Einn af skemmtilegustu föstu liðum í Fréttablaðinu er rökstólaparið. Rökstólapar vikunnar er hin beitta og launfyndna Lára Björg og Bragi Ólafsson. Ég má til með að benda á það sem þau hafa að segja um golfvallarútspil Hönnu Birnu í tengslum við umræðuna um listamannalaun og stöðu foreldra barna með sérþarfir.
Hvað finnst ykkur um golfvöllinn sem Reykjavíkurborg ætlar að setja 230 milljónir í?
Lára: Ég tek þessum 230 milljónum mjög persónulega. Sem móðir barns með sérþarfir finnst mér þetta út í hött. Maður reynir að sýna skilning á endalausum niðurskurði, ég sit á fundum með kennurum og þroskaþjálfum og þar er stöðugt verið að minna á niðurskurðinn. Maður kinkar kolli og sýnir skilning. Síðan kemur frétt um að borgin ætli á sama tíma að eyða 230 milljónum í golfvöll. Ég verð sár og móðguð fyrir hönd sonar míns og barnanna okkar allra. Ég skammast mín fyrir að vera fullorðin og þætti réttast að leyfa börnunum okkar að ráðstafa þessu fé í staðinn.
Bragi: Í fyrsta lagi kemur þetta mér svo sem ekkert á óvart. Ég hef ekki mikið álit á þessari borgarstjórn, meðal annars vegna þess hvernig hún komst til valda, sem allir virðast búnir að gleyma. En það sem mér datt fyrst í hug var hin árlega, og sérkennilega umræða um listamannalaun, sem kemur náttúrulega aðallega úr einni átt. Þar er um að ræða svipaða upphæð og á að eyða þarna í grasvöll og nokkrar holur.
Lára: Svo eru þeir atvinnulausu hafðir að fíflum þegar þeir eru dregnir inn í þessa umræðu. Að þeir eigi svo bágt en geti nú glaðst yfir því að geta farið að spila golf. Það er algjör rökleysa.
10 apríl 2010
Rökstólaparið um golfvöllinn
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)