18 október 2010

Þegar Samfó og Besti stálu jólunum

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til meðferðar drög að leikreglum um samskipti skóla og trúfélaga. Menntaráð mun fá málið til umsagnar, sem og ÍTR og velferðarráð.

Umræða um skólamál, hlutverk skólans og hlutverk annarra stofnana í samfélaginu er alltaf fagnaðarefni. Hins vegar hefur umræðan síðustu daga verið nokkuð í æsifréttastíl og því koma hér nokkrar staðreyndir áður en lengra verður haldið:

1) Það er enginn að eyðileggja jólin. Í drögunum er þess sérstaklega getið að ekki er ætlunin með þeim að hrófla við hefðbundnum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. Litlu-jólin, jólaföndrið, jólaböllin og annar sígildur undirbúningur jóla verður eftir sem áður veruleiki reykvískra leik- og grunnskólabarna.

2) Það er enginn að leggja niður trúarbragðafræðslu í skólum. Í drögunum er hvergi vikið einu orði að trúarbragða- eða kristinfræðslu. Sú fræðsla fylgir ákvæðum aðalnámskrár hverju sinni og reykvískir skólar munu því hér eftir sem hingað til fræða börn um ólík trúarbrögð, kristna trú sem og aðra.

Í drögunum gerir mannréttindaráð tilraun til að skerpa á hlutverki skólans annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Síðustu ár hefur það færst í aukana að prestar komi í reglulegar heimsóknir í skóla, núningur kemur upp vegna fermingarfræðslu á skólatíma og brunnið hefur við að starf á vegum kirkjunnar sé orðið óeðlilega samtvinnað skólastarfinu. Það samræmist hvorki mannréttindastefnu borgarinnar né hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sem kveður á um að taka beri tillit til allra barna, óháð atgervi þeirra eða trúarskoðunum.

Það er foreldra að sinna trúaruppeldi barna sinna, skólans að uppfræða og kirkjunnar að boða trú. Allar hafa þessar stofnanir (ef fjölskyldan er stofnun) merkilegu og ekki síst ólíku hlutverki að gegna.

Spurt er: Hvað með samstarf í hverfum? Getur hvert og eitt samfélag ekki fundið út úr þessu sjálft?

Ég er mikill talsmaður hverfanálgunar á alla þjónustu við börn og unglinga. En það mun aldrei skapast sátt um það að kirkjan hafi bein ítök í skóla- og frístundastarfi. Til þess eru nægilega margir foreldrar sem vilja ekki slík afskipti. Í sumum hverfum virða prestar hlutverk skólans og skilja hlutverk kirkjunnar - í öðrum ekki. Um sumt verða að gilda miðlægar reglur.

Spurt er: Mikill meirihluti barna er í þjóðkirkjunni, er verið að breyta öllu fyrir háværan minnihlutahóp?

Fræðsluyfirvöld og menntaráðsfólk þurfa ávallt að hafa sína miklu ábyrgð í huga. Hún er sú að skólinn er griðastaður allra barna, hvers eins og einasta. Barna með sérþarfir og barna sem koma úr fjölskyldum sem aðhyllast önnur lífsviðhorf en kristin. Röksemdarfærslan um háværa minnihlutahópinn þykir mér sérkennileg. Eigum við þá ekki að taka tillit til barna með sérþarfir í skólunum, þau eru nú ekki nema um 10-15% af barnafjöldanum? En mitt hlutverk er að gæta að réttindum þeirra barna, rétt eins og allra hinna.

Spurt er: En er kirkjan og prestar að boða eitthvað hættulegt?

Að sjálfsögðu ekki. En skólar eru ekki vettvangur fyrir trúboð. Kirkjan og önnur trúfélög hafa mýmörg tækifæri til að koma sínum boðskap á framfæri við börn og unglinga. Vandað og gott barna- og unglingastarf þekkist af afspurn, og í sumum sóknum er gríðarlega blómlegt æskulýðsstarf. Það er ekki í nokkurri hættu þó svo við skerpum á reglum borgarinnar þegar kemur að beinni þátttöku kirkjunnar í skólastarfi.

Spurt er: Hvar er samráðið?

Þessi umræða datt ekki af himnum ofan í þessari viku. Á árinu 2007 skilaði starfshópur á vegum mennta- og leikskólasviðs vandaðri skýrslu um samskipti skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Við það borð sátu fulltrúar Biskupsstofu, KHÍ, Alþjóðahúss og fulltrúar annarrar trúfélaga. Niðurstöðurnar voru einmitt á þá leið að skýrar starfsreglur skorti og að ekki mætti mismuna börnum og unglingum í starfi skóla í Reykjavík vegna trúar- og lífsskoðunar þeirra. Eins var það áréttað að skólar hafa eitt hlutverk - kirkjan annað.

Spurt er: Hvað með hin gömlu og góðu kristnu gildi? Eiga þau að hverfa úr skólunum?

Gömul og góð gildi um kærleik, réttlæti, hófsemi og virðingu einkenna mörg trúarbrögð og lífsskoðanir okkar flestra. Þau gildi lifa góðu lífi í skólum borgarinnar og munu gera það áfram. Skólar hafa lagt sig fram um að skapa andrúmsloft virðingar og náungakærleika með milljón aðferðum síðustu ár og áratugi.

Lítil er trú fólks á fagmennsku kennara og þeirra góða starf ef það heldur að framlag þjóðkirkjunnar gegni mikilvægu hlutverki í mótun kærleiksríks og umburðarlynds skólaumhverfis!

Spurt er: Eru miðlægar reglur á borð við þessar ekki bara olía á eld þeirra sem vilja snúa öllu upp neikvætt upp á innflytjendur?

Ég hræðist ekki málefnalega umræðu. Og ég er baráttumaður fyrir því að öllum börnum líði vel í skólanum, óháð lífsskoðunum þeirra. Ómálefnalega umræðu hræðist ég hins vegar eins og pestina - sér í lagi þegar hún tekur á sig mynd útlendingahaturs.

En sú hræðsla kemur ekki í veg fyrir að við mótum samfélag sem tekur sífellt meira tillit til margbreytileikans.

Ég hlakka til að vinna umsögn menntaráðs um tillögur mannréttindaráðs á næstu vikum. Um þær verður að ríkja sátt en ég lít ekki svo á að skólinn þurfi að taka mikið tillit til þjóðkirkjunnar - þjóðkirkjan verður hins vegar að taka tillit til grunnskólans og þeirrar sérstöðu hans sem stofnunar að öll börn eru þar við nám og leik. Ekki bara 80 eða 90% þeirra - heldur hvert eitt og einasta.

60 ummæli:

Sigurður Hólm Gunnarsson sagði...

Flott grein hjá þér Oddný!

Nafnlaus sagði...

Bravó Oddný og félagar. Gífurlega mikilvægt skref stigið með skýrum reglum.
Þegar ég kvartaði yfir því að sérstakur launaður starfsmaður eins trúfélags væri á ferðinni tvisvar í viku í skipulögðu starfi barnanna minna inni í leikskólanum sínum voru svörin að þetta væri alls ekkert trúboð og tengdist varla trúarbrögðum. Meira svona gaman og siðferðisfræðsla og slíkt.
En viðbrögðin sem koma núna benda til þess að án sérstakrar boðunar trúfélaga gagnvart börnum í leikskólum og grunnskólum leggist kristni í landinu nánast sjálfkrafa af. ERGO: Þetta er grundvallarboðun sem fram fer meðal barna í leikskólum og grunnskólum.
Skondin viðbrögð.

