02 febrúar 2011

Um tónlistarnám í Reykjavík

Hér er ræðan mín úr borgarstjórn í gær þegar rætt var um tónlistarnám í Reykjavík.

Nokkrum staðreyndum þarf að halda til haga í byrjun.

Við ætlum ekki að hætta að borga með öllum 16 ára og eldri næsta haust.

Við ætlum ekki að horfa upp á gamalgróna skóla, sem hafa skilað frábæru starfi og þjóðinni frábærum tónlistarmönnum, loka.

Við ætlum ekki að rústa tónlistarskólum í Reykjavík. Það er einfaldlega ekki á dagskrá.

Það sem er á dagskrá hjá okkur í borgarstjórn er að ákveða hvert við viljum fara með tónlistarfræðsluna, forgangsraða í þágu barna og ungmenna, setja upp einhvers konar aldursviðmið og ná samkomulagi við ráðherra mennta- og menningarmála um framtíðarskipulag tónlistarfræðslu þeirra sem eldri eru og komnir lengst. Það samkomulag er í vinnslu, er að taka jákvæða stefnu og það sem meira er um vert – er að þróast í þá átt að taka meira mið af forsendum tónlistarnámsins og sérstöðu þess.

Það er gott og því ber að fagna og ég hvet ykkur til að láta líka í ykkur heyra við ráðuneyti menntamála. Núverandi ráðherra er raunverulega og einlæglega áfram um að leysa þessi mál með sveitarfélögunum. Hún sat einu sinni í menntaráði í Reykjavík, og hún kann vel að meta gæði reykvískra tónlistarskóla. Það sem skiptir mestu máli fyrir slíkt samkomulag er að þá skiptir ekki lengur máli hvar á landinu efnilegt tónlistarfólk býr, landið verður eitt kjördæmi tónlistarnámslega séð. Það er einn aðalhvatinn að því að ríki og sveitarfélög standa í þessum viðræðum og hafa gert undanfarin sjö ár.

Allir flokkar í borgarstjórn samþykktu í lok ágúst að móta stefnu til framtíðar og gera þjónustusamninga á þeim grunni. Þeir samþykktu að forgangsraða í þágu barna og ungmenna og setja upp aldursviðmið. En á sama tíma samþykktum við aukafjárveitingu því fjárhagsáætlun var samþykkt fyrir 2010 án þess að gert væri ráð fyrir nemendum 16ára og eldri í þeirri von að ríkið kæmi að því verkefni og við vildum tryggja starfsemi tónlistarskóla og nám eldri nemenda fyrir skólaárið 2010-11.

Það er auðvitað hvorki borg né sveitarfélögum til sérstaks hróss að þetta hafi tekið svona langan tíma. Ég viðurkenni það fúslega. Það er óþolandi að tónlistarnám þeirra sem eldri eru sé í stöðugri óvissu. En ég er stolt af kollegum mínum í borgarráði og menntaráði að hafa samþykkt að bíða ekki lengur með að móta sínar áherslur, vinda sér í að móta stefnu borgarinnar og kalla til skólastjóra og kennara úr tónlistarskólum auk annarra úr tónlistargeiranum.

Vinna við stefnuna hefur staðið yfir síðan í september og hún er svo gott sem tilbúin. Að hluta til er þetta fagleg vinna og að hluta til pólitísk. Við gerðum könnun meðal tónlistarkennara um hvernig þeir sæu fyrir sér þróun tónlistarfræðslu í Reykjavík og við lögðum pólitískt mat á mikilvægi tónlistarkennslu í samfélaginu og stöðu tónlistarkennslu í þjónustuframboði borgarinnar. Stefna borgarinnar hefur verið kynnt skólastjórum tónlistarskólanna.

