23 desember 2008

Nýsköpunarsjóði námsmanna bjargað

Flott framtak hjá UJ. 


Samfylkingin náði því í gegn á lokaspretti fjárhagsáætlunargerðar fyrir Reykjavíkurborg að horfið var frá því að skera Nýsköpunarsjóð námsmanna niður í 0 krónur. 

Það þótti okkur óráð nú þegar námsmönnum fjölgar og ekki verður um auðugan garð að gresja í atvinnumálum ungs fólks á næsta ári. 

Við kríuðum það út að Nýsköpunarsjóður námsmanna yrði hækkaður úr 12 milljónum í 20 milljónir. Ekki stór upphæð í hinu stóra samhengi hlutanna en skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Nýsköpunarsjóðinn sem hefur hingað til reitt sig töluvert á framlag Reykjavíkurborgar. 

21 desember 2008

Forgangsröðun

Þegar kreppir að setjast fjölskyldur sem og einstaklingar niður og rýna í heimilisbókhaldið. Fitan er skorin burt, forgangsröðun skoðuð upp á nýtt og mikilvægustu atriðin sett á oddinn. 


Góð þumalputtaregla er eftirfarandi: 

Ef fjárútlátin eru ný af nálinni, þ.e.a.s. ef viðkomandi fjölskylda/einstaklingur hefur komist af ÁN þess að eyða í X undanfarin ár eða áratugi má líklegast skera það niður. 

Þess vegna er það mér óskiljanlegt að aðstoðarmenn þingmanna skuli lifa kreppuna af. 

Ekki er hægt að færa rök fyrir því að hér sé um atvinnusköpun að ræða (30% störf í flestum tilvikum).
Ekki er hægt að færa fyrir því rök að hér sé um grunnþjónustu að ræða.
Ekki er hægt að færa fyrir því rök að löng hefð sé fyrir aðstoðarmönnum þingmanna og að þeir geti því vart lifað án þeirra. 

Það er hægt að gera ýmislegt fyrir 60-70 milljónir á ári. Hvað kostaði aftur að halda úti eina barnageðlækninum á landsbyggðinni? 

16 desember 2008

Ó, Grænaborgin...

Dóttir mín þriggja ára kom í dag heim með skýrslu úr þemastarfi frá leikskólanum. Þar kenndi ýmissa grasa. ,,Ég sjálf/ur og líkaminn minn" var þema haustannar og ég sé ekki betur en að allir þættir mannlegra kennda hafi komið þar við sögu.

Ég er víst ein af mörgum mæðrum sem alltof oft fá á tilfinninguna að þær gefi börnunum sínum ekki nægilega mikinn tíma. En nú rifjast upp fyrir mér margar stundir með dóttur minni þar sem hún hefur uppfrætt mig um bragðlauka, hor, tásur, enni, hósta, hopp, óhollan mat, maga, skemmdar tennur, augnalit, salt & súrt, litlu beinin í eyrunum, Beethoven (Óðinn til gleðinnar, óðurinn til eyrans...), lopa, bómul, heitt & kalt, mjúkt & hart, klístur, krakka í Afríku, einhenta sjóræningja, slaka vöðva, samvinnu, hjólbörulabb, veik börn á barnaspítala Hringsins, hákarla (meinta hákarla) í fiskabúri, blóð sem geymt er í banka, kisukúk og hátterni hamstra.

Nú veit ég hvaðan hún hefur vitneskjuna. Því allt þetta lærir lítil kona í leikskóla í dag. Er það ekki stórkostlegt! Ég hef lengi sagt að íslenskir leikskólar væru á heimsmælikvarða. Og ef einhver rengir mig þá skora ég þann hinn sama á hólm á Arnarhóli með gamaldags sverð - jafnvel byssusting, hvenær sem er.

Ég þakka fyrir það framsýna fólk sem barðist fyrir faglegum, frábærum leikskólum á sínum tíma. Ég þakka starfsfólki Grænuborgar fyrir stórkostlegt starf og alúð. Snillingar, öll með tölu.

Og þó að pólitíkin geti verið gefandi, viðurkenni ég fúslega að ég óska þess oft að ég gæti skipt við dóttur mína.

Þó ekki væri nema fyrir einn og einn dag á Grænuborg...

15 desember 2008

Þorleifur maður að meiri

Þorleifur Gunnlaugsson er maður að meiri eftir atburði helgarinnar. Það er leiðinlegt að hinar mikilvægu unglingasmiðjur hafi komist í sviðsljós fjölmiðla vegna yfirsjónar Þorleifs sem svo ötullega hefur barist fyrir þeim. En hann hefur beðist afsökunar og af þessu ættu ekki að verða neinir eftirmálar, kröfur um að hann segi af sér finnast mér heldur óbilgjarnar.

Svo er vonandi að málefni unglingasmiðjanna sem og önnur mikilvæg mál sem eru undir smásjá borgaryfirvalda í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð, fái faglega og góða umfjöllun næstu vikurnar. Nú er lögð lokahönd á áætlunina og skilin eru tekin að skerpast.

Senn kemur í ljós hvað er á bakvið orðin fögru og úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir.

