17 desember 2009

Stjórnir fyrirtækja borgarinnar

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi skrifaði athyglisverða grein um stjórnkerfi borgarinnar síðastliðinn mánudag. Hún kemur inn á hversu erfitt fámenn borgarstjórn á með að sinna sínum hlutverkum og virðist helsta vandamálið vera að borgarfulltrúar bítast um sæti í nefndum og stjórnum með fégræðgina eina að leiðarljósi. Þetta kannast ég reyndar ekki við en hef núna öðlast dýrmæta innsýn í þankagang borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þau skilja ekki stjórnkerfisbreytingar síðasta kjörtímabils því þau nálgast breytingar nær eingöngu út frá launa- og starfsumhverfi borgarfulltrúa. Hið rétta er að stjórnkerfisbreytingarnar snérust um aukið lýðræði, nærþjónustu við íbúa úti í hverfum og minni miðstýringu.

Þorbjörg Helga víkur einnig að fyrirkomulagi í stjórnum fyrirtækja borgarinnar. Hér vil ég skoða málið í víðara samhengi og spyrja hvort eðlilegt sé að borgarfulltrúar sitji yfirleitt í stjórnum fyrirtækja? Það er andstætt nútímalegum stjórnarháttum í fyrirtækjum að sama fólk sinni bæði hlutverki stjórnarmanna og eigenda, borgarfulltrúar ættu að einbeita sér að því síðarnefnda. Í ofanálag er um starfandi stjórnmálamenn að ræða og það er ekkert launungarmál að t.d. Orkuveita Reykjavíkur hefur liðið fyrir það allt of lengi að stjórnmálamenn noti hana sem vígvöll í pólitískum slag. Trúnaðarbrestur og átök á opinberum vettvangi eru algeng. Það er varla til hagsbóta fyrir fyrirtækið. Borgarfulltrúar eru kjörnir fulltrúar íbúanna sem eiga jarðvarmann og vatnsbólin. Borgarfulltrúar eru því eins og hluthafar í fyrirtæki og koma að grundvallarstefnumótun fyrirtækisins; móta t.d. græna stefnu og fjárfestingarstefnu. Það gætu þeir hæglega gert í sérstöku orku- og auðlindaráði, sem hefði sama sess og önnur fagráð borgarinnar. Í stjórn fyrirtækisins eiga hins vegar að sitja einstaklingar með víðtæka þekkingu og reynslu, skipaðir af stjórnmálaflokkum til að ábyrgð þeirra sé skýr. Slíkt fyrirkomulag var viðhaft í 100 daga meirihlutanum með góðum árangri.

Samfylkingin hefur ávallt staðið fyrir lýðræðislegum og gagnsæjum stjórnarháttum og að stjórnun fyrirtækja sé fagleg og hagsmunaárekstrar sem fæstir. Það er því tímabært að Samfylkingin í Reykjavík fylgi í orði eftir lýðræðislegum stjórnkerfisbreytingum síðasta kjörtímabils. Þar eru fyrirtæki borgarinnar ekki undanskilin.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. desember 2009

p.s. Ég fékk skömm í hattinn frá Ólafi Mathiesen um daginn fyrir að safna ekki greinarkornum mínum á einn stað, t.d. á bloggsíðu. Ég bæti hér með úr því - vænn skammtur frá september til dagsins í dag.

List- og menningaruppeldi

Á árinu 2007 var fræjum sáð sem nú hafa borið merkilegan ávöxt. Fyrir frumkvæði Samfylkingar og VG í borgarstjórn voru tveir starfshópar settir á laggirnar sem báðum var ætlað að grandskoða hvernig efla mætti list- og menningaruppeldi í leik- og grunnskólum borgarinnar. Margar góðar tillögur eru afrakstur vinnunnar auk mikilvægrar upplýsingasöfnunar um stöðu listgreinakennslu og menningaruppeldis í skólum borgarinnar. Eins fór fram mikilvæg úttekt á samstarfi skóla við menningarstofnanir, kröftug umræða átti sér stað milli Mennta- og Leikskólasviðs og listgreinakennara, forstöðumanna menningarstofnanna og fulltrúa lista- og menningarlífsins. Nú þegar er hafið spennandi tilraunaverkefni um menningartengilið milli skólasviðanna og menningar- og ferðamálasviðs sem miklar vonir eru bundnar við. Fjölmargar aðrar tillögur liggja fyrir og bíða þess að komast til framkvæmda og vonandi verður þess ekki langt að bíða.