Niðurstaðan er ekkert sérstaklega róttæk stefna um tónlistarnám, en hún er leiðarljós um gæði, fjölbreytni, eftirlit, foreldrasamstarf, námsframvindu og að tónlistarskólar, eins og aðrir skólar borgarinnar, eigi að vera án aðgreiningar. Hún felur í sér virðingu fyrir mikilvægi tónlistarnáms og gæðum tónlistarskólanna. Hún stefnir að aukinni fjölbreytni í námsleiðum, auknu eftirliti af hálfu borgarinnar og auknum kröfum um námsframvindu nemenda.

Næsta skref er að setjast niður með tónlistarkennurum, skólastjórum og nemendum og átta okkur á því: Hvernig munu þjónustusamningar við tónlistarskóla í Reykjavík líta út, á grundvelli stefnunnar? Hvernig getum við, í sameiningu, komist í gegnum næsta vetur, þannig að við getum áfram borið höfuðið hátt, þrátt fyrir krappa stöðu borgarinnar og margvíslegar skyldur hennar gagnvart öllum íbúum sínum?

Tónlistarnemendur eru reiðir núna, og það skil ég, enda hefur umræðan um þennan niðurskurð verið allsvakaleg á köflum. En tónlistarmenn eru líka ákaflega róttækir og lausnamiðaðir. Ég hef fengið tugi tölvupósta með hugmyndum frá tónlistarfólki, kennurum og nemendum, gömlum og ungum, um leiðir til að nýta þessa viðkvæmu stöðu til að endurskipuleggja. Margir skólastjórar í okkar góða hópi skólastjóra eru framsæknir í hugsun, eru raunsæir og sjá fyrir sér breytingar af ýmsu tagi.

Nú þurfum við að setjast niður og skoða hvað vel er gert og hverju má breyta. Erum við á réttri leið með kerfið okkar eins og það er að öllu leyti? Eru skólarnir of margir? Þarf að kenna söng á svona mörgum stöðum í ekki stærri borg? Við hvaða aldur á að miða? Þessum spurningum geta nefnilega margir svarað því við höfum öll skoðun á þessu. Og við ættum að ná sameiginlegum skilningi á framhaldinu: Hver eiga markmiðin að vera og hvaða kröfur eigum við að gera um framvindu? Söngur hefur sérstöðu og sum hljóðfæri hafa sérstöðu, hvernig leysum við það af þekkingu og innsæi? Við eigum að geta komist að samkomulagi um svona hluti.

Hvernig getum við tryggt að börn, með ólíkar þarfir, geti sem flest komist í tæri við hljóðfæri og helst öll lært undirstöðuatriði í tónlist? Og hvernig getum við á sama tíma tryggt að börn sem sýna framfarir fái notið sín og blómstrað?

Ég lærði sjálf á píanó í tónlistarskólum í Reykjavík í 15 ár og kláraði mitt framhaldsnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég þekki styrkleika okkar kerfis ákaflega vel, en ég þekki líka veikleikana og er óhrædd við að ávarpa hvort tveggja. Styrkleikana og veikleikana þurfum við að ræða í sameiningu og við verðum að vilja ræða saman. Við eigum þessa skóla nefnilega saman. Jú, þeir eru vissulega sjálfstæðar stofnanir en borgin greiðir launin fyrir kennsluna.

Við getum ekki án skólanna verið og þeir geta ekki án okkar verið.

Of lengi hefur þetta samband einkennst af tortryggni og tali um peninga, eingöngu. Ég er ekki sátt við það. Mér finnst eðlilegt að borgarfulltrúar sem sitja inni í þessum sal, hafi á því sterka skoðun hvernig tónlistarskólar mæta þörfum barna og unglinga í Reykjavík. Við eigum að hafa skoðun á þessum málum – annars værum við ekki starfi okkar vaxin og værum ekki að standa okkur sem fulltrúar og talsmenn allra íbúa Reykjavíkur.

