26 janúar 2009

,,Lengi má manninn reyna"

Sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir í dag. Eftir linnulausar en jafnframt árangurslausar kröfur Samfylkingarfólks um nauðsynlega tiltekt innan stjórnkerfisins var stjórnarsamstarfinu slitið. 

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn til þess að taka þátt í nauðsynlegri hreingerningu sem skapað hefði traust á alþjóðavettvangi, hvað þá ná sátt við þjóðina og endurvekja trú almennings á Alþingi. 

Þeim þykir vænna um gamla foringjann sinn en ofangreinda hluti.

Afsögn Björgvins skapaði mikinn þrýsting og er lofsvert nýmæli í íslenskum stjórnmálum. Björgvin er maður að meiri - en Sjálfstæðisflokkurinn skilaði auðu. Og aftur var spurt: 

Hvernig getur efnahagskerfi þjóðar hrunið án þess að einhver axli ábyrgð? 

Tiltekt og hreingerning. Það voru kröfurnar.

Enda er þessi bylting kennd við búsáhöld.

25 janúar 2009

Afsagnir

Það var og. Ég get ekki annað en fagnað því að Björgvin segi af sér enda hef ég í langan tíma sagt að það verði hann að gera. En mikið ósköp er þetta seint í rassinn gripið. Í kjölfarið hlýtur yfirstjórn og forstjóri Fjármálaeftirlits að fara og er það vel.


Nú beinast spjótin að Seðlabankanum, það verður aldrei hægt að halda áfram stjórnarsamstarfinu án þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar þar. Það verður að ná sátt við íslenska þjóð - reiðin, vantrúin og skortur á trausti myndar djúpa og víða gjá milli þings og þjóðar.

Björgvin axlar hér pólitíska ábyrgð sem er nýlunda í íslenskum stjórnmálum. Megi þetta verða fyrsta skrefið að alvöru siðbót og lýðræðislegum umbótum.

Þá er það arftaki Björgvins og ég held að það hljóti að verða varaformaðurinn okkar. Nógu snúið hefur það verið síðustu vikur og mánuði að varaformaðurinn sé fjarri ríkisstjórnarborðinu.

Bætt við klukkan rúmlega 17 -

Aldrei hef ég lastað störf Björgvins heldur þvert á móti talið hann standa sig afar vel við nær ómanneskjulega erfiðar aðstæður. Þegar ég hef talað fyrir afsögn hans er ég að vísa til pólitískrar ábyrgðar hans, sem er ekki það sama og persónuleg ábyrgð. Birgir Hermannsson lýsir því ágætlega hér. Björgvin hefur tekið lofsvert frumkvæði en ég er þó enn á þeirri skoðun að mitt fólk á Alþingi hefði þurft að taka slíkt frumkvæði mun fyrr. Íslenska þjóðin kallar eftir því - og hefur gert í rúmlega 100 daga, á hverjum degi.

Skúli Helgason skrifar hreint út sagt frábæran pistil á heimasíðu Samfylkingarinnar í dag sem ég hvet alla til að lesa.

21 janúar 2009

Enginn er ómissandi

Stjórnarsamstarfinu er lokið. Undir þetta hljóta allir landsmenn að taka. Geir og Ingibjörg Sólrún hafa sagt að nauðsynlegt væri að ljúka mest áríðandi björgunaraðgerðunum - fyrst.

Nú er þeim lokið.

Nú þarf að taka til við uppbyggingu nýs samfélags. Og þá getur valdaflokkur sem setið hefur við stjórn landsins í 17 ár og vaktað hvern krók og kima, sett sitt fólk í stöður og fyrirtæki, ráðið Seðlabankastjóra pólitískt, framfylgt peningamálstefnu sem keyrt hefur þjóðina í þrot - hann getur ekki setið lengur. Hann verður að stíga til hliðar. Hann verður að vera í stjórnarandstöðu, ekki stjórn. Hann nýtur ekki trausts.