Menning geymir sjálfsmynd þjóðar. Seint verður ítrekað nægilega mikilvægi þess að börn og ungmenni fái ríkuleg tækifæri til að kynnast menningu og listum. Það eflir sjálfstraust þeirra og skilning, víkkar sjóndeildarhringinn og reynir á ólíka hæfileika þeirra. Nú þegar öllum skólum er gert að hagræða sem kostur er brýnt að hafa í höndunum vandaða úttekt á stöðu list- og menningaruppeldis í skólum. Við vitum nú hvað vel er gert, hvar við getum gert betur og hvað við viljum standa vörð um. Á Þjóðfundi Íslendinga kom fram eindreginn vilji þjóðarinnar til að efla menntun og menningu. Því ber að fagna. Nú gefst dýrmætt tækifæri til að endurskoða áherslur skólakerfisins og undirstrika gildi menningarinnar í menntun barna og unglinga. Samræmdar mælingar á bóklegum fögum eru mikilvægar en segja einungis hálfa söguna. Unga kynslóðin er skapandi. Ábyrgð okkar sem förum með stefnumótun er að styðja við skapandi skólasamfélag, fjölbreytt nám og námsmat. Það er skóli framtíðarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. nóvember 2009

Samfélagið og skólinn

Gæði skólastarfs er mælikvarði á gæði samfélags. Gott samfélag býr yfir góðum skólum. Skólum þar sem börn fá notið sinna styrkleika, þar sem þeim líður vel og ná færni og árangri í námi sínu. Skólum þar sem börn og unglingar þroska félagslega hæfileika sína og efla með sér lýðræðilega og gagnrýna hugsun. En skólinn er aldrei eyland og börn mótast ekki nema að litlu leyti í skólastofum. Skólinn er ávallt spegilmynd samfélagsins.

Í alþjóðlegum samanburði koma íslenskir grunnskólanemendur bæði vel og illa út. Við megum vera stolt af því hvað nemendum líður vel og hvað þeir telja umsjónarkennarann sinn sinna sér vel, það má lesa úr niðurstöðum PISA. En árangur fer þverrandi í mörgum fögum, m.a. lestri og náttúruvísindum. Það er verulegt áhyggjuefni. Stærsta áskorunin í stefnumótun menntamála er áhugaleysi nemenda en niðurstöður rannsókna segja okkur að mörgum íslenskum börnum leiðist í skólanum. Sýnt hefur verið fram á að áhugi ungra drengja á skólanámi dalar mjög mikið á fyrstu árum skólagöngunnar og mun meira en hjá drengjum í öðrum löndum.

Hvað er til ráða?

Áhugaleysi barna verður ekki til í skólastofunni, áhugaleysi barna á námi endurspeglast því miður í áhugaleysi samfélagsins. Það hefur viðgengist of lengi að um nám, starf kennarans og skóla almennt sé ekki talað af mikilli virðingu. Foreldrar eru auðlind í skólastarfi og skólarnir mega gera stórátak í að opna dyr sínar fyrir þessum helstu bandamönnum sínum. Margir foreldrar taka virkan þátt og eru sannir bandamenn skólanna en við foreldrar ættum öll sem eitt að gera stórátak í að taka það hlutverk okkar alvarlega. Hefur þú talað neikvætt um skóla barnsins þíns og starfið sem þar fer fram? Hefur þú talað neikvætt um kennara barnsins þíns svo barnið heyri eða tekið undir neikvætt tal barnsins í garð skólans eða kennarans? Slík skilaboð auka ekki virðingu og áhuga barna á námi. Rýnum til gagns og tökum þátt í skólastarfinu á uppbyggilegum nótum. Ekki er hægt að undanskilja þátt fjölmiðla hér, áhugaleysi samfélagsins á menntamálum endurspeglast kannski hvað gleggst í fátæklegri fjölmiðlaumfjöllun um menntamál. Þörf er á krefjandi skólapólitískri umræðu víðar en í háskólasamfélaginu.

