29 febrúar 2008

Ég fékk svar...

...og það fyrir dagslok. 


Saklaust sagnfræðigrín snérist upp í hárómantískt bónorð.

En bóndi minn er stríðið kamelljón og heimsborgaralegur heimsmaður og svarið er því á ... lettnesku. 

Ég þakka ÞÍ fyrir frábæra limru og eins þeim fjölmörgu sem hafa hringt og essemmessað góðum kveðjum og óskum. 

Eftir drykklanga stund tókst mér að ráða gátuna sem í þessum tveimur orðum er falin. 

Gangi ykkur vel. Sérstaklega Gunna mági mínum sem ætlar ekki í bólið fyrr en hann ræður gátuna!

Hér er svarið: 

Protams, mīļumiņ!

Nú kvænist þú mér og hananú!

Það er óþarfi að spyrja í dag.

Karlmenn mega ekki segja nei.

Spurning um að sæta lagi?

28 febrúar 2008

Hundrað dagar félagshyggju

Hverju var komið í verk á hundrað dögum?

Ótal fræ sem við settum niður í jörðina eru sem betur fer í góðum höndum góðs starfsfólks borgarinnar og ávaxtanna mun gæta lengi.

Þegar ég sá þessa fínu grein Dags í dag rifjaðist upp fyrir mér þykki, glansbæklingurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn lét gera þegar hann fór frá völdum! Fólk hrökk við og hélt það væru komnar kosningar.

Sem hefði nú verið gott að blása til í vetur.

27 febrúar 2008

Til hamingju íslenskir rithöfundar

Þetta eru lygilega góðar fréttir.

Þessa messu hef ég sótt - hún er stór. Risastór. Þá var Ísland með bás í kjallaranum. Árið 2011 tökum við þetta með trompi.

ISG í NY

,,We should never speak of spending when it comes to putting government money into gender equality, we should always speak of investing."

Ræðu ISG á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna er að finna hér í heild sinni.

Mínir heimildarmenn í NY staðhæfa að þeir kraftmiklu vindar sem ISG ber með sér inn í karllægt samfélag utanríkisþjónustunnar á alþjóðavísu séu áþreifanlegir - og feykja mörgum um koll. Við erum heppin lítil þjóð að hafa slíkan boðbera kvenfrelsis og velferðar í stafni þegar kemur að utanríkismálum.

Svo talar hún ensku - það spillir ekki fyrir.

Lof og last í leikfimisal

Á hundrað dögum er hægt að gera ýmislegt. Nú í vikunni voru tveir stórir og stórskemmtilegir fundir í gamla leikfimisalnum í Miðbæjarskólanum, höfuðstöðvum Mennta- og Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar. Annar þeirra var samráðsfundur menntaráðs og foreldrasamtakanna SAMFOK, hinn var faglegur samráðsvettvangur leik- og grunnskólamála í borginni sem við nefndum Brú. Vísum þar í brúnna sem verður að vera heilleg, hvetjandi og ánægjuleg fyrir börn sem yfir hana trítla - úr leikskóla í grunnskóla.

Báðum þessum ,,vettvöngum" komum við á í meirihlutatíð Tjarnarkvartettsins. Áður var enginn formlegur samráðsvettvangur foreldra og fræðsluyfirvalda og eins og margir muna lét meirihluti #1 það verða sitt fyrsta verk að stía leik- og grunnskólamálum í sundur með því að búa til tvö ráð - og tvö svið. Þar með var samstarf, samfella, samstarfsverkefni og samráð milli skólastiganna og fagfólksins í verulegu uppnámi.

,,Brúnni" var ætlað að bæta úr því. Og ég er himinlifandi með viðtökurnar. Í dag var góð mæting í Brúna og hugljómandi fyrirlestrar frá tveimur kjarnakonum sem kynntu tvo ,,kenningaskóla" í ,,hegðunarfræðum". Annar skólinn er kenndur við Uppbyggingarstefnu og hefur kjörorðin ,,Uppeldi til ábyrgðar". Þar er unnið með uppbyggingu sjálfsaga og að börn axli sjálf ábyrgð á eigin lífi. Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla, kynnti Uppbyggingarstefnuna.