Ég þekki aðalnámskrá fyrir tónlistarnám vel, las hana samviskusamlega þegar ég var í píanókennaranáminu. Þar er talað um að tónlistarnám eigi að fullnægja eftirfarandi markmiðum: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. Skólar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt, kennarar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt. Það er allt í lagi því hver hefur sinn stíl, en það er spennandi umræða að taka með skapandi hópi fólks: Hvað einkennir tónlistarfræðslu í Reykjavík?

Er hún kannski að einhverju leyti meira að einblína á leikni- og skilningsmarkmiðin en þau samfélagslegu? Hvað kemur barni til manns, eflir sjálfstraust þess og virðingu fyrir hinu smáa, fallega, óútskýranlega og dásamlega? Er það að upplifa þá nánd og þá nautn sem það er að koma saman með frábærum kennara og mússísera, einn og með öðrum? Er það einfaldlega þroskandi ferli að eiga samskipti við aðra í gegnum tónlist, koma fram á tónleikum, rétta úr sér, á eiginlegan og óeiginlegan hátt? Eða skiptir öllu máli að komast í gegnum ákveðinn bunka af lögum og tónstigum og ná framförum?

Hentar það sama öllum? Getum við haldið í frábæran árangur en spurt: Hvert er markmið tónlistarfræðslunnar? Eiga öll börn að fá grunnmenntun í tónlist? Ætlum við að framleiða hlustendur? Ætlum við að mennta afburðartónlistarfólk? Getum við farið einhvern milliveg?

Óvissa er erfitt ástand. Nú erum við á tímamótum með mjög margt í skólakerfinu. Við erum að skoða tækifæri til sameiningar, auðvitað til að spara – við felum það ekki – en líka til að endurskoða margt og gera jafnvel betur. Við reynum að vinna hratt og vel því óvissan tekur á fyrir stjórnendurna okkar, nemendur, foreldra og kennara. Og við megum engan tíma missa því það verður æ erfiðara að standa vörð um grunnskólann og leikskólann þegar svo mikið fjármagn fer í yfirbyggingu, hvort sem það er húsnæði, mötuneytin eða stjórnun. Sameiningar í skólakerfinu þýða að við felum færri stjórnendum stærri verkefni, þær þýða ótal tækifæri til að gera hlutina betur, nýta betur húsnæði, starfsfólk með dýrmæta sérhæfingu og svona mætti lengi telja.
Þessa umræðu þurfum við líka að taka um tónlistarskólana, hispurslaust og án allrar viðkvæmni.

Það er líka annað sem við þurfum að hafa í huga, og það eru aðstæðurnar sem gerðu það að verkum að þið eruð hér á pöllunum í dag og margir, eflaust allir í þjóðfélaginu eru uggandi um næstu misseri. Við búum við breyttar aðstæður. Við vitum að biðlistarnir töldu yfir þúsund nemendur þegar mest var. Nú er staðan allt önnur. Og auðvitað finna skólastjórar tónlistarskóla fyrir því að foreldrar draga börn sín úr tónlistarnámi vegna minnkandi tekna. Það ætti að gefa okkur enn ríkara tækifæri til að setjast niður og ræða þessi mál í sameiningu, nú þegar liggur fyrir á næstu vikum að ganga til samstarfs um næsta vetur.

Það er auðvitað grátlegt að þurfa að minnka framlög til tónlistarskóla og grunnskóla – en við verðum að horfa raunsæjum augum á leiðirnar, kostina og aðferðirnar.

Það hefur í umræðunni verið hent á lofti að íþróttirnar séu frekar til fjörsins og taki til sín allt fjármagn sem fer til tómstunda barna. Því geta aðrir svarað, m.a. formaður ÍTR, borgarfulltrúi Eva Einarsdóttir, og það er að mörgu leyti holl umræða, sérstaklega þegar við skoðum fjármagnið sem hefur farið í uppbyggingu á ýmsum mannvirkjum. Þar er margt sem við getum lært af, við Íslendingar. Annað mannvirki sem er nokkuð frekt til fjörsins stendur hér niður við höfn og verður senn opnað. Tónlistarfólk bað um gott tónlistarhús og hafði gert lengi um áratuga skeið, en ég held að enginn úr þeirra röðum hafi heimtað þessi fínheit, þennan íburð og þessa stærð. Af biturri reynslu munum við vonandi öll læra að innihaldið skiptir meira máli en ytra byrði.