Bjart framundan

Nú hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi og gjarnan spurt: Hvað höfum við lært af kreppunni? Margar breytinganna eru neikvæðar; atvinnuleysi, tekjutap og erfið skuldastaða heimilanna. Þessi veruleiki blasir við okkur í dag en í ofanálag hefur ójöfnuður á Íslandi aukist stórlega undanfarin áratug. Hátekjufólki var hlíft við skattahækkunum en hoggið í lág- og millitekjufólk. Sú skuggalega þróun hefur valdið ójöfnuði og breikkað bilið milli ríkra og fátækra. Í samfélagi ójafnaðar fá sumir gæðamenntun – og aðrir ekki. Jöfnuður í íslensku skólakerfi er eitt hið dýrmætasta sem við eigum, og af þeirri braut megum við ekki snúa.
En jákvæðar breytingar eru margar. Nýleg og vönduð rannsókn sýnir fram á að börnum og unglingum líður betur í kreppunni, neysla vímugjafa dregst sífellt saman, bóklestur eykst og margt bendir til þess að árangur í ýmsum námsgreinum, m.a. læsi sé að aukast. Foreldrar taka ríkari þátt í skólastarfi og hafa rýmri tíma. Neysluhyggjan er á undanhaldi, eftirsókn eftir vindi minnkar.

Lærum við af reynslunni?

Mun okkur takast að byggja upp samfélag sem setur menntun og menningaruppeldi á oddinn, virðir gildi samstöðu og samhjálpar og styður við mikilvægustu stofnanir samfélagsins, skólana? Sjaldan er sú góða vísa of oft kveðin að ein sterkasta vísbendingin um árangur og líðan barna í skólum er áhugi og viðhorf foreldra til skólastarfsins, sem og gæði samverustunda barna og foreldra. Velferð barna er sameiginlegt verkefni fjölskyldna og skóla. Einungis í sameiningu getum við breytt samfélaginu til hins betra. Einungis í sameiningu getum við skapað börnunum okkar framúrskarandi menntun sem eykur alhliða árangur þeirra og gerir þau að hamingjusömum og sterkum manneskjum. Þegar kreppunni lýkur og við spyrjum hvort annað hvað við lærðum þá vona ég að við getum sagt með stolti að við settum börnin í forgang og að þau verði full sjálfstrausts og vel menntuð fyrir þá framtíð sem bíður þeirra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóvember 2009

Gegn atvinnuleysi í Reykjavík

Einn alvarlegasti fylgifiskur efnahagshrunsins sem varð á Íslandi síðasta haust er atvinnuleysið. Nú eru 14.780 þúsund einstaklingar atvinnulausir á landinu öllu, í Reykjavík voru í september 6.177 manns atvinnulausir, þar af höfðu 3.507 verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur. Spá borgarhagfræðings um atvinnuleysi á árinu 2010 gerir ráð fyrir 11,5% atvinnuleysi.
Atvinnuleysi er böl þeirra sem fyrir því verða og samfélagsins alls. Að ráða bug á því er erfitt viðfangsefni sem krefst samstillts átaks margra. Hlutverk stjórnvalda er vitanlega fyrst og fremst að skapa efnahagslegt jafnvægi svo atvinnulífið nái sér á strik á nýjan leik en ekki má gleyma að sinna þeim þúsundum sem eru án atvinnu í dag.

Sérstakur atvinnumálahópur hefur starfað á vettvangi borgarstjórnar og fylgst með þróun atvinnuleysis og undirrituð tók við stjórn hans í júní síðastliðnum. Stærsta verkefni hans er að miðla upplýsingum til borgarstjórnar um þróun atvinnuleysis og vinna leiðbeinandi viðmið við gerð fjárhagsáætlunar sem snúa að því að lágmarka áhrif atvinnuleysis á ólíka hópa samfélagsins.
Hversu mörg störf skapar hver króna?