Við þurfum að kjósa. Samfylkingin þarf að taka sig saman í andlitinu og horfa í eigin barm. Samfylkingin þarf að endurnýja umboð sitt. Við þurfum að gefa nýjum flokkum tækifæri til að bjóða fram, við þurfum að gefa nýju fólki tækifæri til að sækja umboð sitt til þjóðarinnar innan raða gömlu flokkanna.

Það er enginn ómissandi í pólitík. Þeir sem eru á annarri skoðun eiga alls ekki að vera í pólitík - svo einfalt er það.

Við þurfum nýja stjórnarskrá. Við þurfum afsagnir embættismanna, alvöru uppgjör við fortíðina og spillinguna. Jafnvel nýtt kosningakerfi, nýtt lýðveldi.

Eftir hverju bíðum við?

Í kvöld stendur Samfylkingarfélagið í Reykjavík fyrir opnum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan 20.30. Umræðuefnið er eldfimt: ,,Stjórnarsamstarfið".

Innan flokksins er gríðarleg óánægja - þráin eftir lýðræðislegum umbótum, breytingum og endurnýjuðu umboði er heit. Í kvöld mun hinn almenni flokksmaður segja sína skoðun og á hana verður forystan að hlusta.

14 janúar 2009

Myndskeiðin mín

Jafnréttismálin rædd við Sigríði Andersen í Silfri Egils:

Silfur Egils from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Fjörug umræða um borgarmál í Silfrinu, skömmu eftir að Ólafur F. Magnússon settist í stól borgarstjóra:

Silfur Egils from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Umfjöllun í Víðsjá um bókmenntaborg UNESCO og læsi Íslendinga:

Viðsjá - Rás eitt from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



,,Á sumarvegi", yðar einlæg fer yfir eftirminnileg sumur, íslenskar sumarnætur og áhrifaríka kennara:

Á Sumarvegi - Rás eitt from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Uppáhalds TED-vídeóið mitt, Ken Robinson um sköpun í skólastarfi

13 janúar 2009

Lifandi lýðræði

Eva Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri UJ og stólpakvendi bað mig að skrifa grein fyrir Samfylkingarvefinn sem ég auðvitað gerði enda hlýðin stúlka. 


Greinin heitir Lifandi lýðræði og má lesa hér en lokaorðin voru þessi: 

,,Það nægir ekki að eiga góða stefnu, geymda á heimasíðu. Ef kjörnir fulltrúar láta ekki verkin tala í anda Samfylkingarinnar, hlusta ekki á raddir fólksins og tryggja ekki gagnsæi og samráð, munu lýðræðiselskandi flokksmenn sjá til þess að fá ekki umboð sitt endurnýjað.

Það er lifandi lýðræði." 



06 janúar 2009

Ungir menn og Framsókn

Þetta kemur mér einhvern veginn ekkert stórkostlega á óvart. Gummi hefur reyndar fengið ákaflega góðar móttökur í Samfylkingunni og sumum fannst nóg um hversu mikið var ,,klappað" undir hann á sínum tíma. En hann hefur verið óánægður með ýmislegt og kannski finnst honum ekki nógu mikið leitað til hans núna þegar flokkurinn er í ríkisstjórn. 


Kannski er útilokað að afneita uppruna sínum - sér í lagi þegar ræturnar hafa náð slíkri þykkt. 

Nú hlýtur kona að bíða spennt eftir því hvort fleiri ungir menn með afar litla - eða enga þingreynslu - trommi uppi í formannsframboðinu. Það er ekki að spyrja að sjálfstraustinu! 

Athygli vekur að eina konan í framboði er með 100 ára þingreynslu auk þess að hafa setið á ráðherrastóli. En hún ætlar líka bara í varaformanninn... best að fara sér að engu óðslega. Strákarnir sjá um stóru málin.

P.s. eins og alvöru fótboltaspekingar vita þá er félagsskiptaglugginn opinn einu sinni á ári - í janúar. Þá hoppa menn á milli félaga og ganga kaupum og sölum. 