Hinn kenningaskólinn heitir ,,Stuðningur við jákvæða hegðun" (PBS) og fór Margrét Birna Þórarinsdóttir sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts yfir hvað einkennir þann skóla. Í stuttu máli sagt þá predikar hann að færni til góðrar hegðunar þarf að kenna, henni þarf að veita meiri athygli og það þarf að hrósa börnum fyrir góða hegðun; grípa þau góð.

Það sem þesir tveir kenningaskólar eiga sameiginlegt er að vinna með viðhorf og í raun klassísk siðferðisleg gildi eins og virðingu, umhyggju, tillitssemi og traust. Lærdómsríkar dæmisögur frá fimm grunnskóla- og leikskólakennurum kórónuðu uppbyggilegan og faglegan fund.

Lof dagsins: Áhugasamt, jákvætt og drífandi fagfólk sem helgar tíma sínum og starfsævi sinni börnunum okkar. Takk!
Last dagsins: Meirihluti menntaráðs sem sá sér ekki fært að mæta á þennan frábæra fund. Uss...

Jákvæð mismunun?

Bíðum nú aðeins hæg

Með fullri virðingu fyrir þingmönnum og þeirra mikilvæga starfi.

Þessi nýi óskalisti þingmanna fær mig til að hugsa um fjölda borgarfulltrúa - umræða sem blossað hefur upp af og til síðan ... tja... um miðja síðustu öld.

Anna Kristinsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi og skemmtilegur bloggari hefur oftsinnis tjáð sig um þetta í ræðu og riti.

Bæjarfulltrúar í Reykjavík voru fimmtán talsins árið 1908 - og viti menn, þeir eru líka fimmtán árið 2008.

Varla þarf að tíunda þær breytingar á borgarsamfélaginu, lýðræðisþróun, umfangi og umsýslu þessa stóra og litríka sveitarfélags frá árinu 1908.

Samt erum við ennþá fimmtán. Og aldrei höfum við krafist þess á opinberum vettvangi að við þyrftum aðstoðarmenn.

Femínískur fróðleikur: Bæjarfulltrúar voru 11 þar til árið 1908 að Kvennalisti undir forystu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur bauð fram og náði óvænt inn fjórum konum. Mikill kosningasigur sem minnst var með veglegum hætti 24. janúar síðastliðinn að áeggjan minni.

Til að ekki yrði gengið á hlut karlanna í bæjarstjórn var ákveðið að fjölga fulltrúum einfaldlega um fjóra...

Það heitir á femínísku; Jákvæð mismunun...

26 febrúar 2008

Hryssuhlátur

Hér sit ég í góðra kvenna hópi.

Og þar er stödd kona sem skrifaði síðastliðið haust ritgerð í H-skóla um möguleikann á nokkurn veginn þessu.

Skólasystkinin hlógu hrossahlátri.

En nú er þetta að finna í nýsamþykktum jafnréttislögum.

,,Félags- og tryggingamálaráðherra skal sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins."

Sá hlær best sem síðast hlær.

Jafnréttisfrumvarpið samþykkt!

Þetta eru gleðifréttir.

Það skiptir máli hverjir/ar stjórna.

25 febrúar 2008

Kommúnan

Sumir kunna einfaldlega að galdra fram gott leikhús. Vesturport-hópurinn er einn af þeim. Ég bauð tengdó, mömmu og skáldinu úr Austurbrún á Kommúnuna - og við hlógum öll dátt.

Ekki verra var að vita af því að nokkrir Vesturportarar voru sjálfir hippar - eða hippabörn. Tilfinningin ósvikin!