Það er sérstaklega mikilvægt að borgarfulltrúar staldri við hverja einustu krónu sem fer til framkvæmda og verkefna á vegum borgarinnar og spyrji sig: Hversu mörg störf skapar hún? Í þessum anda eru ofangreind viðmið. Mikið verk hefur verið unnið af hálfu hins opinbera til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. En ekki síst hafa ótal verkefni sprottið upp síðastliðið ár á vettvangi stéttarfélaga, grasrótarsamtaka, háskólanna, símenntunar- og fræðsluaðila í formi námskeiða, virkniverkefna og ráðgjafar.
Mín skoðun er hins vegar sú að verk sé að vinna þegar kemur að samvinnu. Atvinnuleysið er af slíkri stærðargráðu á Íslandi að það er algjört forgangsmál að þétta raðirnar, stilla strengi og samhæfa aðgerðir.

Nú er fjármagn af skornum skammti. Þar af leiðandi ríður á að leita allra hugsanlegra leiða til að nýta sem best þá fjármuni, þekkingu, aðstöðu, og mannafla sem þegar er til staðar. Gæfuríkt spor væri að ríki og borg geri með sér nokkurs konar sáttmála um að nýta allar sínar bjargir, hvort sem um þekkingu, mannafla eða aðstöðu er að ræða.

Tangarsókn

Við höfum vítin til að varast þau. Nærtækasta dæmið er Finnland, en reynsla þeirra sýnir að sú kynslóð sem verst fór út úr efnahagslægðinni í Finnlandi á árunum ´91-´93 var unga kynslóðin sem festist í djúpum sporum atvinnuleysis í upphafi starfsferils síns. Afleiðingarnar voru skelfilegar fyrir stóran hóp fólks. Það er víðtæk skoðun fræðimanna sem rannsakað hafa samfélög sem glímt hafa við mikið atvinnuleysi að afleiðingar þess verða alvarlegri því yngra sem fólk er.

Glíman við atvinnuleysið er þess eðlis að blása þarf til tangarsóknar. Hverri krónu sem varið er til ráðgjafar, starfsþjálfunarúrræða og virkniverkefna er vel varið. Það er sameiginlegt verkefni samfélagsins alls að aðstoða atvinnuleitendur á Íslandi enda eru félagslegar afleiðingar atvinnuleysis margþættar. Veraldleg áhrif eru augljós og birtast í víðtækum efnahagslegum erfiðleikum. Andleg áhrif atvinnuleysis eru lágt sjálfsmat, kvíði og depurð. Einstaklingur sem ekki hefur atvinnu og nýtir sér ekki menntunarúrræði, ráðgjöf eða námskeið bíður þess oft ekki bætur. Það er fórnarkostnaður sem má fyrir alla muni aldrei komast á gjalddaga.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október 2009

Hugsjónin um Evrópu - eftir OS og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þingkonu.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð siðferðislegt hrun í Evrópu. Álfan var í sárum og ljóst var að hörmungar tveggja styrjalda máttu ekki endurtaka sig. Sjö árum eftir styrjaldarlok var Kol- og stálbandalag Evrópu stofnað árið 1951. Markmið þess var að útiloka að þjóðir Evrópu gætu vígbúist gegn hver annarri. Þá voru sex þjóðir aðilar að bandalaginu. Í dag eru 27 Evrópulönd aðilar að Evrópusambandinu og friður hefur ríkt meðal þeirra frá styrjaldarlokum.

Evrópusambandið á sér ekki hliðstæðu í öðrum ríkjasamböndum.Yfir 500 milljónir manna búa í Evrópusambandsríkjum, í 27 fullvalda ríkjum, sem hafa ákveðið að framselja fullveldi sitt í ákveðnum málum til sameiginlegra stofnana Evrópusambandsins. Helstu stofnanir þess eru: Leiðtogaráðið þar sem allir æðstu þjóðhöfðingjarnir sitja, ráðherraráðin, þar sem ráðherrar mismunandi málaflokka sitja, framkvæmdastjórnin þar sem hvert ríki á einn framkvæmdastjóra á ákveðnu sviði og svo þingið. Lýðræðisþróunin síðustu ár hefur styrkt mjög stöðu þingsins og raunar er það svo að allir stórir sáttmálar sem hafa verið samþykktir síðan árið 1986 hafa stóraukið vald þingsins.