Og tónlistarfólk hefur spurt af hverju niðurskurður sé meiri til tónlistarskóla en t.d. leik- og grunnskóla. Við sem berum ábyrgð á allri starfsemi borgarinnar þurfum mjög oft að velja. Valið er oft erfitt en ég get vel varið það, eins mikið og mér er annt um hag tónlistarskóla í Reykjavík, að við reynum af öllum mætti að hlífa grunnskólakerfinu okkar. Við gátum valið að hlífa tónlistarskólum við niðurskurði en skera harkalegar niður í grunnskólum. Það gat ég ekki gert. Þar fá öll börn tækifæri til að þroska sig, mennta sig og njóta sinna styrkleika, það hlýtur að ganga fyrir. Leik- og grunnskólarnir eru að mínu mati mikilvægasta grunnþjónusta borgarinnar og við það stend ég.

Ég fagna allri umræðu um uppbyggilegt tómstundaframboð fyrir börn og ungmenni, sem byggir á styrkleikum hvers og eins, ekki eingöngu afreksmiðun og heldur ekki stefnuleysi, hvað þá metnaðarleysi. Við munum ná lendingu með ráðherra um framtíðarskipan tónlistarmála, ég er sannfærð um það. Næstu vikur og mánuði nýtum við til að setjast niður með þeim skólum sem vilja vera í samstarfi við borgina næstu árin, á grundvelli nýrra þjónustusamninga sem hvíla á nýrri stefnu og samþykkt borgarinnar. Öll él birtir upp um síðir – þó útlitið geti verið dökkt um stundarsakir.

Ég hlakka til að vinna með ykkur, ég hlakka til að sjá afrakstur allra þessara viðkvæmu ákvarðanna sem við erum að taka á öllum vígstöðvum hjá borginni svo við getum í framtíðinni varið peningum úr okkar sameiginlegu sjóðum í innihald, metnað, fegurð og raunveruleg gæði.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög hlynnt tónlistarnámi.

Ég spila sjálf.

En ég skil ekki hvers vegna skattgreiðendur í Reykjavík eiga að niðurgreiða tónlistarnám fullorðins fólks sem flest er í vinnu.

Sjálfsagt að lita tónlistarnám barna þeim augum að það sé hluti af mennta- og velferðarkerfinu.

En niðurgreiðslur á námi fuullorðins fólks er algjörlega svívirðileg skattheimta, óréttlát og vitlaus.

Ég held að almenningur sé mjög ósáttur við þessa meðferð á skattfé.

Rósa Guðný

Hallur M sagði...

Fín ræða.

Skilgreindi stöðuna pólitískt í pistli í gær. Held að greiningin sé rétt:

"Súpergrúbban missir taktinn!

Tónlistarmennirnir og borgarfulltrúar Bezta flokksins þeir Einar Örn Benediktsson, Óttar Proppé og Karl Sigurðsson ásamt Jóni Gnarr stórsöngvara hafa heldur betur misst taktinn. Þessi súpergrúbba sópaði að sér atkvæðum tónlistarfólks í borgarstjórnarkosningunum.

Nú baula reykvískir tónlistarmenn á Bezta flokkinn eins og beljur á Bítlana.

Þá fær hljómborðsleikarinn Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar litlar undirtektir hjá tónlistarfólki.

Stjörnuhrap sem þetta hefur að líkindum aldrei orðið á vinsældarlistum tónlistarmanna fram að þessu."

Vek athygli á því að þetta er greining á ástandinu. Ég tek enga afstöðu í málinu.

Víkingur sagði...