Svanur Sig sagði...

Sæl Oddný
Þið eruð að standa ykkur frábærlega í mannréttindaráði. Loksins er komið fram fólk í stjórnálum sem þorir að fara eftir því besta í mannréttindum og er tilbúið að takast á við jafn tilfinningalega eldfim mál sem þessi. Þessi framistaða ykkar mun eiga sinn þátt í því að endurskapa traust og sterkara siðferði í þjóðfélaginu. Það sjá það ekki nærri allir núna en það er mín sýn á málin. Loksins er hægt að benda á stjórnmálamenn og nefndafólk sem er virkilega til fyrirmyndar. Loksins komið fólk sem tekur ekki bara auðveldustu ákvarðanirnar til þess að halda logninu og atkvæðunum. Ef að þið standið storminn af ykkur get ég auðveldar brosað framan í heiminn. :-)

Nafnlaus sagði...

þarft og nauðsynlegt!
tæki ofan hatt ef ég ætti. ánægður með þetta pólitíska þor. skora á ykkur að keyra þetta í gegn!
kær kveðja,
jón óskarsson

Nafnlaus sagði...

Í öllum bænum ekki bakka með þetta, það er tími til komin að börnin mín standi jafnfætis öðrum börnum í skólanum. Í skóla barnanna minna er skólastjóri sem virðist vera mjög trúuð og prestur samfélagsins hefur fengið óheftan aðgang að skólanum og foreldrar ekki spurðir álits. Þetta er óþolandi, hvað næst, sjálfstæðisflokkurinn með sitt fólk að segja börnunum hvað þau eigi að kjósa þegar þau verða stór? Það er nóg komið af trúboði í skólum og námsefnið má einnig skoða með sömu gleraugum.

Bestu baráttu kveðjur
Valur B

Nafnlaus sagði...

Eftirfarandi þurfa þeir að hafa í huga sem vilja áfram að prestar séu með trúboð í skólum landsins. Mannréttindi ganga út á það að meirihlutinn troði ekki á minnihlutahópum í krafti stærðar sinnar.

Kveðja
Valur B

Reynir sagði...

Það kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir að "mannréttindaráð" sé að reyna takmarka mannréttindi.
Fyrsta athugasemdin þín um Jólin, þannig að það er í lagi að hafa jólin, en bara ekkert inntak, snýst þetta þá bara um góðan mat, skreytingar og gjafir. Er ekki yfirborðsmennskan að drepa þetta samfélag hvors sem er, og ætlar þú að vera böðulinn. Þvílík hræsni.

2) Eru það mannréttindi að fræða börn í skólum jafnmikið um búddisma og kristinn trúarbrögð. Getum við þá ekki tekið meira og minna allt skólastarfið, og sagt að það feli í sér mannréttindabrot?
Á s.s. ekkert að iðka trú í skólum, vegna þess að það særir einhverja. Allt í lagi, ef það særir mig að trúleysi sé iðkað í skólum á ég þá ekki rétt að kvarta til mannréttindaráðs?
Hreint með ólíkindum að nú þegar börn geta orðið sér úti um hreinan viðbjóð hér og þar, og ansi slæmar fyrirmyndir, þá skuli "mannréttindaráð" gera sérstakega tillögu að ráðast að lágmarks-"trúariðkun" í skólum landins. Þetta er brandari!
Þjóðin á sér arfleið, kristni er þar á meðal. Eigum við ekki frekar að ræða um allt það góða sem kristnin hefur fært okkur, og hvað hún stendur fyrir?
Hræsnin er reyndar fullkomnuð þegar talað er um að ekki megi vera með kirkjulegt starf í skólum vegna þess að núna í dag misbjóði það börnum innflytjenda, en hverjir er innflytjendurnir, jú, 90% kristið fólk. Maður spyr hreinilega: er algjör skortur á almennri skynsemi í mannréttindaráðinu. Hafið þið bókstaflega ekkert að gera?
Nú hefur ríki og borg tekið við stórum hluta uppeldis barna, og vegna þess, að þá munu börn fara á mis við kristilegt innræti að stórum hluta í æsku sinni, jú þá allt vegna mannréttinda...?? Þetta mál er svo öfugsnúið, að þetta minnir eiginlega meira á einhvern súrrelískan brandara hjá Jóni Gnarr.

Reynir,

Nafnlaus sagði...

Frábært. Takk Oddný! Loksins loksins. Það er sko löngu kominn tími til að setja sterkar leiðbeinandi reglur um aðkomu kirkjunnar að skólunum.

Kveðja
Jón H. Eiríks.

Unknown sagði...

Kæra Oddný.
Síðast þegar ég vissi var þjóðartrú Íslands Luthers-trú. Ég sjálfur er trúleysingi. En samt sem áður fyrir trúleysi mína fór ég í kirkju frá því ég var í leikskóla fram-til lok gagnfræðiskólans. Á þessum árum hef ég mætt í kirkju amk 1 á ári ef ekki oftar í fylgd með grunnskóla eða leikskóla. Ef ég segi eins og er þá hefur hver einasti maður, þótt hann sé ekki kristinn gott af því að mæta í kirkju, ekki bara til að vita meira um þjóðartrú íslands helur líka til að finna jólaandann sem er svo sterkur hér á Íslandi. Jólin eru einstök, þau eru eiginlega ekki bara trúin heldur líka tími fjölskyldunnar og hátíða. Svo í staðin fyrir að fara kanski tvisvar ef ekki einu sinni á ævinni í tíma til að læra um kristna trú og yfirleitt er það í 6 bekk ef mig minnir rétt, svo 2 árum seinna manstu ekki neitt. Einnig er það líka ef foreldrar barnanna eru ofsatrúar og þora ekki að láta krakkana sína fara í íslenska þjóðkirkju eða vilja það ekki þá geta þau allveg haft samband við skólann og þá á það ákveðna barn/börn leikið sér að vild. Eini gallinn við það þá eru börn kanski svolítið útundan, en þrátt fyrir það þá er Lúthers-trú íslenska ríkistrúin og fólk þarf að virða það.
Svo mér finnst þessi humynd allveg útí hött ef ég segi þér mitt persónulega álit.

Nafnlaus sagði...

Höfundur skrifar:
"Spurt er: En er kirkjan og prestar að boða eitthvað hættulegt?

Að sjálfsögðu ekki."

Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að svo sé "að sjálfsögðu" ekki?

Sjálf tel ég engan vafa á því að kirkja og prestar hafi í frammi stórskaðlegan og hættulegan áróður sem m.a. boðar undirgefni gagnvart valdi og heimssýn sem er svo vitlaus að líkja verður við hreina vitfirringu.

Mér þykir þessi fullyrðing höfundar stórundarleg í annars ágætri grein.

Brynjólfur Þorvarðarson sagði...