Sýningin iðaði af krafti - það er leikgleði til staðar hjá Vesturporti sem margir mættu reyna að tileinka sér. Hvort sem er í leikhúsum eða öðrum húsum.

Mexíkóski sjarmörinn er leikari á heimsmælikvarða en það er nú svo merkilegt með okkar alíslensku leikara - að þeir voru ekki síðri.

Verkið sjálft var nokkuð gott. Hippafarsi byggður á ,,Tilsammans" með nokkrum frábærum replikkum. Vesturport framleiðir slíka galdra í leikhúsi að verkið sjálft þarf ekki að vera meistarastykki.

Öfugt við Ráðhúsfarsann. Þar fer snilldarleikverk með öllum elementum góðs farsa (dyrnar opnast og lokast - inn kemur nýr borgarstjóri í hvert skipti - þið þekkið þetta...)

En frammistaða leikaranna í þeim farsa er oft á tíðum ... tja... brokkgeng.

Besta línan í Kommúnunni hraut af vörum persónu Atla Rafns - harðsvíraður hippi sem fékk birta eftir sig grein í Þjóðviljanum - með mynd.

Greinin hét: ,,Nokkrar leiðir til að losna við auðvaldið - á auðveldan hátt."

24 febrúar 2008

Íslenska konan & íslenska krónan

Konudagurinn rifjaði upp fyrir mér þessa grein.

Kannski munum við einn góðan veðurdag halda Krónudaginn hátíðlegan.
Og rifja upp minningar af gömlum gjaldmiðli í notalegri nostalgíu.

Baggalút í Seðlabankann

Andrés Magnússon, ekki bróðir Kjartans, heldur geðþekkur læknir var með athyglisverða hugvekju í Silfrinu áðan. Hann hefur kveðið sér hljóðs undanfarið og skrifað greinar um efnahagsmál og telur að gloríu útrásarinnar sjáist vart stað í hagtölum Seðlabanka. Hann telur að hin dýrðlega útrás séu orðin tóm, svo illa hefur hinn almenni launþegi komið út úr samskiptum sínum við íslensku bankana - okurvextir eru þar helsti sökudólgurinn.

Andrés segir að álögur á hinn almenna launamann séu svo gegndarlausar að hann efist stórlega um að viðskiptamennirnir okkar - og hin dýrðlega útrás - sé yfirleitt eitthvað sem við ættum að stæra okkur af.

Vextir á Íslandi eru 10 prósentustigum hærri en í t.d. Noregi.
Stýrivextir Seðlabanka eru svo háir að í öðrum löndum sæti ríkisstjórnin á neyðarfundum vegna þeirra.

Andrés telur að hver fjölskylda á Íslandi sé að greiða eina milljón af sínum ráðstöfunartekjum árlega, vegna óþarfra og óhóflegra vaxta. Ekki svo dýrðlegt. Hann telur að 2/3 fjölskyldna gætu greitt upp öll sín lán ef við værum í takti við löndin í kringum okkur hvað varðar álögur.

Ætli tregða Seðlabankastjóra til að viðurkenna að augu hans og fleiri verða að opnast fyrir Evrópusambandsaðild sé að sliga íslensk heimili? Er svona vont að viðurkenna að maður hafi rangt fyrir sér?

Fyrir ca. 16 árum var staða Seðlabankastjóra auglýst. Þó var á allra vitorði að alltaf var ráðið pólitískt í stöðu Seðlabankastjóra. Til að mótmæla þeim tvískinnungi skipulögðu MH-ingar aðgerð sem líklegast myndi flokkast sem ,,borgaraleg óhlýðni".

Vel flestir MH-ingar á fjárræðisaldri, þ.e.a.s. þeir sem skriðnir voru yfir 18 ára aldurinn, sóttu um stöðu Seðlabankastjóra. Rúmlega 300 umsóknir bárust. Og við fengum svarbréf þar sem tilkynnt var að því miður hefði umsækjandi ekki hlotið náð fyrir augum bankaráðsmanna.