Hæ kæra Oddný, mikið er skrítið að mæta vinkonu sem ég hef svo mikið álit á og þykir vænt um, sem stjórnmálamanni sem ég er svo ósammála. Ég man alltaf þegar þú lékst Chopin a dúr pólónesuna í Nýja Tónlistarskólanum í gamla daga, það var í eitt af fyrstu sinnum sem töfrar tónlistarinnar opnuðust mér. Og það var mikil reisn yfir þeim flutningi, það man ég þó ég hljóti að hafa verið svona 7 ára. Þú varst um langa hríð mitt helsta átrúnaðargoð í tónlistinni, án þess þú hefðir hugmynd um það.

11% niðurskurður kemur þó allur til framkvæmda á næsta skólaári ekki satt - væri því ekki nær að tala um 33% - niðurskurðurinn dreifist jú einungis á fjóra mánuði?

Og þá er erfitt að sjá Tónó halda áfram starfsemi næsta vetur.

Tónlistarskólar sem sinna umfram annað framhaldsstigsnemum eru reknir á milljóna yfirdrætti hver einustu mánaðamót eins og þú veist, þannig hefur það óhjákvæmilega verið frá hruni. Tónó gerir td allt sem hann getur til að halda gæðum námsins óbreyttum og frábærum aukafögunum eins og þú manst væntanlega eftir. En skólinn hefur auðvitað hagrætt á öllum sviðum síðustu 2 ár í fyrri niðurskurðum, undirleik, launum kennara, samspilum og þar fram eftir götunum. Og aðstaðan þar er borgaryfirvöldum til skammar, það er ótrúlegt hvað starfið helst sterkt þrátt fyrir það og ber kennurunum fagurt vitni.

Það er staðreynd að á þenslutímum (2004-8) smækkaði hlutur tónlistarskólanna gríðarlega ár frá ári í samanburði við íþróttir og tómstundir. Það þarf litla yfirlegu yfir fjárhagsáætlunum borgarinnar til að sjá það. Því er það mikið áhyggjuefni að miðað sé 1-2 ár aftur í tímann þegar rætt er um niðurskurð og hann borinn samann milli ólíkra málaflokka. Þannig skrifaði Dagur undir samning við Björn Inga í jan 2008 sem fól í sér víðtækasta stuðning í sögu borgarinnar við 25 íþróttafélög, upp á 4.8 milljarða. Það er allt annað að skera niður þegar menn eru komnir í slíkar fjárúthlutanir frá borginni heldur en að skera niður hjá tónlistarskólunum sem fengu enga fyrirgreiðslu hvað skatta og fasteignagjöld varðar, hækkuðu ótrúlega lítið ár frá ári - og það þarf auðvitað ekki að minnast á að byggingarstyrkir til þeirra voru núll, ólíkt öllum nágrannasveitafélögum Reykjavíkur þar sem glæsilegir skólar risu.

Tónlistarskólar fengu 570 milljónir 2004, húsaleigu og æfingastyrkir ÍTR voru 580 milljónir. Sjö árum síðar fá tónlistarskólarnir 620 milljónir og húsaleigu og æfingastyrkir ÍTR fá 1.584 milljónir. Það er 21x meiri hækkun hjá ÍTR liðnum.

Byggingarstyrkir 2004-11 eru yfir 2600 milljónir hjá íþróttahreyfingunni, þeir eru 0 í tónlistarskólunum.

Ég held það sé misráðið að tefla saman grunnskólum og tónlistarskólum - það vill enginn vega að grunnþjónustunni. Kannski mætti líkja því við ýktara dæmi, þegar sjúkrahúsdeildum er lokað vegna niðurskurðar og almenningur keppist við að fordæma fjáraustur í snobbmenningu og Hörpu. Væri ekki heppilegra að skoða aftur skiptingu milli stóru flokkanna í fjárhagsáætlun? ÍTR hækkar þar um 80 milljónir, hafandi þanist fram úr öllum böndum, íþróttafélögin hafandi þó nýlokið þessum risasamningi við borgina. Í þessari umræðu á sem sagt að tefla saman tónlistarskólum og íþrótta og tómstundamálum en ekki tónlistarskólum og grunnskólum.