Smáríki hafa hlutfallslega meira vægi atkvæða í ráðherraráðinu og rík hefð er fyrir því innan Evrópusambandsins að taka tillit til sjónarmiða allra aðildarlanda, stórra sem smárra. Það sem er þó mikilvægast í allri umræðu um Evrópusambandið og virkni þess er sú staðreynd að í 85% tilvika eru mál afgreidd án ágreinings. Þar skiptir miklu tilurð sambandsins sem friðarbandalags Evrópu, samhljómur og samstaða er ofar öllu, Evrópusambandið byggir á ,,consensus”, að ná samstöðu um mikilvæg mál.

Árangur samstarfs Evrópuþjóða

Á síðastliðnum 15 árum hafa 25.000 Íslendingar þegið styrki og verið þátttakendur í evrópsku samstarfi á sviðum mennta, vísinda, nýsköpunar og æskulýðsmála. Evrópusambandið er leiðandi í mennta- og nýsköpunarmálum þar sem opið samráð, skilgreind markmið og árangursmat eru lykilþættir.

Evrópusambandsríkin eru ótvíræðir leiðtogar í loftslagsmálum. Skiptir þar mestu órofa samstaða Evrópusambandsríkja við ákvarðanatökuborð heimsins, sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að fyrir árið 2020 náist 20% samdráttur í kolefnislosun og að 20% orkunnar kom frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland hefur alla burði til að verða leiðandi í þessu starfi og er auk þess eitt örfárra Evrópuríkja sem státar af víðfemri, ósnortinni náttúru.

Byggðastefna Evrópusambandsins er um margt nútímaleg og ólík því sem við þekkjum. Hún er hugsuð heildrænt, jafnt fyrir strjálbýli sem borgir, hún er ekki hugsuð á þeim núningsnótum að þéttbýli og dreifbýli séu keppinautar. Rúmlega þriðjungur fjárlaga Evrópusambandsins fer til byggðamála, til að jafna kjör íbúa álfunnar. Höfuðmarkmið byggðastefnunnar er samkeppnishæfni, atvinnusköpun og samstarf svæða. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en gott hefði verið að Íslendingar hefðu tamið sér góð vinnubrögð fyrr, nú þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram úr sér í nýbyggingum svo um munar. Samstarf sveitarfélaga er hér hinn mikli galdur og Íslendingar geta lært heilmikið í öguðum vinnubrögðum af öðrum Evrópuþjóðum.

Endurheimtum fullveldið

Deilur hafa staðið á Íslandi frá miðri síðustu öld um það grundvallarsjónarmið hvort landið eigi að vera opið fyrir alþjóðlegu samstarfi, eða lokað. Erfitt er að mótmæla því að alþjóðlegt samstarf hefur gert Íslandi gott og Íslendingar eru margtengdir inn í margvíslegt samstarf á ótal sviðum utanríkis-, mennta-, menningar-, umhverfis- og mannréttindamála og svona mætti lengi telja. Við þurfum á alþjóðlegu samstarfi að halda, hér eftir sem hingað til og það sem meira er um vert – við höfum heilmikið fram að færa á alþjóðavettvangi, í samstarfi norrænna þjóða og í samfélagi Evrópuþjóða. Enginn er eyland og rödd Íslands í alþjóðasamfélaginu verður að heyrast. Við erum þjóð meðal þjóða og tökum okkur alvarleg sem slík. Evrópusambandið er ekki fullkomið, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar, Alþingi Íslendinga eða Norðurlandaráð. En til þess að hafa áhrif á þróun mála í Evrópusambandinu, sem hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur mikil áhrif á nær alla þætti íslensks samfélags, verðum við að bera höfuðið hátt og taka þátt. Við erum nú þegar aðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og tökum því upp fjölda tilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög. En við höfum engin áhrif á gerð tilskipananna innan Evrópusambandsins því við stöndum fyrir utan. Við höfum því afsalað okkur fullveldi á ýmsum sviðum en með aðild að Evrópusambandinu værum við að endurheimta fullveldið.

