Það var sannarlega gleðiefni að sjá að stærstur hluti nýrra Íslendinga sem þreyttu íslenskupróf í aðdraganda að umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hafi náð prófinu. En ef það er rétt sem Ingibjörg Hafstað segir, að meirihluti þeirra sem ekki náðu prófinu eigi það sameiginlegt að móðurmál þeirra er af tónamálsstofni, þá þarfnast það frekari skoðunar. Eins þarf að skoða hvort aðgengi þeirra sem hafa litla formlega menntun, og eru jafnvel ekki vel læsir á okkar stafróf, er nægilega gott að prófinu. Annars er hætta á því að fólki sé mismunað á ómálefnalegan hátt.
Eftir áralanga baráttu rofar til í þjónustu við lesblinda á Íslandi, þeir fá próf lesin upp fyrir sig, nýta sér hljóðbækur, fá lengri tíma til próftöku og svona mætti lengi telja. Sjálfsagt réttlætismál - þó enn sé langt í land að fólk með alvarlega lesröskun fái notið sannmælis að öllu leyti í skólakerfinu.
Jafn sjálfsagt er að skapa þeim nýju Íslendingum sem þreyta íslenskupróf þau skilyrði að þeir fái tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.
13 júlí 2009
Tækifæri nýrra ríkisborgara
02 júlí 2009
Draumur um barn
Nú um stundir bíða ótal margar konur og karlar eftir því að ættleiða börn frá öðrum löndum. Mikill gangur hefur verið í starfsemi Íslenskrar ættleiðingar síðustu ár, sérstaklega með tilkomu samnings við kínversk stjórnvöld en nú virðast málin vera komin í alvarlegan hnút. Svo alvarleg er staðan að fjöldi para sem beðið hafa í mörg ár eftir barni er nú að falla á tíma. Það er með öllu óásættanlegt að hafa af fólki drauminn um að ala upp barn og slíkt á ekki að líðast. Í þessari stöðu er fólk sem hefur þegar undirgengist forsamþykki um að þeir verði góðir foreldrar fyrir barn úti í heimi sem bíður betra lífs. Með einfaldri breytingu á reglugerð frá árinu 2004 getur Alþingi gert verðandi foreldrum kleift að leita til fleiri ættleiðingarfélaga en þessa eina félags sem haft hefur yfirumsjón með ættleiðingum á Íslandi síðustu ár. Þó leiti umsækjendur ávallt eftir forsamþykki hjá íslenskum yfirvöldum svo að ströngustu skilyrði séu uppfyllt.
Með reglugerðarbreytingunni kæmist skriður á málin og biðtíminn styttist. Gerum ekki að engu drauma landa okkar sem þrá að fóstra munaðarlaust barn. Sameinumst um það mikla réttlætismál að Íslendingar geti ættleitt börn frá öðrum löndum - áður en það verður um seinan.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.