Sæl Oddný, fín grein. Sjálfur hef ég átt tvö börn í grunnskólum Reykjavíkur (og reyndar víðar). Ég minnist þess að hafa verið dreginn í kirkju, sem foreldri, kringum páska fyrir einum sex, sjö árum. Þetta var í Álftamýrarskóla. Dóttir mín tók þátt í einhverju tónlistaratriði sem hafði ekkert með kristni að gera og mér sem foreldri var boðið að koma og hlýða á flutninginn ... í Grensáskirkju! Ég mætti í skólann á tilsettum tíma og síðan var gengið fylktu liði, fram hjá sal skólans, framhjá íþróttahúsi skólans, meðfram Miklubraut og yfir ljósin á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, með nokkur hundruð grunnskólabörn og foreldra þeirra. Þegar í kirkjuna kom hélt presturinn langa og leiðinlega páskapostillu, ekki eiginlega messu, en mjög trúarlega þó. Börnunum leiddist mjög og hlupu fram og til baka öskrandi og æpandi þannig að varla heyrðist í prestinum. Loks kom að tónlistarflutningi barnanna sem var jú ágætur (og án nokkurra tengsla við kristni), og maður spurði sig: Af hverju í ósköpunum var þetta ekki haldið í skólanum sjálfum? Hvað gengur skólastjóra/presti til að draga börn og foreldra undir nánast fölsku flaggi, hálfan kílómetra yfir stærstu umferðaræðar landsins bara til að koma börnunum í kirkju og beina að þeim trúboði (sem auðvitað mistókst algjörlega).

Carlos sagði...

Vel gert, Oddný. Þetta eru tillögur sem hægt er að vinna með og móta í framtíðinni. Ég hugsa að næstu misseri koma til með að sýna styrkleika þeirra og veikleika.

Athugaðu, að eins og stendur eru sumir prestar fagmenn í áfallahjálp (og aðrir ekki) en sóknarprestar og prófastar eru vegna embættis í áfallaráðum og á áfallaskipulagi þeirra samfélaga sem þeir búa í.

Hægt er nýta krafta þeirra án þess að það þurfi að vera trúboð eða óeðlileg tenging við trúfélag. Bara spurning um starfshætti á vettvangi, og þá starfshætti þarf mannréttindaráð að skilgreina.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, frábær grein. Manni verður illt að lesa viðbrögð sumra við þessum hófsömu og skynsamlegu tillögum.

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þessu!

Kv
Lára

Nafnlaus sagði...

Oddný er rödd skynseminar í hafsjó heimskunar.
Benda má á að jól er ekki kristið orð. Segja má að kristnin hafi "stolið jólunum" frá heiðnum sið, Hátíð hækkandi sólar þekkist í flestum trúarbrögðum eins og aðrar árstíða hátíðir. Miðausturlanda trúabrögð eiga illa við í köldum löndum þar sem hel er kallt en ekki heitt. Benda má á að við aðskilnað ríkis og kirkju að margar kirkjujarðir vor upphaflega hofjarðir, sem fyrst kaþólska kirkjan svældi undir sig og svo kóngur. Ef skila á kirkjujörðum ættu því all margar þeirra renna til Ásatrúarfélagsins

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir að standa með réttlæti og mannréttindum.

Reynir Harðarson

Unknown sagði...

Það er enginn hófsemi í þessum tillögum enda eru þær þess eðlis að meira að segja trúlausir blöskrar þetta ofstæki.

Það að vernda þurfi minnihlutann (skv. mínum heimildum hafa 25 kvartanir borist á sl. 4 árum vegna samskipta skóla við kirkjur, sem er þó nokkuð lágt hlutfall sbr. við 13000 börn á leik- og grunnskólastiginu í Reykjavík) er fásinna í eðli sínu þar sem ekki er hægt að benda á neinn skaða sem af þessu verður.

Að sama skapi get ég ekki annað mótmælt þessum málflutningi hjá þér, Oddný, eins og þetta sé einhver stóri sannleikur hjá þér. Þegar það kemur að t.d. helgileiknum sem er árviss viðburður hjá mörgum skólum hér í borg þá er afgreiðir þú það á gráu svæði og af því það er á gráu svæði þá er best að afgreiða það út af borðinu. Þessar tillögur "mannréttindaráðs" eru í besta falli á gráu svæði og ætti því að henda þeim út á borðinu!

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög ósammála þessu og eiginlega hrædd við þessa þróun í sjálfu sér því þetta er bara fyrsta skrefið af mörgum sem verða þeim mun auðveldari ef þetta verður tekið.
Hvað eiga börnin að syngja um þegar þau dansa í kringum jólatréð? jólasveinana? má yfir höfuð nefna á nafn Jesú -í söngvum um jólin? þetta er slæm þróun og er ekki til að auðvelda eitt né neitt heldur bara flækja.
Ég er mjög mjög ósátt við ykkur í mannréttindaráði og vonsvikin.

Matti sagði...

Flottur pistill. Ég vona að þið hafið kjark og festu til að fylgja málinu eftir og klára það þrátt fyrir að kirkjan berjist hatrammlega gegn því. Ekki láta hana stöðva þetta eins og hún hefur náð að stöðva eða fresta öðrum sjálfsögðum mannréttindamálum.

Nafnlaus sagði...

Vel gert Oddný, það var tími til kominn að önnur eins mannréttindi komust á. Ég vona að önnur sveitafélög fari að ykkar fordæmi.

kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Frábært skref í rétta átt hjá mannréttindaráði og frábær grein hjá þér Oddný.

Sigurrós Jóhannsdóttir

Andrea sagði...

Ég held í alvöur að sumir sem skilja eftir athugasemdir hér séu ólæsir, nefni engin nöfn.

Þetta er frábærlega vel skrifuð grein sem útskýrir vel markmið mannréttindaráðs.

Ég er því miður ekki íbúi í Reykjavík heldur Garðabæ og þarf því að þjást með þjóðkirkjuna innanborðs eitthvað áfram, við hljótum að finna húsnæði í Reykjavík fljótlega :)

Ég þakka mannréttindaráði fyrir að taka þetta stóra og mikilvæga skref. Húrra fyrir ykkur!

Nafnlaus sagði...

@Reynir (19.okt. 00:12): Hvernig iðkar maður trúleysi?! Ég er búinn að leita og leita en finn engar leiðbeiningar!

Kristinn sagði...

Flott grein, Oddný.

Málflutningur andstæðinga er jafnan fólginn í fáránlegum útúrsnúningi.

Tökum sem dæmi Reyni hérna fyrir ofan.

"Fyrsta athugasemdin þín um Jólin, þannig að það er í lagi að hafa jólin, en bara ekkert inntak, snýst þetta þá bara um góðan mat, skreytingar og gjafir. Er ekki yfirborðsmennskan að drepa þetta samfélag hvors sem er, og ætlar þú að vera böðulinn. Þvílík hræsni."

"ekkert inntak"? Hvað er að? Kristnin hættir ekkert að vera til við það að trúboði í skólum verði hætt og þess utan eru jólin í flestra huga kærkominn tími til að sinna og minnast fjölskyldu og vina. Að lokum er margt ef ekki flest sem viðkemur jólunum komið úr heiðnum siðum og þau þurfa ekkert að missa vægi sitt eða hátíðleika þótt ekki sé spáð neitt í kristni þegar haldin eru jól.

Hinar klassísku dyggðir, fyrir tíma kristni, eru hugrekki, réttsýni, hófsemi og skynsemi (dómgreind), og að viðbættum náungakærleik eins og t.d. þeim sem átakið gegn einelti í skólum byggir á - alveg án trúarbragða - held ég að við séum nokkuð vel stödd hvað "innihald" snertir í skólakerfinu og annarstaðar.