Fólk hló hástöfum. ,,Hvað ætli krakkakjánar geti stýrt Seðlabankanum"?!

En ég er viss um að t.d. einn Baggalútsmeðlima, sópran úr MH-kórnum eða einhver úr leikfélagsstjórninni, hefði áttað sig fyrr á þeim mikilvægu skrefum sem íslensk þjóð - og peningamálastjórn - verður að stíga. Fyrr eða síðar.

22 febrúar 2008

Hyvä Päivä

Það er finnskur leiðbeinandi á yngstu deild Grænuborgar, deildinni sem dóttir mín dvelur á. Hún heitir Heli og er búin að kenna Margréti Maríu, tveggja ára, að bjóða góðan daginn á finnsku. Heli talar ljómandi góða íslensku eftir eins árs dvöl og ég vona sannarlega að hún verði sem lengst hjá okkur á Grænuborg.

En Margrét óskaði afa sínum til hamingju með daginn á íslensku í morgun. Hann var að leggja í hann norður með ömmu og skíðin í skottinu.

Amma situr þó í farþegasætinu.

Ég óska vini mínum Pétri tónmenntakennara í Austurbæjarskóla innilega til hamingju með tilnefninguna til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins! Hann er vel að henni kominn.

Tónmenntakennarar eru þyngdar sinnar virði í gulli í dag - enda landlægur skortur á þeim og allt of mörg börn sem verða af góðri tónmenntakennslu.

21 febrúar 2008

,,Endurkomuréttur"

Ég er að horfa á ÍNN. Yngvi Hrafn er með þrjú séntilmenni í settinu hjá sér. Hall Hallsson, Ármann Kr. Ólafsson og síðastan en ekki sístan - Jón Kristin Snæhólm, fyrrum aðstoðarmann Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóra.

Ég missti af byrjuninni en kom inn í þáttinn þar sem Jón Kristinn talaði um ,,endurkomurétt" pólitíkusa í íslenskum stjórnmálum.

Endurkomuréttur.

Að sjálfsögðu á allt gott fólk skilið að fá uppreista sína æru. Eins og Mona Sahlin sem sagði af sér ráðherradómi fyrir hundrað sinnum smávægilegri feilspor en Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson hefur stigið síðustu daga, vikur og mánuði.

Mona Sahlin er í dag farsæll foringi sænskra jafnaðarmanna. En hún dúsaði lengi í pólitískri útlegð og þurfti að sanna sig fyrir félögum sínum og sænsku þjóðinni á nýjan leik.

Auðvitað er endurkomuréttur sjálfsagt mál.

En til þess að ,,koma aftur" verður fólk að fara... No?

Koma eða fara. Þar er efinn. Burtséð frá því komu ánægjulega margir á Samfylkingarleiðsögn í Hafnarhúsinu í kvöld.

Og allir voru á þeirri skoðun að flugvöllurinn þyrfti að fara - svo þessar flottu tillögur næðu fram að ganga.

Skemmtilega helgur ljómi yfir kortinu af Reykjavík og formanni dómnefndar!

Was ist los?

Hvað ætli fundarlaunin hljóði upp á?

Kannski var kaðall í herberginu inn af borgarráði?

Síðustu forvöð

Í kvöld ætlar borgarmálaráð Samfó að bjóða upp á leiðsögn í Hafnarhúsinu um hugmyndirnar 136 sem bárust í verðlaunasamkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar. Dagur og Steve Christer ætla að lóðsa áhugasama um - ekki seinna vænna því sýningunni fer að ljúka.

Klukkan 19.30 - sjáumst

20 febrúar 2008

Strassbourg. Lífið er létt...lest.