Lykilatriði er að skoða þróun mála fyrir 2008 og leiðrétta hana þegar skorið er niður. Og það erfiðasta í þessari umræðu er að á það er aldrei minnst hjá ykkur. Stundum fyllist maður svartsýni þegar hlýtt er á slíkar umræður eins og á fundinum í gær.

framhald í næsta kommenti

Víkingur sagði...

Eru gervigrassamningarnir og Laugarból partur af þessu Dags og Binga samkomulagi frá því 25 mín fyrir hrun? var virkilega ekki hægt að fresta framkvæmdum í ljósi hrunsins? Eða endurskoða? Hvernig er aðhald borgarinnar gagnvart íþróttafélögunum sem þyggja svo stjarnfræðilegar upphæðir? Yfirbygging tónlistarskólanna er nánast engin, Tónó Rvk er rekinn af skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og einum skrifstofustarfsmanni en skrifstofan er opin í 3 tíma á dag. Hvernig er yfirbygging hjá félögunum 25? Eða voru þau 40? Tónlistarskólarnir eru kannski margir, 18 talsins, en það þarf að taka til á fleiri stöðum. Og miklu miklu rækilegar en hjá tónlistarskólunum, það eitt er víst.

Mér brá í brún þegar ég setti mig inn í þessi mál og áttaði mig á því að skólagjöld nemenda eru hugsuð til að borga reksturinn, húsnæði, hljóðfæri, nótur, tól og tæki. Ekki skrítið að fyrir nema í 8 stigi og ofar kosti 279 þús krónur í ár, 50% meira en 2004 þegar gjöldin voru 186 þús krónur.

Og finnst okkur í jafnaðarsamfélagi eðlilegt að einungis börn hafi jafnt aðgengi að tónlist en þeir sem sýni árangur í listinni og komist á framhaldsstig eða 8. stig þurfi að greiða 2-300 þús á ári? Ég veit um marga nemendur í Tónó sem koma frá fjölskyldum sem hafa haft mjög lítið á milli handanna eftir hrun. Það hefur raunar æxlast þannig að ég veit um óvenju marga í þeirri stöðu sem eru hvað hæfileikaríkastir í skólanum nú um stundir. Mér finnst það óásættanlegt að þessir krakkar hafi vart efni á tónlistarnámi á efri stigum vegna þess að borgin geti ekki borgað rekstur og húsnæði tónlistarskólanna. Það er ekki alvöru jafnaðarmennska.

Auðvitað er gott mál að taka til endurskoðunar að fullorðið fólk geti stundað tónlistarnám sem hobbý. En þá verður að taka allt kerfið til endurskoðunar, þeas alla þá fjölmörgu sem stunda nám í HÍ á miðjum aldri til gagns og gamans og einskis annars. Nægir þar að benda á sagnfræði, bókmenntafræði og tungumálin. Hvað er réttlætið í því að ráðast alltaf fyrst að tónlistinni? T.d. þurftu tónlistarkennarar að taka á sig verulega kjaraskerðingu strax eftir hrun, grunnskólakennarar og aðrir eru fyrst að finna fyrir því núna. Þetta er svolítið lýsandi fyrir viðmót til tónlistarinnar.

Talandi um viðmót til tónlistarinnar og menningar almennt vs íþróttir er áhugavert að skoða hvernig íþróttamannvirki eru alltaf reist án þess að fram þurfi að fara ára eða áratuga umræða um hvort þau standi undir sér og skili arði og séu þar af leiðandi réttlætanleg. Auðvitað standa þau ekki undir sér. Og öllum er sama.

Og punktarnir eru fleiri og fleiri kæra vinkona...

Anna Hugadóttir sagði...

Sæl vertu.