Við ættum kannski að taka upp sama kerfi í pólitíkinni? 

05 janúar 2009

Tónlistarskólar - framtíð tónlistarnáms

Á morgun verður frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2009 afgreitt úr borgarstjórn. Þó er það nokkurs konar millileikur því strax í mars verður frumvarpið endurskoðað og mikil vinna er í raun óunnin inni á öllum fagsviðum. Ástæðan er sú að seint í ferlinu kom tilskipun frá borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð á sviðin og skerðingu yfirvinnu borgarstarfsmanna. Útfærslunni var velt yfir á næsta ár (árið 2009) enda skorti sárlega upp á samráð við fagfélög og starfsmenn, hvað þá borgarfulltrúa minnihlutans.

En hvað um það. Eftir háværar snerrur í öllum fagráðum (sem kynna sér má á vef Reykjavíkurborgar undir fundargerðum) var frumvarpið klárað með áðurnefndum óútfylltum víxli inn í framtíðina. Eitt og annað jákvætt kom þó út úr samráði borgarfulltrúa á lokasprettinum þó ekki hafi nándar nærri allar athugasemdir stjórnarandstöðunnar verið teknar til greina.

Í upprunalegum drögum átti að ganga ansi nærri tónlistarskólum í Reykjavík. Þeir fá framlög frá Reykjavíkurborg sem eingöngu fer í launalið tónlistarskólanna. Húsnæði þeirra og annar rekstur er algjörlega á þeirra vegum. Það er skemmst frá því að segja að eftir hávær mótmæli okkar fólks í menntaráði var ákveðið að draga í land og láta niðurskurð til tónlistarskóla vera á pari við niðurskurð til íþróttafélaga. Enda ekki annað sanngjarnt.

Hitt er svo annað mál að í fjölda ára hafa sveitarfélögin og ríkisvaldið karpað um ábyrgð hins opinbera á tónlistarnámi á framhaldsstigi. Með því er átt við: 
a) nemendur sem lokið hafa grunn- og miðstigi (ca. V.-VIII. stig samkvæmt gamla kerfinu) 
eða
b) nemendur 16 ára og eldri, samanber skiptingu milli grunn- og framhaldsskóla (grunnskólanám á forræði sveitarfélaga, framhaldsskólanám á forræði ríkisins).

Menn deila svo fram og tilbaka hvor skilgreiningin sé betri og réttlátari. En menn deila ekki um að það er óþolandi óréttlæti fólgið í því að svo lengi hafi dregist að útkljá málið.

Deilan hefur staðið lengi og hefur bitnað harkalega á tónlistarnemendum. Umboðsmaður Alþingis hefur ályktað að rangt sé að ríkisvaldið þverskallist við að greiða fyrir framhaldsnám í tónlist og mörg lítil sveitarfélög eru að sligast undan kostnaði vegna sinna nemenda sem halda til höfuðborgarinnar í tónlistarnám. Reykjavíkurborg greiðir hundruði milljóna á ári hverju til nemenda á framhaldsstigi í tónlist, oft eru nemendur komnir yfir 25 ára aldur. 

Menntamálaráðherra lofaði síðasta vetur að nú hillti undir lok deilunnar - hvað segir hún nú? Sem betur fer tókst að afstýra því að meirihluti menntaráðs setti tónlistarnemendur yfir ákveðnum aldri út á guð og gaddinn. En hvað gerist í næstu yfirferð fjárlaga Reykjavíkurborgar?

Gremjulegast þykir mér þó að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft formennsku í menntaráði Reykjavíkurborgar í 2 og 1/2 ár (mínus 100 daga) og ráðherra menntamála og fjármála síðustu tvö kjörtímabil komi úr hans röðum, þá hefur deilan ekki enn verið leyst. 