Það er gott að hafa fyrrverandi borgarfulltrúa á Alþingi. Ég heyrði í Árna Þór í fréttum í kvöld þar sem hann sagði frá málaflutningi nokkurra þingmanna um léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu, Steinunn Valdís er með honum í tillögunni og fleiri góðir þingmenn. Það líst mér aldeilis vel á og ekki rímar það illa við málaflutning nokkurra borgarfulltrúa, sér í lagi nú þegar Vatnsmýrin er öll að galopnast með æsispennandi tækifærum fyrir Reykvíkinga.

Árni Þór vísaði til lestarkerfis Strassbourgar og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég og pabbi vorum þar á ferð árið 2003 - og féllum í stafi yfir straumlínulöguðum, snyrtilegum, nettum og þögulum léttlestum borgarinnar.

Í Strassbourg búa 252.000 manns. Léttlestarlínurnar eru fjórar og fjöldi lesta um 50, allar frekar litlar. Tékkiði á linknum hér að ofan, Tram 1 og Tram 2 geyma margar myndir.

Ja hérna

Notaleg tilfinning að skynja straum velviljans. Áfram veginn - hoppsahí!

19 febrúar 2008

Molar um Vatnsmýri

Ég þáði leiðsögn í Listasafni Reykjavíkur í gær og fékk brimandi flottan fyrirlestur hjá Guju Dögg Hauksdóttur um hugmyndirnar 136 sem sendar voru inn í keppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar.

Margt kom þar á óvart um Vatnsmýrina. Til dæmis það að hverfið í kringum Laugarneskirkju, Kirkjuteigar og fleiri teigar, er byggt upp af flutningshúsum sem áður voru í Vatnsmýrinni. Bróðir Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa býr í húsi við Kirkjuteig sem áður var á miðri flugbraut. Þar hafiði það.

Saga flugvallarins er í raun mjög stutt í Vatnsmýrinni, miðað við byggingar- og skipulagssögu borgarinnar. Það er gott að hafa í huga.

Einn skemmtilegasti varaborgarfulltrúi Reykvíkinga, Guðrún Ásmundsdóttir, var með í för í Listasafninu og hvíslaði að mér þessum ljóðlínum Sverris Kristjánssonar sagnfræðings (eftir minni, ég biðst forláts ef ekki er alveg rétt með farið...)

Ó, Reykjavík, Reykjavík.
Þú varst getin í innréttingum Skúla fógeta.
Agnarlítið örverpi í blautri kvos milli tveggja holta.

Verðlaunatillagan er frábær. Hún er ekki fullkomin en hún er frábær. Það vantar í hana samgöngulausnir en hún er eins og feitletruð Reykjavík. Hún tekur mið af þeim hverfum sem okkur líður vel í og hverfum sem við erum ánægð með - og ýkir þau. Skerjafjörður verður meiri Skerjafjörður, háskólasvæðið verður girnilegra háskólasvæði, byggðin er þétt, blönduð, fjölbreytt og lágreist. Minnir um margt á klassíska reykvíska byggingarhefð.

Ekkert er nýtt undir sólinni. Þegar ég gegndi formennsku í menntaráði mótuðum við framtíðarsýn fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal. Við leituðum fanga víða, m.a. í Vegvísi UNESCO um listfræðslu. Framsýnt og flott plagg sem rakið er fyrir stjórnmálamenn og fræðsluyfirvöld að nýta sér.

Kom ekki fram í áramótaávarpi forseta vor að nú væri lag fyrir íslenskt samfélag að
styrkja innviðina - líta okkur nær og nýta það sem til er?

Hugmyndasmiðir verðlaunatillögunnar þvertaka þó fyrir að vera íslenskir að nokkru leyti, þrátt fyrir þrálátan orðróm þar um. Neibbs, Skotar skulu þeir vera. Sem hönnuðu heilt hverfi sem gæti varla verið reykvískara. Er ekki tilveran dásamleg?

18 febrúar 2008

Sigur Rós í TMM


Ein ég sit og sauma mig í gegnum Tímarit Máls & menningar. Þar er undurmerkileg grein/greining á vonlensku Sigur Rósar - stöðu hennar í tíma og rúmi, skírskotun og tengingar við ýmis tákn, Dadaisma, strauma & framúrstefnur, Freud, súrrealisma og ósköp margt fleira. 

