin komst til valda. Svo ekki sé minnst á öll hin ósköpin sem dunið hafa á þjóðinni frá sama tíma.