Ómerkilegri málflutningur en þetta hjá Reyni og félögum er vandfundinn.

Trúboð úr skólum og inn með auknar áherslur á almenn og góð gildi. Síðan getur fólk valið að boða börnum sínum trú hemafyrir og utan skólatíma ef það vill. Það er þeirra val.

Nafnlaus sagði...

Rosalega flott hjá þér Oddný. Ég gekk í gegnum nákvæmlega sama pakka og er í gangi núna hjá grunn- og leikskólum og furða mig enn þá á því hvers vegna þetta er í lagi. Trúboð til fólks yngri en 18 ára er bara gróft brot á sakleysi barna. Það á að kenna börnum að taka afstöðu til hluta og rökræða málin. Það á ekki að copy/paste-a trúarskoðun beint í æð hjá þessu unga fólki.

Unknown sagði...

Glæsilegt hjá ykkur Oddný.

Loksins er verið stíga skref inn í tuttugustu og fyrstu öldina í þessum málum. Kominn tími til.

Þeir svo sem vilja enn búa á síðustu öld, mega endilega versla fyrir mig hlutabréf í Google. Þau eru verðmæt hér í framtíðinni.

Gísli Gunnarsson sagði...

Haltu áfram þessu frábæra starfi og góðu skrifum, kæra Oddný.

Gísli Gunnarsson

Hjörtur Hjartarson sagði...

Mjög fín og upplýsandi grein.

Reynir sagði...

Ég sé að Kristnn er farinn að afkristna þjóðina ;-)
Jólin eins og við þekkjum þau eru kannski byggð á hefðum fyrra manna, en fljótlega eftir kristburð þá var farið að tala um 25.desember sem afmælisdag Krists, og jólin síðan haldin í kjölfarið á því. Þegar t.d. var farið að halda upp á "jólin" hér, þá var búið að halda upp á "jól" að kristnum sið í hundruðir ára í Evrópu, þess vegna varla hægt að tala um einhvern stuld.

Þessa vegna er þessi meinti útúrsnúningur minn, ekki meiri en það, að ég bendi einfaldlega á lygar hjá Kristni og öðrum, sem virðist gera allt til að afskræma kirkjuna eða kristni. Hann segir mig vera með útúrsnúning. Já, það er allt satt og rétt sem klappstýrurnar hennar Oddnýjar segja. Þeir eru víst fulltrúar gagnrýninnar hugsunar, og óvefengjanlegs sannleika í nafni trúleysis ;-)

Oddný, þér virðist vera algjörlega sama um svona viðhorf??!!
Ég neita einfaldlega að trúa því að þú sért svona innrætt. Ég er ekki að segja þetta í einhverri yfirhafningu, heldur eru þetta einfaldlega lágmarkskröfur sem maður getur gert til náungans.

Það fyndna er að það er eiginlega erfitt að tala um þetta, vegna þess að það er ekki um trúboð að ræða til að byrja með.

Andrea,
Þú taldir að einhverjir væru ólæsir hérna, ja, miðað við textann þinn þá ert kannski læs, en þó ekki skrifandi, þetta kemur allt með kalda vatninu ;-)

Hvet Oddnýju endilega að svara hérna. Verð líka að benda á eitt komment frá nafnlausum "trúboð til yngri barna en 18 ára er gróft brot gegn sakleysi þeirra"...
Ef þetta væri bara eitt komment eða grín, þá væri þetta s.s. allt í lagi, en það eru til einstaklingar sem virkilega halda þetta, en eiga þessir einstaklingar að ráða samfélaginu??
.....ekki heil brú, ekki ein einasta.

Unknown sagði...

Undanfarið hefur átt sér stað mikil og þörf umræða um kröfur Siðmenntar, (mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar) um að ekki eigi sér stað nein trúarleg iðkun í skólum. Ég er ekki viss um að almenningur geri sér grein fyrir því hve Ásatrúin og kristindómurinn eiga sér sterkar rætur í menningararfleið þjóðarinnar.

Sagan okkar sem að við íslendingar erum svo stolt af og hefur skapað íslendingum sérstöðu meðal þjóða heims er samfléttuð átrúnaði á æðri mátt, og ég segi að fyrir mitt leyti vil ég ekki hafa það öðruvísi. Ég hef einsog margir aðrir foreldrar lagt ríka áherslu á það við uppeldi barnanna minna að þau geri sér grein fyrir því láni að vera íslensk, og hef innrætt þeim virðingu fyrir sögu, menningu og bókmenntum þjóðarinnar.

Núna er ljóst að Siðmennt (mannréttindaráð Reykjavíkurborgar) setur það fyrir sig það að sálmar séu sungnir í skólum fyrir jól og krefjast banns á flutningi helgileiksins um fæðingu Jesú í skólum. (minnir mann á Kínverska kommúnismann) Ef við lítum á þennan meinta sálmasöng sem yrði bannaður í skólum er þar að finna ; Í Betlehem er barn oss fætt, Heims um ból helg eru jól, og Bjart er yfir Betlehem.

Í Skólaljóðunum gömlu, góðu er að finna einstakar perlur, sem a.m.k. við fyrstu sýn uppfylla ekki skilyrðin um guðleysi í skólum,
Þjóðsöngurinn hlýtur að þurfa að víkja "Ó Guð vors lands...."

Lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Ísland er land þitt, sem stundum hefur verið nefnt þjóðsöngur númer tvö gengur ekki heldur "Ísland sé falið þér eilífi faðir, Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf"

Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu. Þar segir "...geym Drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð "

Erla góða Erla, Stefáns frá Hvítadal á vart upp á pallborðið "Dýrðlega þig dreymi og Drottinn blessi þig"

Góða tungl eftir Steingrím Thorsteinsson er heldur ekki guðlaust "Og sem vinhýr vörður manna, Vitna þú um drottins ást"

Ísland ögrum skorið "fyrir skikkan skaparans; vertu blessað, blessi þig, blessað nafnið hans"

Þetta er ekki tæmandi upptalning, síður en svo. Þessi menningararfur er ómetanlegur, eins og kristnu fræðin.

Hvað gæti þá komið í staðinn fyrir þessi ljóð?

Súrmjólk í hádeginu og seríos á kvöldin? eða Diggi liggi læ læ, diggi liggi ló?

Reynir sagði...

Hvet Oddnýju líka til að lesa kommentið hans "Brynjólfs".
"Frábært" að sjá hvað margar tómar tunnur láta hljóm sinn opinberast.
Þetta virðist helst vera kergja foreldrana, heldur en eitthvað raunverulegt mál. Magnað hvað fólk getur gert úlfalda úr mýflugu.
Það þarf ekkert að segja meira ;-)
Þessi skrif eru svo uppfull af forpúkun og rugli að hann Brynjólfur sér svo snilldarlega um þetta sjálfur.

Einar Sveinn Árnason sagði...

Sæl Oddný. Styð eindregið hugsunina á bak við þessa tillögu. Sem fyrverandi skólastjóri tel ég nauðsynlegt að greina skýrt á milli trúboðs og menntunar. Það eru margir hópar með góðar hugmyndir um hvað gerir fólk að góðum meanneskjum. Á skólinn að taka á móti þeim öllum? Er einhver þeirra betri en annar? Skólar landsins er allir að vinna með góð mannleg gildi sem hluta af því að skapa gott samfélag í skólunum.