Í niðurlagi segir hinn bráðungi höfundur, Emil Hjörvar Petersen (fæddur 1984) að ,,vonlenska uppfylli skilyrði til að teljast framúrstefna, en þau eru annars vegar bylting í formi og inntaki og hins vegar andóf og viðbragð við samtímanum." 

Emil er bókmenntafræðingur og skáld, gaf út ljóðabókina Gárungagap í fyrra. 

Kannist þið við þetta?

tsjó so vó
sjórn tufæ
tso jú gó
óon tsuha
tsó jú tsó jí...

Þetta er lagið Von af plötunni Von sem kom út árið 1997. Hljómar óneitanlega betur en það ritast. Fleiri kannast við þetta lag sem er að finna á einni bestu plötu allra tíma; Ágætis byrjun.

séí tsé sjáu
séivá de ida
éleifidí
édíidí...

Jahérna. Nú skil ég af hverju Sigur Rósarmenn hafa ekki lagt sig í líma við að láta vonlensku texta sína fylgja hulstrunum. Frægasta vonlenskulagið er líklega ,,live" upptaka frá goðsagnakenndum útgáfutónleikum sem Sigur Rós hélt í Óperunni í júní 1999. (Bestu tónleikar allra tíma, á eftir lokatónleikum HAM!) Þetta lag er að finna á smáskífunni Svefn(g)englum.

úsæ útá
eslæ etá
slæá etá
eslæ sætá...

Ég veit ekki hvort djúpstæð greining af þessu tagi (sjón er sögu ríkari í TMM) sé meðlimum Sigur Rósar að skapi. Ég heyrði sögu vonlenskunnar sagða á þann hátt að Jónsi hefði byrjað að raula einhverja vitleysu af því þeir höfðu ekki haft tíma til að semja almennilega texta. 

Það er líklega ekki verri greining en nokkur önnur en ég mæli þó með grein Emils, fróðleg og skemmtileg sem hún er.

Að lokum: Fyrsta heimildin um vonlensku Sigur Rósar er eignuð Árna Matt. Jónsi tók þátt í Músíktilraunum Tónbæjar árið 1995 ásamt hljómsveitinni Bee Spiders. Árni Matt fjallaði um tilraunakvöldið og sagði um BS: 

,,Þar fór efnilegasta hljómsveit kvöldsins, sérstaklega ef sveitarmenn læra íslensku". 

Samkvæmt mínum traustustu heimildarmönnum hefur Árni Matt tekið vonlensku Sigur Rósar í sátt. 

Aðalbrandarinn í hljómsveitarbransanum undir lok síðustu aldar var að Sigur Rós myndi hreppa eitt aðalhnossið á Hlustendaverðlaunum FM 95.7: ,,Bestir á balli". 

Góðar og slæmar fréttir fyrir foreldra...

Góðu fréttirnar bárust í gær. Samningar náðust milli verkalýðshreyfinganna og atvinnulífsins.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar boðar nýja tíma. Miðað við viðbrögðin á vefþjóðviljanum hljótum við að vera á réttri leið. Skemmtilegast þykir mér uppnefnið ,,Krataskrattar", aftarlega í færslunni.

Ég hrópa fimmfalt húrra fyrir aukningu barnabótanna - gamalt baráttumál Samfylkingarinnar. Hagur barnafjölskyldna með lágar - og millitekjur vænkast verulega, aukning upp á tvo milljarða.

Verkalýðshreyfingin og ríkisstjórnin sýna í verki bæði ábyrgð og samhyggð. Þeir sem hafa lægstu launin bera mest úr býtum.

Verri fréttir berast úr leikskóla- og menntaráði borgarinnar. Þar á bæ er meirihlutinn kominn í keppnisgírinn og nú á að fikra sig neðar með skólaskyldualdurinn.