Við höfnum því að Ísland standi áfram á hliðarlínunni. Spilum heldur sóknarleik og verum virkir þátttakendur í bandalagi sem var stofnað af Evrópuþjóðum með frið, menningu og lífsgæði borgaranna að leiðarljósi. Verum stolt þjóð meðal þjóða.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. september 2009

Forgangsröðun menntamála

Nú liggja fyrir forsendur fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurborg og myndin er dökk. Menntasvið, með starfsemi grunnskóla undir, þarf að skera niður um rúman milljarð. Fyrir ári síðan tókst starfsfólk skólanna á við niðurskurð af svipaðri stærðargráðu, af þrautseigju og fagmennsku. Það bíður okkar borgarfulltrúa afar erfitt verkefni í vinnu við næstu fjárhagsáætlun. Þá ríður á gott samstarf og skilning skólasamfélagsins og forgangsröðunin verður að vera sanngjörn.

Á síðasta borgarstjórnarfundi samþykkti meirihluti borgarstjórnar stofnun nýs einkarekins skólagjaldagrunnskóla, þann þriðja á tveimur árum. Nemendum í borginni fer þó fækkandi og margir grunnskólanna ekki full nýttir, það á jafnt við um almenna grunnskóla sem einkarekna. Þessi ákvörðun meirihluta borgarstjórnar er með öllu óskiljanleg og hefur vakið reiði í skólasamfélaginu. Það er sannarlega ekki forgangsmál nú að fjölga einkaskólum í borginni með tilheyrandi tugmilljóna aukakostnaði úr borgarsjóði, á sama tíma og þrengt er að almennum grunnskólum.

Nú ríður á að horfast í augu við staðreyndir, yfirvofandi niðurskurð sem verður þungur í skauti fyrir alla skóla borgarinnar. Nú er lag að hlúa að innviðunum, styðja við grunnskólana svo þeir geti sinnt faglegu skólastarfi sem best miðað við aðstæður.

Hægrimenn í borgarstjórn bera gjarnan fyrir sig að fjölbreytni í rekstrarformi ýti undir þróun og nýbreytni í skólastarfi. Það þykir mér hæpin staðhæfing. Ekki nema borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geti sannað það með óyggjandi hætti að eftirtektarverð og margverðlaunuð þróunar- og nýbreytniverkefni grunnskóla borgarinnar séu allt tilvist einkarekinna grunnskóla að þakka? Nei, þau bera vitni um fagmennsku, grósku og gæði reykvískra grunnskóla.. Borgarbúar geta treyst því að Samfylkingin forgangsraðar í þágu samfélagsins. Grunnskólinn er ein mikilvægasta stofnun þess og að honum ber að hlúa. Ég geri bókun reykvískra skólastjóra og kennara í menntaráði að mínum lokaorðum: ,,Almennir grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna innihaldsríkt og skapandi starf með nemendum sínum og eru fullfærir um að sinna skólagöngu allra barna í borginni - án sérstakrar gjaldtöku”.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. september 2009

Besta veganestið

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Með það í huga sting ég niður penna og í þetta sinn til að fjalla um læsi reykvískra barna og unglinga. Læsi er lykill að öllu námi og velferðar hvers og eins og læsi er aðgöngumiði að upplýsingum. Læsi er regnbogahugtak yfir lestur, lesskilning og læsi á alla mögulega miðla og mikilvægt að rugla því ekki saman við lestur, sem er einungis einn angi læsis. Hjá Reykjavíkurborg er unnið gott starf á sviði menntamála en ég held að það sé óhætt að segja að læsi barna í grunnskólum borgarinnar hefur fengið verðskuldaða athygli – sem skilað hefur árangri.

