29 júní 2009

Er framhaldsskólinn fyrir alla nemendur?

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að framhaldsskólinn er framhald af grunnskólanum, ekki síður en undirbúningur fyrir háskólanám. Við eigum ekki að sætta okkur við að tæp 40% nemenda hverfi frá framahaldsnámi. Þess vegna hef ég talað fyrir því að Reykjavík taki að sér rekstur eins framhaldsskóla í tilraunaskyni. Það er til svo mikils að vinna að þessi tvö skólastig vinni betur saman, til að sigrast á brotthvarfi sem er með mesta móti í Evrópu.

,,Á síðustu mánuðum hafa þúsundir grunnskólanema sótt um skólavist í framhaldsskólum um allt land. Oftast eru reykvískir framhaldsskólar þeir ásetnustu og árið í ár var engin undantekning. Þetta vor er þó sérstakt að því leytinu til að engin samræmd vorpróf voru þreytt í grunnskólum landsins en nýsamþykkt grunnskólalög kveða á um upptöku samræmda könnunarprófa í byrjun 10. bekkjar og þau verða lögð fyrir í fyrsta sinn næsta haust. Fjölbreytt námsmat hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og er nú einn helsti vaxtarbroddur í skólaþróun á Íslandi. Sjálfstæð vinnubrögð, rannsóknir og skapandi þættir fá byr undir báða vængi í fjölbreyttu námsmati.

Í vor tefldu 10. bekkingar í Reykjavík fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskólavist. Besta námsmatið er sennilega það sem byggist á samspili niðurstaðna úr samræmdum könnunarprófum og skólaeinkunnum sem taka mið af fjölbreyttu skólastarfi. Mikilvægt er að námsmat leiðbeini nemendum til aukinna framfara alla skólagönguna og gefi glögga mynd um námslega stöðu við lok grunnskólagöngunnar.

Nú taka margir að lofsyngja gömlu samræmdu vorprófin. Þau þjónuðu vissulega tilgangi sínum sem n.k. inntökupróf inn í framhaldsskóla en viljum við halda áfram á þeirri braut? Þau höfðu sína kosti en einnig sína galla. Hvernig mældu samræmdu prófin skapandi þætti, félagslegan styrk nemandans og frumkvæði? Allt það sem atvinnulíf framtíðarinnar á að byggja á? Það gerðu þau aldrei og munu aldrei gera. Því var að mínu mati hárrétt skref stigið að hverfa frá samræmdum vorprófum sem hertóku allt skólastarf á síðasta ári grunnskólans og jafnvel lengur.

Nú er sagt að jafnræðisreglan hafi verið brotin með því að nemendur tefli fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskóla. En hvað er jafnræði þegar kemur að skólagöngu? Jafnræði felst í því að nemandi komi sterkur út úr grunnskólanum sínum, fullur trú á eigin getu, sama hver hún er. Jafnræðið felst í því að hefja nám í einum af okkar fjölmörgu góðu framhaldsskólum og blómstra í námi. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Umræðan síðustu daga hefur einskorðast við miklar vinsældir nokkurra bóknámsskóla sem taldir eru ,,betri” en aðrir skólar. En hvað gerir góðan framhaldsskóla góðan? Um það vitum við fátt. Er það skóli sem tekur inn nemendur með háar einkunnir og útskrifar þá með jafn háar einkunnir? Er það skóli sem fagnar nemendum með margvíslegar þarfir og getu, kveikir hjá þeim námsáhuga, eflir framfarir og veitir aðhald og aga? Þegar skoðuð er námsframvinda háskólanemenda úr ólíkum framhaldsskólum kemur í ljós að munur þeirra á milli er lítill, eftir að tekið hefur verið tillit til námsárangurs nemendanna þegar þeir hefja framhaldsskólanámið. Hver er þá mælikvarðinn?

Í umræðum síðastliðinna daga finnst mér sem fingrinum sé beint að röngu skólastigi. Grunnskólinn er fyrir alla þar sem styrkleiki hvers og eins fær að njóta sín. Langt er síðan horfið var frá tossabekkjum og elítubekkjum. Sem betur fer. Framhaldsskólarnir okkar eru hluti af íslensku skólakerfi sem einkennist af jöfnuði og félagslegu réttlæti. Skólinn er spegilmynd samfélagsins og það getur ekki verið hollt fyrir viðhorf ungs fólks til samfélagsins að halda áfram á þeirri braut að nokkrir skólar geti valið sér nemendur með tilteknar einkunnir og nokkur hópur nemenda fái sterk skilaboð höfnunar vegna þess að eitthvað vantaði upp á einkunn í tilteknu fagi. Strákar jafnt sem stelpur, ungmenni af erlendum uppruna, námsmenn með ólíkan námsstíl, mismunandi getu og færni í ólíkum greinum eiga að rúmast innan veggja allra framhaldsskóla á landinu. Þeim á ekki að vísa á dyr vegna einkunna, ekki frekar en að nemendur með tilteknar einkunnir eigi að ganga fyrir.

Umræða undanfarinna daga kallar fyrst og fremst á umfjöllun um til hvers framhaldsskólarnir séu og á hvaða forsendum þeir ákvarði hvaða nemendum þeir taki við. Vandi stofnana sem þurfa að velja er skiljanlegur en verður að mínu mati ekki leystur með því að skýla sér á bakvið samræmdar prófseinkunnir við lok grunnskólans. Hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar þarf að ná upp til framhaldsskólastigsins, slíkir skólar skapa andrúmsloft sem einkennist af fjölbreytni og virðingu fyrir náunganum. Ef við þorum að stíga skrefið þá uppskerum við sterkari skóla, sterkari einstaklinga og sterkara samfélag. Það er til mikils að vinna."

