24 febrúar 2009

23 dagar

Á 23 dögum hefur ríkisstjórnin áorkað ýmsu, eins og lesa má um hér.

Og það dylst engum að verkstjórnarvaldið er skýrara og upplýsingagjöfin betri og markvissari.

Áfram veginn.

17 febrúar 2009

Að* gefnu tilefni

og í ljósi niðurlags þessarar fréttar er gott að árétta eftirfarandi:

Eftir umræður á fundi fulltrúaráðsins í gær var ákveðið að taka út ákvæði sem vinnuhópur á vegum fulltrúaráðsins hafði smíðað. Það kvað á um að kjósendur í prófkjöri skyldu velja jafn margar konur og karla - en í ákvæðinu fólst ekki innbyrðis kynjakvóti. Hámarksfjöldi frambjóðenda sem velja má er 8.

Að mati meirihluta fundargesta hindraði þetta ákvæði framgöngu kvenna í Reykjavík því nú lítur út fyrir að fjórar sitjandi þingkonur bjóði sig fram aftur - þar af sitjandi formaður og tveir ráðherrar. Ákvæðið hefði því líklega heft framgang kvenna í Reykjavík sem getur ekki verið jákvæð þróun í flokki sem kennir sig við kvenfrelsi.

Samkvæmt tillögu sem nokkrir meðlimir fulltrúaráðs, þ.á.m. velþekktar baráttukonur fyrir jafnrétti, lögðu fram var því ákvæðið tekið út en samþykkt með miklum meirihluta að uppstillingarnefnd liti til kvenfrelsissjónarmiða og þeirrar nauðsynjar að fjölga þurfi konum á þingi - ekki fækka.

*Aldrei get ég verið viss um hvort forsetningin eða af á betur við í þessu samhengi. Áhugasamir geta kíkt á síðu Vísindavefsins til að fá úr því skorið.

05 febrúar 2009

Skilanefndir

Ég hlustaði á stefnuræðu forsætisráðherra í gær sem og aðrar ræður þingmanna. Stefnuræða forsætisráðherra stóð upp úr. Hvatning, hreinskilni og engin tæpitunga.

Rauður þráður í ræðum félagshyggjufólks á Alþingi var sá ljóti viðskilnaður sem Sjálfstæðismenn bera að mestu leyti ábyrgð á.

Jóhanna lagði áherslu á að nú sæti bráðabirgðastjórn sem myndi einbeita sér að fáum en mikilvægum verkefnum til að reisa við mikilvægar stofnanir og innviði samfélagsins.

Þessarar stjórnar verður minnst fyrir hugrekki.

Það getur nefnilega ekki hver sem er setið í skilanefnd Sjálfstæðisflokksins.

02 febrúar 2009

Félagshyggja, velferð & jafnrétti

Ég er stolt af flokknum mínum að hafa staðið upp í hárinu á Sjálfstæðisflokknum. Ég var 15 ára gömul þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf óslitna 17 ára valdasetu sína og það er óhætt að segja að langlundargeð gagnvart hugmyndafræði hans og vinnubrögðum var gjörsamlega á þrotum. 


Jóhanna er glæsilegur fulltrúi félagslegra hugsjóna og baráttujaxl þegar kemur að því að verja velferðarkerfið. Húsnæðismálin þekkir hún betur en allflestir aðrir og réttsýni og heiðarleiki einkenna hana öðrum fremur. Jóhanna er jafnréttissinni, það hefur hún sýnt og sannað í verkum sínum.

Og í dag höfum við eignast fyrsta kvenkyns forsætisráðherrann og kynjahlutfall í ríkisstjórninni er jafnt. Það skiptir máli. Ég vona að 15 ára gamlar stúlkur og drengir megi lifa við þann veruleika næsta áratuginn, og alla sína tíð. 

Ég óska ríkisstjórninni, sérstaklega nýju ráðherrunum alls hins besta í krefjandi verkefnum. 
Okkur öllum óska ég til hamingju með nýja, endurnýjaða stjórn. Kröfur þjóðarinnar um breytingar, uppstokkun og aðallega kosningar í vor skiluðu sér í nýrri ríkisstjórn. 

Framundan er ótrúlegt tækifæri fyrir félagshyggjufólk á Íslandi að starfa saman og sanna sig fyrir þjóðinni. Takist þeim það verður langt í að frjálshyggjuöflin nái völdum á Íslandi á nýjan leik.