Félagsvísindastofnun skilaði á dögunum af sér skýrslu um stöðu lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum. Niðurstöður skýrslunnar eru mjög í takt við mína upplifun á síðustu þremur árum, eða síðan ég tók sæti í menntaráði Reykjavíkurborgar. Lítið er um formlega lestarkennslu á mið- og efsta stigi grunnskólans og námsgögn, kennsluaðferðir og matstæki vantar fyrir eldri nemendur grunnskólans. Eins telja skýrsluhöfundar að auka þurfi samstarf milli skóla, skólastjórnenda, sérfræðinga, skólaskrifstofa og menntastofnanna við að þróa aðferðir til lestrarkennslu og að nauðsynlegt sé að efla skilning kennara og skólastjóra á samþættingu lestrarkennslu við allar námsgreinar. Samþætting er hér enn og aftur hinn stóri galdur.

Á réttri leið

Við erum þó á réttri leið og sérstaklega er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi við Háskólann á Akureyri í formannstíð minni í menntaráði borgarinnar. Það leiddi til innleiðingu á svokölluðu ,,Byrjendalæsi" sem ellefu grunnskólar í Reykjavík taka nú þátt í. Það er skemmst frá því að segja að færni nemenda í lestri hefur aukist í öllum skólunum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu en nú þegar hafa nokkrir skólar til viðbótar lýst yfir áhuga á að taka upp Byrjendalæsið í lestrarkennslu yngstu árganganna næsta vetur. Eins er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi Menntasviðs Reykjavíkur og Rannsóknarstofu um mál, þroska og læsi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands en sá samningur gerir m.a. ráð fyrir fræðslu til handa foreldrum barna sem eru að hefja lestrarnám. Einnig felur samningurinn í sér fræðslu til grunnskólakennara og standa starfsmenn Rannsóknarstofunnar fyrir námskeiðum um lestrarkennslu byrjenda fyrir kennara í þremur grunnskólum í borginni í vetur. Með samningnum við rannsóknarstofuna vildi ég auka skilning og efla umræðu um þann galdur sem mál- og lesskilningur er og hversu mikilvægt er að efla hann á alla lund hjá börnum, unglingum og ungmennum á aldrinum 0-20 ára.

Umræðan hefur að mínu mati einskorðast of mikið við upphaf lestrarkennslu, hvort hún eigi að hefjast við fimm eða sex ára aldur. Það er aukaatriði ef okkur tekst að skapa lærdómssamfélag á báðum skólastigum sem einkennist af skapandi námsaðferðum þar sem börn fá stöðuga örvun í öllum þáttum tungumálsins, hvort sem það er lestur, lesskilningur, málskilningur, rím, ljóð, bókmenntir, hlustun, tjáning eða skapandi skrif. Leikskólar um alla borg státa af frábærum þróunarverkefnum tengd leik og ritmáli, þjóðsögum, rími og kveðskap og viðfangsefnin á leikskólastiginu eru óþrjótandi þegar kemur að örvun tungumálsins hjá ungum börnum.

Góð vísa

Samkvæmt PISA-könnun koma íslenskir nemendur ekki nægilega vel út í lesskilningi, en lesskilningur er algjört lykilatriði í námi barnanna okkar og möguleikum þeirra á að tileinka sér færni í námi, lífi og leik. Fyrir utan þá staðreynd að enginn einn þáttur örvar hin ólíkustu skilningarvit betur en þegar við leggjum höfuðið í bleyti lesskilningsins! Lestri er ekki náð þegar barn hefur lært að lesa, áfram þarf að vinna með læsið. Læsi upplýsinga, læsi á bókmenntir, læsi og túlkun, læsi og tjáningu – bæði á rituðu sem og mæltu máli.

Að lokum kemur önnur góð vísa sem sjaldan er of oft kveðin; niðurstöður rannsókna benda til þess að stuðningur foreldra við lestrarnám barna sinna skipti sköpum samhliða hágæða lestrarkennslu í skólanum. Því er brýnt að við foreldrar lesum fyrir börnin á hverjum degi, líka þegar þau eru orðin læs og að við hvetjum þau áfram í skapandi skrifum og tjáningu. Það er besta veganestið. Og bragð er að þá barnið finnur.

Greinin birtist í Mogganum 21. september 2009