Brynjólfur Þorvarðarson sagði...

"Reynir" sýnist mér segja að þessi tillaga sé fram komin vegna óánægju foreldra. Hann hittir væntanlega naglann gjörsamlega á höfuðið! Enda eru það foreldrarnir sem eiga að fá að ráða þessu, ekki litlir skólastjórar með trúboðstitring.
En ég get sagt "Reyni" aðra sögu af dóttur minni, þessi gerist reyndar ekki í Reykjavík heldur nágrannasveitarfélagi, fyrir um 4 árum. Sá skóli sendi börnin í messur baki brotnu fyrir jól og páska, börnin voru send ein yfir minnst eina fjölfarna götu. Dóttir mín vildi alls ekki fara, hún leið fyrir að þurfa að sitja messu en þorði ekki að nefna það í skólanum. Þetta varð til þess að ég sendi skólastjóranum bréf gegnum vefsíðu skólans, sem margir sáu. Dóttir mín bjargaði sér reyndar sjálf, sat heima þennan tiltekna dag, en ég fekk seinna skilaboð frá kennara í skólanum, sá sagði mér að margir kennaranna voru mjög á móti þessum messuferðum en enginn þorði að segja neitt við skólastjórann sem hrósaði sér af kristniboðun sinni. Ég væri sá fyrsti sem hefði sagt eitthvað gegn þessum messuferðum!

Unknown sagði...

Grátlegt að líta yfir áherslur og unnin verk ykkar Samfylkingarkvenna í valdastöðum.
Hver man ekki eftir baráttu ykkar fyrir því að börn yrðu ekki klædd í bleik eða blá föt á fæðingardeildum?
Núna mega barnshafandi konur þakka fyrir ef þær eru svo lánsamar að njóta aðhlynningar fagfólks fyrir sig og barnið sitt!

Reynir sagði...

Brynjólfur,
Eigum við ekki frekar að hætta þrasi og fara hugsa um það sem skiptir máli.
Það eina sem ég get sagt er að líklega leiðist mörgum börnum í skólanum.
Maður sjálfur var stundum ekkert alltof líklegur til að fara í kirkju eða starf tengdu því. Aftur á móti að fullorðið fólk reynir beinlínis að koma í veg fyrir að börn verði fyrir áhrifum af trúnni, á meðan endalaus ósómi, og alls kyns gylliboð hafa áhrif á þau. Kirkjan hefur ekki margan vettvang til að hafa áhrif á, eða kynna trúnna en skólann. Það er bara eðli starfsins, sem er hógvært, og öfgalaust.
Þrátt fyrir það, tel ég að þó að starfið yrði meira, þá myndi það ekki með nokkru móti skaða neinn.
Reyndar tel ég sem skattgreiðandi að kristinn trú ætti að vera rætt meira í skólanum, og siðferði almennt.
En við erum fullorðin og vitum auðvitað að, þrátt fyrir digurbarkalegar lýsingar andstæðinga kirkjunnar, þá snýst þetta ekkert um siðferðisumræður.
Heyrðu ég er með hugmynd. Hættum bara að senda þau í skólann.
Ég gæti talið upp fullt af málefnum sem kennd eru í skólanum, og fullt af málefnum, sem ríkið styður og bekennir sem eru í hróplegu ósamræmi við skoðannir mínir.
Þú hefur þó val. Þú getur sagt þig úr trúfélagi. Ég get ekki sagt mig úr ríkinu.
Síðan þegar ríkið beinlínis heftir þá trú sem hefur fylgt okkur Íslendingum í gegnum aldirnar, og engin vafi er á að hefur mótað siðferði okkar mjög mikið, þá er sú aðför réttlætt, vegna þess að það "særir" tilfinningar einhverra foreldra??.......uuuhhhmmm

Nafnlaus sagði...

Fyrir alla þá sem finnst alveg hræðilegt að vernda skuli minnihlutann fyrir meirihlutanum: er semsagt allt í lagi að meirihluti kvenna í Sádi-Arabíu verði fyrir miklu heimilisofbeldi og frelsissviptingu, því þetta er jú meirihlutinn þú veist? Þá er þetta í lagi því minnihlutinn á ekkert að hafa um þetta að segja.

Þetta er svo barnaleg og þröngsýn hugsun að mér blöskrar heimska ykkar.

Nauðgun er algeng á Íslandi. Er hún þá í lagi?

Atvinnuleysi er algengt núna á Íslandi. Þá er það bara allt í lagi og ætti bara að viðgangast og ríkisstjórnin ætti ekkert að viðhafast í því.

Það eru alveg örugglega fleiri Pólverjar en Danir á Íslandi. Þessvegna ættum við að kenna pólsku í grunnskólum frekar en dönsku.

Sjáiði hvert ég er að fara? Þótt þetta séu allt ýktari dæmi, þá er þetta nákvæmlega það sama og hér er verið að tala um. Við ættum að fjarlægja trúboð í skólum vegna þess að trú hefur ekkert að gera í menntastofnanir. Það eru engar haldbærar staðreyndir í trúmálum, og skóli höndlar staðreyndir, ekki eitthvað spírítjúal bull.

Þetta er gott verk sem verið er að vinna sem mun verða til góðs. Það er ekki verið að banna svínakjöt eða skartgripi sem bera trúmerki. Það er verið að gera menntastofnanir að því sem þær eru: staður til að læra um staðreyndir og hvernig skal nýta sér þær.

Allt bull úr skólum!

Sigurður Rósant sagði...

Þetta er lítið hænuskref í rétta átt, en kemur ekki í veg fyrir áframhaldandi kristniboð í skólum. Börn sérsinnaðra foreldra verða eftir sem áður þvinguð til að yfirgefa kennslustundir, fá ekki að taka þátt í afmælum bekkjarfélaga sinna, mega ekki borða pylsur sem 'hugsanlega' innihalda svínakjöt, mega ekki neyta nestis í Ramadan mánuði og þannig mætti lengi telja.
Börn koma ekki til með að njóta sömu mannréttinda fyrr en foreldrum þeirra er meinað um þau mannréttindi að mega þvinga börn sín til hegðunar eftir eigin trú eða lífsskoðun. Öll börn ættu að eiga rétt á því að losna undan þessu ægivaldi foreldra sinna á opinberum uppeldisstofnunum sem reknar eru eða styrktar af ríki eða sveitarfélögum.

Unknown sagði...

Ég hef efasemdir um réttmæti þess að kenna fótbolta í leikfimi í skólum.
Aldrei var það borið undir mig sem foreldri hvort að ég væri samþykk því að börnin mín lærðu fótbolta í skóla.
Ef við lítum á fótboltaiðkun að þá er töluvert um það að börn meiði sig í þessari óhollu "íþrótt" svo er það ekkert eðlilegt hversu mikill "átrúnaður" á sér stað í fótbolta. Börn eru jafnvel látin klæðast búningum Liverpool eða Manchester United frá frumbernsku og alin upp í því að eitt lið sé betra en annað. Og hvaða áhrif hefur það á ómótaðar barnsálir að vera í skóla í vesturbænum þar sem þekkt er áreitni svokallaðra KR-inga? Hugsið ykkur barn sem bjó fyrstu skólaárin sín í árbænum sem er Fylkishverfi, og flytur í síðan í vesturbæ Reykjavíkur. Þetta barn gæti þurft að klæðast leikfimifatnaði merkt Fylki í KR-ingaskóla.
Er ekki komin tími á raunveruleg mannréttindi barna í skólum? Bönnum fótboltaiðkun í skólum!