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég umgengst mikið útlendinga, bæði hérlendis og erlendis. Alltaf verða þeir jafnhissa þegar ég segi þeim að menntun sé mun dýrari hér en í nágrannalöndum okkar.
Enn meira hissa verða þeir þegar ég segi þeim að hér sé engin skóli sem hafi pláss fyrir nemendur sem ekki eru með yfir meðallag í einkun úr unglingaskóla.
Það hreinlega dettur af þeim andlitið þegar ég segi þeim að háskólamenntun sé ekki á færi þeirra sem ekki búa í foreldrahúsum eða hafi einhvern sem getur framfleytt þeim.

Þegar ég svo segi þeim hvað heilbrigðiskostnaðurinn er hér fyrir almenning er þeim öllu lokið.Að ég hafi ekki heimilislækni og hafi ekki haft í 7 ár hreinlega eiga þeir erfitt með að trúa.
Það er efnileg búið að ljúga að heimsbyggðinni í mörg ár að hér sé menntun ókeypis og fyrir alla, sem og heilbrigðisþjónusta.
Við skulum hætta þessari lygi og kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Menntun er dýr á íslandi og ALLS ekki í boði fyrir alla- HVAÐ þá heilbrigðisþjónusta.
Hvet ykkur til að lesa pistil Bryndísar Scram í Morgunblaðinu í dag.

Nafnlaus sagði...

Mér finnast þessar pælingar skemmtilegar. Samt verð ég að segja að ég tel að slíkum jöfnuði gæti fylgt afsláttur á gæðum, þar sem að nú þegar er veittur of mikill afsláttur. Það verður að vera hægt að verðlauna þá sem að standa sig vel og próf eru líklega besta leiðin til að meta akademíska færni. Til þess að vel fari þarf að vera til heildstæð stefna í menntamálum. Grein Bryndísar Schram (Scram?) var mjög gott innlegg í þessa umræðu. T.d. tel ég mjög mikilvægt að það sé stefna í því að jafna gæði framhaldsskóla og að koma í veg fyrir að það sé svona mikill munur á skólunum. En þetta þarf að gera af alvöru og stefnufestu. Það að hætta bara við samræmd próf og standa uppi með villta vestur heimatilbúinna einkunna er ekki leiðin.


mbk, Pétur Henry Petersen

Nafnlaus sagði...

Ekki koma með þetta að skólar á Íslandi séu dýrari en í nágrannalöndum. Það vita allir sem hafa verið í skólum erlendis að það er alger þvæla. Hins vegar eru bókarkaupa á Íslandi mun hærri. Það er vegna kostnaðar við að þýða bækur fyrir svo fáa.

Nú er lag fyrir ykkur að setja upp þetta "réttláta skandinavíska velferðarþjóðfélag2 eins og foringinn steingrímur j. kallaði það. Hann byrjaði reyndar á að skera niður barnabætur og ætlar að halda áfram núna þegar fólk er komið í sumarfrí og skera þá niður í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Það er mikið á sig lagt til að geta borgað upp icesave og fengið þar með aðgongumiðann í ESB eins og annan stjórnarflokkinn dreymir um, og manni sýnist nokkrir úr hinum arminum séu farnir að gæla við líka.

Nafnlaus sagði...

Það sem á sér stað á framhaldskólastiginu núna og er búið að vera í gangi í mörg herrans ár, (Þetta A B og C nemendur einkunna kjaftæði er ekkert nýtt af nálinni)
verður ekki lýst öðru vísi en mannvonsku og hreinu og kláru einelti.

Það þarf að stoppa þetta bull af og það núna.

Allt tal og rembingur við framkvæmd á grunnskólastiginu um einstaklingis miðað nám er tilgangslaust ef á svo að henda nemendum í endalausa höfnun og keppni að grunnskóla loknum algjörlega óundirbúin undir grimmdina. Þá er eins gott að taka upp aftur tossabekkina og Elíturuglið og flokka börnin okkar frá degi eitt.

Hafi MR, Versló, MH og fleiri snobb framhaldsskólar skömm fyrir kolranga skólastefnu.

Jón H. Eiríksson

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus kl. 16:08

Ég er að tala um mentaskóla. Í Danmörku fá krakkar nú greitt fyrir að stunda mentakóla og í Noregi og Svíþjóð er miklar fjárhagsívilnanir og bækur ókeypis.

Hvað Háskólanám varðar að þá er fólki í öllum löndunum sem við berum okkur saman við, leyft að vinna eftir hentugleika. Lán eru alltaf jafnhá - ekki er mismunað fólki þar eins og hér.

Nafnlaus sagði...

@nafnlaus kl 16:23

Gæti ekki verið meira sammála þér - alveg óþolandi að ríkið skuli svo styrkja þessa snobbskóla sem einungis stuðla að mismunun í þjóðfélaginu.

Unglingur sem "einkunnarlega" kæmist inn í þessa "einkaskóla" getur það ekki hafi foreldrar eða aðrir aðstandendur hans ekki ráð á skóla- og bókakostinum.

Þetta er ekkert annað en gróf mismunun og á EKKI AÐ LÍÐAST !!!!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein hjá þér í Mbl i dag og þörf umhugsun.
Snobb, fordómar og menntahroki eru ekki langt undan hjá meirihlutanum ..Ekki má missa sjónar á aðal fórnarlömunum Börnunum okkar sem eru framtíðin!
Petrina