Það fyrsta sem ég gerði á minni 100 daga formannstíð var að panta viðtal hjá menntamálaráðherra til að ræða við hana þessi mál. Það viðtal fékk ég tveimur vikum síðar og fékk jákvæðar viðtökur. Menntamálaráðherra benti mér á að ræða einnig við fjármálaráðherra og ég pantaði samdægurs viðtal hjá honum. Og beið í margar vikur, ítrekaði þó beiðni mína oft. Að endingu skilaði ritarinn hans því kurteislega til mín að honum þætti þetta ekki koma sér við - og benti mér á að tala við menntamálaráðherra. 

Mér heyrist ekki á núverandi formanni menntaráðs að hann hafi rætt þessi mál sérstaklega við sín flokkssystkin. Ég hélt satt best að segja að erfiðlega hefði gengið að ná saman í þessari blessuðu deilu vegna þess að það var ekki réttur litur á liðinu í Ráðhúsinu. 

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lengja pistilinn með því að dásama gildi tónlistarinnar, gæði tónlistarnáms á Íslandi eða mikilvægt uppeldishlutverk tónlistarskólanna. 
Þessi frétt hér segir þó meira en þúsund orð. 

04 janúar 2009

Konan á hjólinu

Ungt Samfylkingarfólk hefur upp á síðkastið ítrekað minnt mig á ræðu sem ég hélt á landsþingi UJ nokkrum mánuðum eftir síðustu Alþingiskosningar. Í henni sagði ég frá eldri konu á hjóli, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Konuna hitti ég skömmu fyrir kosningarnar vorið 2007. Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar konu og tók mig til í kvöld og varð við áskorun liðsmanna UJ með því að rita upp punktana úr þessari gömlu ræðu. Og það er líklegast rétt hjá UJ-fólki. Þessi orð eiga giska vel við í dag. 


,,Næst þegar þið gangið um miðbæ Reykjavíkur skuluð þið hafa augun hjá ykkur og leita eftir konu á besta aldri, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Þessi kona er djúpvitur snillingur og þekkir íslenskt samfélag betur en margir aðrir. En þrátt fyrir silfurgráa hárið og snillingstakta, hefur henni aldrei verið boðið í Silfur Egils, hún heldur ekki úti bloggsíðu og er aldrei kölluð til að ræða fréttir vikunnar í Íslandi í dag. 

Ég er svo heppin að hafa talað við hana tvisvar á förnum vegi. Ég spurði hana ekki að nafni, hún er einfaldlega eldklár huldukona á hjóli - og eldheit Samfylkingarkona. Rétt fyrir kosningar hitti ég hana einmitt á hjólinu á Barónsstíg. Hún stoppaði mig og við spáðum í úrslit kosninganna. Á þessum tímapunkti vorum við á prýðilegri siglingu, ,,Unga Ísland" og velferðarmálin voru á dagskrá og við höfðum fundið okkar tón. 

Við vorum því báðar sigurvissar og bjartsýnar. En þá kom hún mér á óvart með því að segja í fullri einlægni: Ég vona að Samfylkingin komist ekki í ríkisstjórn. Ég hváði vitanlega og vildi vita af hverju. Konan sagði mér þá dæmisögur úr eigin lífi og lífi hennar nánustu. Hvað velferðarkerfið hefði mátt þola síðastliðin 12 ár, hvað almannatrygingarkerfið væri orðið götótt, hvað húsnæðiskaup væru ungu fólki erfið, hvað gamalt fólk hefði það skítt, hvað ungt fólk ynni langan vinnudag því boginn væri svo spenntur, hvað barnabörnin sæju lítið af foreldrum sínum. 

Ég maldaði í móinn og sagðist einmitt halda að hlutverk okkar væri ærið - að snúa þessari þróun við. 

En, sagði konan á hjólinu. Þeim er slík vorkunn að takast á við þennan vanda að ég óska varla mínum versta óvini að ráða bót á misréttinu og öfgunum sem einkenna okkar þjóðfélag og hafa orðið til á síðustu áratugum. 

Það verður einfaldlega svo erfitt." 

Ræðan var flutt í október 2007. (Hér birt að litlum hluta)