Nafnlaus sagði...

Þakka þér innilega fyrir þessa góðu grein. Þú svarar í henni mörgum spurningum á mjög jákvæðan og skemmtilegan þátt.
Láttu ofstækið ekki hafa of mikil áhrif á þig í baráttu þinni fyrir skóla án aðgreiningar.
Fylgist spennt með þessu máli og vona að önnur sveitarfélög taki þessar tillögur mannréttindaráðs sér til fyrirmyndar.
Kær kveðja úr Hafnarfirði,
Guðbjörg

Asta Norrman sagði...

Mikið er ég fegin að mannréttindaráð er að taka á þessum málum núna. 2005-2007 bjó ég á Íslandi með 3 börn í skóla. Ástæðan fyrir því að ég flutt út aftur var að mestu leyti skólinn. Ég hafði áður haft yngsu stelpuna mína í litlum sveitaskóla í Svíþjóð. Þar voru skólaslitin, bæði um jól og vor, höfð í kirkjunni. Fyrstu jólin fór því öll fjölskyldan á skólaslitin í kirkjunni. Stóru stelpurnar höfðu gengið í stærri skóla þar sem skólslitin voru mjög hátiðleg. Krakkarnir komu fram með söng og hljóðfæraleik skólstjórinn hlet ræðu og þetta var gaman. Þessi skólslit voru allt önnur. Að vísu hélt skólastjórinn ræðu, en presturinn sá um restina og eru þetta sú furðulegustu skólaslti sem við höfum verið viðstödd. Okkur leið öllum furðulega þarna. Presturinn talaði til okkar allra eins og við værum öll kristin og tryðum á yfirnáttúrulega hluti. Við vildum ekki vera sett í þann hóp, en sátum stillt og hlustuðum. Við höfðum ekki áhuga á að taka þátt í svona rugli x2 á ári í 9 ár, svo ég hringdi því lögfræðing bæjarfélagsins og spurði hvernig þessi starfsemi stæðist lög um trúfrelsi í grunnskóla og stjórnarskrálögin. Hann hugsaði í 3 mánuði og síðan var ákveðið að skólaslit eða önnur starfsemi skólans, færu fram án kirkjulegs starfs.

Stelpurnar mínar byrjuðu svo í Oddeyrarskóla á Akureyri haustið 2006. Sú elsta í 10 bekk, en þar var allur bekkurinn með í hjálpræðishernum, svo dóttir mín ákvað að sitja af sér þetta síðasta ár í grunnskóla, en ekki er hægt að segja að hún hafi átt auðvelt, sem sennilega eini trúleysinginn í hópnum. Sú sem fór í 9 bekk, hafði svo góðan kennara að þar voru allir velkomnir. Ekki veit ég hvers vegna hjálpræðisherinn hafi ekki náð tangarhaldi á þeim árgangi. Kannske góðum kennara að þakka og krökkunum kennt að líta gagnrýnum augum að hlutina og gleypa ekki öllu sem heilögum sannleika. Sú yngsta lennti þó mjög illa í því og tók það nokkur ár fyrri hana að jafna sig eftir Íslandsdvölina. Hún var bara 7 ára þegar hún þurfti að standa í rökræðum við kennara og alla nemendur bekkjarins um að heimurinn hafi ekki verið skapaður á 6 dögum. Hún reyndi að fræða þau um "big bang" en var talin vond manneskja því hún trúði ekki á guð. Sumir krakkanna héldu að við værum svo illa að okkur í Svíþjóð að við vissum ekki að guð stjórnaði þessu öllu. Kennarinn var ekki að leiðrétta þennan misskilning og nota tækifærið til að kynna fyrir börnunum mismunandi siðvenjur og lífssýn. Við fórum frá Akureyri með þá tilfinningu að hafa sloppið úr því sem kristnir trúa á og kallast helvíti.

Asta Norrman sagði...

Mikið er ég fegin að mannréttindaráð er að taka á þessum málum núna. 2005-2007 bjó ég á Íslandi með 3 börn í skóla. Ástæðan fyrir því að ég flutt út aftur var að mestu leyti skólinn. Ég hafði áður haft yngsu stelpuna mína í litlum sveitaskóla í Svíþjóð. Þar voru skólaslitin, bæði um jól og vor, höfð í kirkjunni. Fyrstu jólin fór því öll fjölskyldan á skólaslitin í kirkjunni. Stóru stelpurnar höfðu gengið í stærri skóla þar sem skólslitin voru mjög hátiðleg. Krakkarnir komu fram með söng og hljóðfæraleik skólstjórinn hlet ræðu og þetta var gaman. Þessi skólslit voru allt önnur. Að vísu hélt skólastjórinn ræðu, en presturinn sá um restina og eru þetta sú furðulegustu skólaslti sem við höfum verið viðstödd. Okkur leið öllum furðulega þarna. Presturinn talaði til okkar allra eins og við værum öll kristin og tryðum á yfirnáttúrulega hluti. Við vildum ekki vera sett í þann hóp, en sátum stillt og hlustuðum. Við höfðum ekki áhuga á að taka þátt í svona rugli x2 á ári í 9 ár, svo ég hringdi því lögfræðing bæjarfélagsins og spurði hvernig þessi starfsemi stæðist lög um trúfrelsi í grunnskóla og stjórnarskrálögin. Hann hugsaði í 3 mánuði og síðan var ákveðið að skólaslit eða önnur starfsemi skólans, færu fram án kirkjulegs starfs.

Stelpurnar mínar byrjuðu svo í Oddeyrarskóla á Akureyri haustið 2006. Sú elsta í 10 bekk, en þar var allur bekkurinn með í hjálpræðishernum, svo dóttir mín ákvað að sitja af sér þetta síðasta ár í grunnskóla, en ekki er hægt að segja að hún hafi átt auðvelt, sem sennilega eini trúleysinginn í hópnum. Sú sem fór í 9 bekk, hafði svo góðan kennara að þar voru allir velkomnir. Ekki veit ég hvers vegna hjálpræðisherinn hafi ekki náð tangarhaldi á þeim árgangi. Kannske góðum kennara að þakka og krökkunum kennt að líta gagnrýnum augum að hlutina og gleypa ekki öllu sem heilögum sannleika. Sú yngsta lennti þó mjög illa í því og tók það nokkur ár fyrri hana að jafna sig eftir Íslandsdvölina. Hún var bara 7 ára þegar hún þurfti að standa í rökræðum við kennara og alla nemendur bekkjarins um að heimurinn hafi ekki verið skapaður á 6 dögum. Hún reyndi að fræða þau um "big bang" en var talin vond manneskja því hún trúði ekki á guð. Sumir krakkanna héldu að við værum svo illa að okkur í Svíþjóð að við vissum ekki að guð stjórnaði þessu öllu. Kennarinn var ekki að leiðrétta þennan misskilning og nota tækifærið til að kynna fyrir börnunum mismunandi siðvenjur og lífssýn. Við fórum frá Akureyri með þá tilfinningu að hafa sloppið úr því sem kristnir trúa á og kallast helvíti.

