13 maí 2009

tannheilsa

Þær eru óhugnanlegar fréttirnar af hnignandi tannheilsu íslenskra barna og ungmenna. Ef kostnaðarþátttaka foreldra hefur verið svo mikill þrándur í götu undanfarin ár þá er von að áhyggjur kvikni af framhaldinu, nú þegar margar fjölskyldur eiga og munu eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.

Leik- og grunnskólar eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins og gegna þeirri sérstöðu að allir íbúar landsins fara þar í gegn á ákveðnum aldri. Því eru skólarnir sterkasta jöfnunartæki sem við búum yfir og þar er hægt að skima, kanna, sinna forvörnum, fræða og byrgja brunna. Í þeim anda lagði ég eftirfarandi tillögu fram í leikskólaráði í dag:

Leikskólaráð samþykki að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu leikskólabarna í Reykjavík. Sviðsstjóri Leikskólasviðs skoði hvernig leikskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum skólabörnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:

1) Hvernig markmiðum lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja leikskólans.

2) Hvernig starfsfólk leikskóla geti gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skipulagi skóladagsins, jafnvel með reglulegri tannburstun eins og þegar hefur verið komið á í nokkrum leikskólum borgarinnar með frábærum árangri.

3) Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan leikskólans.

4) Hvaða ferlar eru virkir innan veggja leikskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og hvernig samstarfi við barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.

Sambærileg tillaga var lögð fram í menntaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.