Ég er tónlistarkennari og starfa í einu nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur. Sem slíkur hef ég miklar áhyggjur af þróun mála í Reykjavík. Það er einu sinni svo að Reykjavík hefur lengst af leitt þróun í tónlistarskólamálum á landsvísu og þegar skorið er niður í Reykjavík nota sveitarstjórnir annars staðar á landinu það sem réttlætingu fyrir niðurskurði í eign sveitarfélagi. Í Reykjavík eru hlutfallslega flestir nemendur í framhaldsnámi og þeir Íslendingar sem ætla sér að gera tónlist að æfistarfi koma langoftast við í tónlistarskólum Reykjavíkur einhvers staðar á námsferlinum.

Ábyrgð borgarstjórnar Reykjavíkur er því mikil.

Það gleymist oft í umræðunni að tónlist er atvinnuvegur. Þeir sem afskrifa tónlistarnám sem hobbínám fyrir efnafólk eru alvarlega á villigötum. Í mínum bekk eru t.d. börn og ungmenni úr öllum stéttum og þrepum þjóðfélagsins. Foreldrar þeirra forgangsraða til þess að börn þeirra geti notið tónlistarmenntunar. Sú röksemd sem nýlega dúkkaði upp í fjölmiðlum elítuhobbí-ranghugmyndinni til stuðnings var sú að 75% foreldra barna í tónlistarnámi væru með BA gráðu. Nú er það svo að t.d allir grunnskóla og leikskólakennarar eru með BA gráðu. Til þess að teljast fullgildur tónlistarkennari þarf BA gráðu til. Flestum ætti að vera ljóst að hér er ekki um hálaunafólk að ræða. Gráður einar og sér segja ekki alla söguna og þykir mér þetta slakur rökstuðningur.
Baráttan um tónlistarskólana snýst í mínum huga ekki um fullorðið fólk sem ákveður að læra á hljóðfæri sér til ánægju og yndisauka. Hún snýst um nýliðun í stétt tónlistarmanna. Með boðuðum aðgerðum er vegið grimmilega að þeim sem ætla sér að ljúka námi/gerast tónlistarmenn. Það er ekki hægt að steypa alla í sama mót í þessu sambandi enda námsferill tónlistarmanna ólíkur eftir hljóðfærum/greinum. Sumum, eins og mér, fer fyrst að fara fram um tvítugt. Hefði boðað kerfi verið við lýði fyrir tíu árum síðan væri ég ekki tónlistarmaður í dag. Það er ósköp einfalt.
Í mörg ár hafa borgaryfirvöld í Reykjavík skorið niður hjá tónlistarskólunum. Forráðamenn þeirra hafa ítrekað mætt skilnings- og virðingarleysi hjá borgaryfirvöldum. Þrátt fyrir það hafa tónlistarkennarar haldið sínu striki, gert mikið úr litlu og gert sitt besta til þess að halda uppi gæðum í skólastarfi þrátt fyrir þröngan kost og nánast enga yfirbyggingu.
Tónlistarmenn og kennarar eru opnir og skapandi. Þeir eru seinþreyttir til vandræða en hugsa í lausnum. Það er þeirra starf. Þú segir að umræðan snúist of mikið um peninga. Þá legg ég til að þú og kollegar þínir í borgarstjórn leggið vel við hlustir og takið mark á þeim athugasemdum sem ykkur berast frá tónlistarmönnum. Við vitum um hvað við erum að tala. Sé vegið að eldri nemendum nú er næsta víst að yngri nemendur eru næstir á dagskrá. Eða er við öðru að búast?

Kristján sagði...

Kæra Oddný!

Það að benda á Evu Einarsdóttur eru ömurleg rök og ekta "gráa svæðið" pólitískt svar.

Ég vil svar frá borgarstjórn um afhverju íþróttir fá aukningu ár eftir ár! Ekkert grátt kjaftæði!

bestu kveðjur,
Kristján Orri