14 desember 2008

Trúnaður

Að mínu mati er það grafalvarlegt mál að Þorleifur Gunnlaugsson hafi í ógáti sent út bréf til fjölmiðla með nafngreindum upplýsingum um erfiðar aðstæður unglingsstúlku. Þorleifur er ötull baráttumaður fyrir velferð borgarbúa en menn verða að vanda sig betur en þetta. 

Málefni unglingasmiðjanna Traðar og Stígs eru mikið til umræðu hjá borgarfulltrúum þessa dagana enda er hér um gríðarlega mikilvæga starfsemi að ræða. 

Aðgát skal þó ávallt hafa í nærveru sálar. Og við borgarfulltrúar verðum að fara vel með þann trúnað sem okkur oft er sýndur. 

12 desember 2008

Maaaaakalaust lýðskrum

Það er varla hægt annað en að mæla með þessu YouTube-myndbandi

 Það er eitthvað við lesturinn sem minnir á gamla tíma en textinn sem lesinn er upp er bara 2ja daga gamall. Hann er orðréttur upp úr grein, Riddara niðurrifsins, eftir Ragnar Halldórsson sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag. 

Eiríkur Örn Norðdahl les og minnir helst á suður-amerískan einræðisherra frá miðri síðustu öld.

Makalaus grein en lesturinn greinilega í góðu sambandi. 

Ég verð að hrósa innríminu sérstaklega - tökum dæmi: 

,,Það er mikill vandi
að stjórna landi
ekki síst þegar vandamálin
eru á færibandi".

Snilld. 

11 desember 2008

Nýsköpun í Elliðarárdal, siðareglur og Framsókn

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Samfylkingarinnar um að fela borgarstjóra að kanna mögulega aðkomu Reykjavíkurborgar að því að koma upp tímabundnu nýsköpunarsetri í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Áhugamannahópur skipaður iðnaðarmönnum, arkitektum, frumkvöðlum og hönnuðum hefur unnið að þessari hugmynd um hríð. 

Toppstöðin komst í eigu Reykjavíkurborgar frá Landsvirkjun nýverið með sérstökum samningi þar sem meðal annars voru kvaðir um niðurrif hússins. Í gögnum sem áhugamannahópurinn hefur aflað liggur hins vegar samþykki forstjóra Landsvirkjunar um þessa notkun. Ýmis önnur álitaefni, m.a. umferðarmál og umhverfissjónarmið verður að hafa hugföst en þetta er þó ein af þeim góðu hugmyndum sem vert er að gefa gaum. Enda gæti hún verið innspýting í atvinnumál borgarinnar næstu mánuði og ár. 

Eins voru samþykktar siðareglur fyrir borgarfulltrúa í borgarráði í dag - hér er gamalt baráttumál Dags B. Eggertssonar á ferð og ánægjulegt að það sé loksins í höfn.

En kona bíður spennt eftir fleiri karlkyns kandítötum í formannsembætti Framsóknarflokksins. Það bætist sífellt í hópinn, tilkynningar daglega. Minnir óneitanlega á annan flokk karla sem týnist nú til byggða, einn af öðrum. 

Kannski verða þeir 13 Framsóknarmennirnir sem bítast um sætið í janúar. 

04 desember 2008

Yndislegur d´Indy

Sinfónían okkar er tilnefnd til Grammy verðlauna - bravó. Jafn gleðilegt og það var gremjulegt að Japanir skyldu afþakka komu hljómsveitarinnar vegna slæms orðspors Íslendinga á alþjóðavettvangi. Heldur fannst konu þá ástandið bitna á þeim sem síst skyldi.


Sinfónían er tilnefnd fyrir flutning á verkum eftir franska tónskáldið Vincent d´Indy

Á YouTube fann ég upptöku með honum sjálfum að spila Poeme des Montagnes, opus 15 nr. 2. Ef YouTube lýgur ekki þá er upptakan frá árinu 1927. Falleg tónlist. 

02 desember 2008

Tjása

Á bloggsíðu Illuga Jökulssonar má rýna í skemmtileg skoðanaskipti um íslenskun ýmissa heita sem tengjast blogggeiranum. ,,Komment" er eitt þeirra orða og nú er komin fram tillaga að íslensku heiti - alveg dásamleg tillaga.


Tjása. Dregið af sögninni að tjá. 

Hafiði heyrt það betra? 

16-25 ára og samstarf í henni Reykjavík

Góð umræða var í borgarstjórn í dag og kvöld um málefni ungs fólks í Reykjavík á tímum efnahagsþrenginga. Umræðan var að okkar frumkvæði og að endingu sammæltist öll borgarstjórn um að leita eftir samstarfi við Vinnumálastofnun og ráðuneyti mennta-, heilbrigðis-, félags- og tryggingamála.

Markmiðið er að gera tillögu að stefnumörkun og aðgerðaáætlun um hvernig Reykjavíkurborg getur í samvinnu við ráðuneytin og Vinnumálastofnun stuðlað að atvinnusköpun, atvinnutengdu námi og auknum menntunarmöguleikum ungs fólks.

Eins hófum við umræðu um aukið samstarf milli borgarstofnanna, íbúa og frjálsra félagasamtaka. Samfó og VG töluðu einum rómi um þá miklu lýðræðisvakningu sem á sér stað í samfélaginu og mikilvægi þess að borgin fangi þá bylgju með því að styrkja íbúalýðræði, auka valddeilingu til hverfanna og stuðla að aukinni virkni meðal íbúanna.