Asta Norrman sagði...

Framhald:
Við ákváðum að reyna stór Reykjavíkursvæðið í von um að víðsýnin væri meiri þar sem fólksfjöldinn er meiri. Sú litla byrjaði í Lækjarskóla haustið 2006. Ég átti langt samtal við kennara hennar, og skýrði út fyrir henni hvernig stelpunni hafi liðið á Akureyri. Þá kom í ljós að þessi nýji kennari var kristin og treysti sér ekki til að kenna trúarbragaðarfræði án þess að vera með trúboð og var því ákveðið að stelpan fengi aukatíma í íslensku í staðinn.
Rétt fyrir jól, kom svo skrif frá skólanum um að nú ættu allir krakkarnir að fara í kirkju og fá þar smákökur og gos. Ég hringdi í skólann og fékk að vita að dóttir mín mundi nota tíman á bókasafninu, en ekkert minnst á að hún fengi þar smákökur og gos. Þegar ég reyndi að skýra út fyrir þessu sérmenntaða fólki í uppeldis- og kennslufræðum, hvaða afleiðingar það hefði að taka krakkan út úr hópnum og gera hana "öðruvísi", mætti ég engum skilningi. Ég sagðist mundi halda stelpunni heima þennan dag, því skólinn væri auðsýnilega ekki hæfur til að standa undir þeim skyldum sem hann hefði. Það gleymist nefnilega oft að það eru ekki bara krakkarnir sem eru skyldug til að mæta í skólann, heldur er skólinn einnig skyldugur til að veita þeim kennslu.
Ég var svo saklaus að ég hélt að ég hefði sömu réttindi sem foreldri á Íslandi og ég hafði í Svíþjóð og gæti ráðið sjálf í hvaða lífssýn ég eldi börnin min upp í. Ég vil heldur ekki að stelpurnar mínar alist upp við að halda kjafti því það sé þægilegast. Ef þær verða varar við óréttlæti, vil ég að þær standi upp og segi frá. Ég vil að þær alsit upp sem sjálfstæðar konur sem eru ekki hræddar við að segja hvað þeim finnst. Ég gerði mér samt grein fyrir að þetta var of erfitt fyrir litlu stelpuna mína, svo eftir eitt ár í Hafnarfirði, ákváðum við að fara út aftur.
Auðvitað finnst mér það leiðinlegt að stelpurnar mínar hafa slæmar tilfinningar til föðurlands míns, en ég skil þær. Umhverfið í íslenskum skólum er ekki bjóðandi sjálfstætt hugsandi börnum. Skólastjórnendur hlusta hvorki á rök né taka tillit til lagatextans.

Guðrún Vaka sagði...

Í sambandi við umræðu um jólin. Gott og blessað að jólin séu eða hafi verið trúarleg hátíð í öðrum trúarbrögðum en ... skv. jafnræðisreglunni og kröfunni um algjöran aðskilnað trúarbragða frá skólastarfi er mikill tvískinnungur fólginn í því að ætla að halda jólin áfram án innihalds. Jólin eru trúarleg hátíð (alveg sama hvaða trúarbragða þótt Kristni sé í dag efst á lista) og ef fjarlægja á trúarbrögð úr skólum ætti skv. sömu kröfu að fjarlægja jólin úr skólanum líka. Og ef út í það er farið, ef aðskilja á ríki og kirkju ætti að afskrifa alla frídaga sem tengjast jólum, páskum osfrv. því það samræmist ekki lengur reglunum og kröfum fólks að ríkið standi fyrir trúarlegum frídögum. Nema kannski að alls jafnræðis verði gætt og öllum trúarbrögðum heimsins gert jafn hátt undir höfði, hvernig yrði það? Fleiri frídagar fyrir alla er kannski bara hið besta mál.

Ég get alveg tekið undir með þeim sem þykir trúboð í skólum óeðlilegt en mega börnin þá aldrei hitta prest afþví að foreldrar þeirra eru ekki kristinnar trúar?
Alla mína skólagöngu (og ég fór í Kristinfræði meira að segja) hef ég aldrei heyrt neinn prest segja að ég ætti að mæta í kirkju og vera kristin, þeir eyddu allir tímanum í að segja okkur dæmisögur sem líklega hafa meira með siðfræði að gera. Ég var aldrei neydd til að mæta í messur eða kirkju og ég tel að það sé alveg hægt að fara gullinn milliveg í þessum málum.

Kristin trú er samofin þessu samfélagi og sögu landsins, það er ekki hægt að afskrifa það með einu pennastriki.
Ég get tekið undir það að beint trúboð eigi ekki að fara fram í skólum en ég hafna alfarið innihaldslausum jólum og páskum.

Hafdís gítareigandi sagði...

Mjög mjög góð grein! Ég skil ekki að sumu fólki finnist þessar tillögur of róttækar, þetta finnast mér mjög hóflegar tillögur og góðar.

"Eftirfarandi þurfa þeir að hafa í huga sem vilja áfram að prestar séu með trúboð í skólum landsins. Mannréttindi ganga út á það að meirihlutinn troði ekki á minnihlutahópum í krafti stærðar sinnar." Frábært komment, algjörlega sammála Val B.!

BbulgroZ sagði...

vel gert!

BbulgroZ sagði...

Vel gert!

Nafnlaus sagði...

Flott hjá ykkur Oddný. Við skulum ekki láta kristna komast upp með að hefta eðlilega framþróun enn eina ferðina. Mér sýnist þeirra málflutningur vera að mestu orðagjálfur án innihalds eins og þeim einum er lagið, þannig að ekki láta undan rökþrota vælinu í þeim.

Kveðja

Nafnlaus sagði...

Það er svo merkilegt... að ef fólk gefur sig út fyrir að vera kristið... þá er eins og það sé eitthvað sem fólk eigi að skammast sín fyrir.
Það er allt í lagi að halda páska, jól og hvítasunnu - en um leið og einhver segir að hann sé kristinn, þá er hann litinn hornauga...eins og hann sé eitthvað skrýtinn.
Finnst engum þetta skrýtið ?
Innst inni eru flestir Íslendingar kristnir, hvort sem þeir mæti í kirkju einu sinni á ári, eða hvern sunnudag. Flestir eiga sína barnatrú frá því þeir voru börn, lærðu Faðir vorið og mættu í sunnudagaskóla. Það var ekkert trúboð í skólanum, sem ég man eftir - nema að einhverju litlu leiti. Fermingarfræðslan kom eitthvað inn á skólatímann. Ég er svona typpikal Íslendingur, sem mæti í kirkju þegar vinir gifta sig, börn eru skýrð og ef einhver fellur frá og stundum á jólum. En í fljótu bragði, þá sé ég ekki það slæma í þessu. Þau börn sem hafa enga trú, eða aðra trú - geta alltaf verið undanþegin Kristinfræði og öðru sem tengist Kristni.
Ég man eftir einni stelpu, jafngamalli mér, sem var Votti Jehova og hún mætti aldrei í Krisinfræði. Og ég minnist þess ekki að henni hafi liðið illa yfir því. Ég er einhvernveginn ekki að sjá hvað kirkjan er að gera rangt.
Kirkjan hefur eingöngu verið að bjóða gott samstarf sitt við skólana og ég sé ekki neitt athugavert við það.
Börnin mín voru á leikskóla í Reykjavík, og einu sinni á viku kom í heimsókn guðfræðinemi, sem var með brúðu og ræddi við þau um allt milli himins og jarðar - með góðum boðskap.
Börnunum hlakkaði alltaf til þeirra daga, þegar vitað var að hann myndi koma í heimsókn.
Ég minnist þess ekki að foreldrar hafi kvartað!
Ég man eftir því þegar svínakjöt var tekið af matseðlinum í einum skóla hérna í borginn vegna einnar kvörtunar.
Þetta er náttúrulega óþolandi.
Minnihlutahópum í skólum landsins, stendur alltaf til boða að fá annan mat í stað t.d. svínakjöts, og þeim býðst líka að sleppa Kristinfræði. Leyfum meirihlutanum að ganga fyrir... það er ömurlegt að láta fáar háværar raddir stjórna ferðinni !

