16 júlí 2008

Eyjublogg

Í svo til internetlausu (þráðlausu...?!) sumarfríi á eyju norður í landi er hressandi að ganga á land á Eyjunni og rekast á þau sómahjón og presta Jónu Hrönn og Bjarna. Ánægja mín með Eyjuna minnkar sannarlega ekki við að vera í félagsskap við þau. Velkomin!


Skjótt yfirlit yfir fréttir vikunnar eru vitanlega þær sem tengjast ESB-aðild. Slíkur stígandi er í umræðunni að fljótlega hlýtur að draga til tíðinda. Ég bæti smátt og smátt í sarpinn í bloggfærslu mína sem kennd er við reyksprengjur - gott að hafa yfirlit yfir fylgismenn aðildar, nú síðast stórkaupmenn. 

Þetta vissum við hins vegar. Jákvæð en hæg þróun. Það er óskiljanlegt að við Íslendingar skulum ekki taka flugið í jafnréttismálum og verða virkilega leiðandi í heiminum á því sviði. 

Kuldi á norðurlandi út vikuna svo gammósíurnar komu sér vel. Nýja sundlaugin í Hrísey er hreint út sagt frábær og næstu helgi verður blásið til hinnar árlegu fullveldishátíðar. Enn eigum við eftir að gæða okkur á bláskel en hún hefur verið nokkuð í fréttum undanfarið og sýnist mörgum sem góðir framtíðarmöguleikar séu henni tengdir. 

Góða gesti hefur borið að garði og nú er fullmannað í samfélagi sumarfugla sem geymir margan góðan manninn og konuna. 

Kveðja úr Hrísey.

1 ummæli:

Örn Úlfar sagði...

Gott er að saxa grænmeti smátt og steikja í örstutta stund. Henda bláskelinni út í og steikja í eina mínútu og hella svo einni bjórdós út í og sjóða í smá stund. Hafandi áður kannski soðið nýjar kartöflur. Nammi namm.