Nafnlaus sagði...

Guðrún sem skrifar, kl. 19:17 þann 19. október er ekkert að láta staðreyndir þvælast fyrir sér.

Það voru aldrei neinar "Samfylkingarkonur" að berjast fyrir því að börn yrðu ekki klædd í bleikt og blátt á fæðingardeildum, eins og Guðrún heldur fram.

Það var nákvæmlega ein þingkona vinstri grænna, Kolbrún Halldórsdóttir, sem lagði fram eina saklausa fyrirspurn árið 2007 til þáverandi heilbrigðisráðherra, varðandi það hvernig sú hefð hefði mótast að stúlkubörn væru klæddar í bleikt og drengir í blátt á fæðingardeildum. Meira var það ekki, en grunnhyggið bloggarasamfélagið missti sig í heilagri vandlætingu líkt og hluti þess gerir nú.

Kannski er þetta dæmi um þá óöguðu hugsun og jafnvel heimsku sem gagnrýnislaus trúarinnræting skilur eftir hjá fólki?

Halldór Benediktsson sagði...

Guðrún Vaka, fyrir mér eru jólin ekki trúarleg og hafa ekki verið í langan tíma. Þau eru trúarleg fyrir marga, þar með talið móður mína, og setur hún ýmsar helgimyndir og föndur um íbúðina sína af því tilefni. Ég sé ekkert trúarlegt við það að hafa skraut, jólatré, gefa gjafir, borða góðan mat með vinum og fjölskyldu og fleira sem einkennir jólin. En skil vel að þessi tími sé mjög trúarlegur fyrir suma.
Eins og margir foreldrar segja söguna, þá er ágangur presta í grunnskóla landsins allt öðru vísi og meiri en það var fyrir 20-30 árum, þannig að þín reynsla á líklega ekki við.
Það er enginn að afskrifa kristna trú eða tengingu þess við samfélagið, bara skerpa á hlutverki skóla og kirkna, þetta snýst ekki bara um mannréttindi heldur staðreyndir, trúarbrögð hafa ávallt verið í órannsakanlega og ósannanlega flokknum og eiga því ekki heima í skólum.

Guðrún sagði...

Steinunn Valdís Samfylkingarkona og fyrrum borgarstjóri var nú heldur betur herská í sinni baráttu fyrir því að börn væru ekki klædd í bleik eða blá föt.
Oddný Sturludóttir og félagar eru við völd á þeim örlagaríkustu tímum sem að þjóðin hefur gengið í gegn um. Ætlar hún að eyða sinni orku og þeim dýrmæta tíma sem henni hefur verið skammtaður til að hafa áhrif, í tómt bull? Ég man þá tíma þegar að helstu framkonur þjóðarinnar sátu og töluðu um píkuna á sér í Borgarleikhúsinu í svokölluðu píkusögum. Ég er búin að fá yfir mig nóg af þessum konum! Þær hafa orðið allri kvennréttindabaráttu sem og jafnréttisbaráttu til skammar!!!!

Finnur Torfi Gunnarsson sagði...

Góð grein Oddný og virkilega vel að verki staðið.

Nafnlaus sagði...

Þess vegna er trúboð gagnvart börnum svo slæmt. Það er ekki verið að tala við einstaklinga sem þekkja heiminn og geta sagt "Nei ég trúi þessu ekki af því að.....".

Þess vegna er ég ánægð með þessar tillögur Mannréttindaráðs. Ef fólk vill ala börnin sín upp í Kristni að þá getur fólk gert það utan skólans.

Nafnlaus sagði...

Alltaf sama fólkið sem eltir vefsíður og fagnar þessu, vantrúarlið og hvaðan af verra.... til hamingju með það Oddný að vera orðin átrúnaðargoð öfgahópa....... og til hamingju samfylking, nú fóru mörg atkvæði fjandans til

Nafnlaus sagði...

Sem foreldri bið ég bara auðmjúklega um eitt: Að börnin mín fái notið þjónustu leikskóla og grunnskóla án þess að boðunarstarf trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga blandist inn í skólastarf þeirra. Ég þarf ekki að verja þessa afstöðu mína frekar en trúaðir trú sína. Ég fer ekki fram á aðgang að börnum annarra á skólatíma þeirra til að boða þeim eitt eða neitt og æski aðeins þess sama af öðrum gagnvart mínum börnum.
Er þetta nokkuð flókið að skilja eða tilefni til háværra deilna?
Sýnið mér, mínum börnum og lífsskoðunum þá virðingu og tillitssemi sem ég sýni öðrum.
Ef mannréttindi mín og barna minna til frelsis í lífsskoðunum stangast á við meintan rétt einhverra skipulagðra trú- eða lífsskoðunarfélaga til að stunda boðunarstarf sitt gagnvart börnum mínum á skólatíma þeirra spyr ég í allri einlægni hvort er rétthærra?
Öll þessi félög og stofnanir geta opnað arma sína fyrir börnum og fullorðnum hvenær sem er utan skólatíma og boðið upp á starf að vild. Börnin mín verða hins vegar að vera í sínum leik- og grunnskólum þessar klukkustundir á dag.
Arnar

Nafnlaus sagði...

Þjóðin getur ekki beðið eftir að henda ykkur kommúnistum út úr Ríkisstjórn og Borgarstjórn.

Nafnlaus sagði...

Bravó, ekkert " Jesus Camp" á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Bravó, engan " Jesus Camp " á Íslandi.

Guðrún sagði...

Í málflutningi ykkar í nefndinni, kemur fram að fermingarfræðsla hafi truflað skólastarf í tvo daga. Hafið þið reiknað út hversu mikið íþróttastarf truflar skólastarf? Börn og unlingar sem taka virkan þátt í íþróttum þurfa þeirra vegna iðjulega að fá frí úr skólanum nokkra daga yfir veturinn til þess að taka þátt í íþróttamótum. Er það stefna ykkar að koma í veg fyrir íþróttamót á skólatíma?

Nafnlaus sagði...

Góð grein og er henni sammála.

Það er hægt að láta börn trúa hverju sem er. Hægt að ljúga að þeim tómri vitleysu og þau trúa því eins og heilögum sannleika, afþví að: fullorðinn segir það, heyra það í skólanum eða þá prestur segir það.

Ekki skrítið að kirkjan berjist svona gegn þessu. Þau vilja innræta þessari trúarvitleysu í börnin áður en þau verða nógu gömul til að sjá í gegnum þetta.

Vona að þetta gangi í gegn.

Bestu kveðjur