Að flýta nemendum í gegnum 8. -10. bekk er mikið kappsmál Sjálfstæðismanna í borginni.
Menntamálaráðherra var sérstaklega áhugasöm um styttingu framhaldsskólans.
Meirihlutinn í borgarstjórn vill fimm ára deildir við grunnskólana.

Þetta er nokkurs konar þríþraut. Af hverju læðist að mér sú hugsun að hagsmunir barnanna gleymist í þessu samhengi?

Ég er hreinlega ekki viss um að það sé nægilega mikil eftirspurn til að þessi hugmynd Sjálfstæðismanna gangi upp. Eða hvað segja viðhorfskannanir okkur ár eftir ár? Rúmlega 90% foreldra eru ánægðir með leikskólann og finnst hann koma til móts við börnin sín. Geri aðrir betur!

Það er löng hefð fyrir fimm ára bekkjum í Ísaksskóla og Landakotsskóla, frábært starf í gangi þar og eftir því sem ég kemst næst anna þeir skólar eftirspurn - þeir eru hið minnsta farnir að senda syni mínum námstilboð - varla gerðu þeir það ef biðlistinn næði til tunglsins.

,,Lítil börn með skólatöskur" er bók eftir Jóhönnu Einarsdóttur, prófessor í menntunarfræðum ungra barna við KHÍ. Lesið hana og sannfærist um að stofnun fimm ára deilda við grunnskóla borgarinnar er slæm hugmynd. Þar er rakin saga þess að þrátt fyrir góðan hug og heitstrengingar þess að námið fari fram í gegnum leik, er raunin sú að nám á forsendum grunnskóla verður alltaf bóknámsmiðað. Því ættum við frekar að sporna gegn - en ýta undir.

Í leikskólunum fer fram nám, á forsendum leiksins. Leikur er nám í sjálfu sér og því er best fyrirkomið á þeim vettvangi þar sem leikurinn er í forgrunni. Leyfum börnunum að vera börn sem lengst. Annað er móðgun við starfið í leikskólunum okkar - leikskólum sem vekja heimsathygli fyrir framúrstefnulegt, faglegt og skapandi starf.

Annað mál og sjálfsagðara er að mýkja og styrkja tengslin milli skólastiganna. Það er eilífðarverkefni sem mér er bæði ljúft og skylt að taka þátt í - hvenær sem og hvar sem er.

16 febrúar 2008

,,Endurveisla" og ESB

Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því að stefna ótrauð að inngöngu í Evrópusambandið - eða bakka þangað nauðug viljug. Ekki með stæl, ekki með töglin og hagldirnar, ekki með styrk smáþjóðar sem veit vel hvers hún er megnug í samfélagi þjóða.  

Sífellt fleiri átta sig. Nú síðast hinn ættprúði Bjarni Benediktsson sem lýsti þeirri skoðun sinni í Vikulokunum í dag að hann teldi að næstu tvö árin ættum við að einbeita okkur að því að ná jafnvægi í hagstjórninni á forsendum krónu. 

Sannarlega mikið verk framundan þar.

En að þeim tveimur árum liðnum taldi Bjarni að við hæfum umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu - fyrir alvöru. Og hann er alvöru maður. 

,,Það er engin skynsemi í því að einangra einn þátt í Evrópusambandsaðild. Við eigum að taka allt með í reikninginn."

Skynsamur var einnig sonur minn fjögurra ára sem tók þátt í að hlaða dósum og flöskum í skottið á bílnum. Sorpuferð á dagskrá og hann spurði íbygginn:

,,Á þetta allt að fara í endurveisluna?"

Aðild að ESB gæti einmitt verið okkar endurveisla. Og við verðum að mæta í þá veislu full sjálfstrausts og meðvituð um að hvað viljum fá út úr félagsskapnum.

15 febrúar 2008

Drepa skólar niður sköpunargáfu barna?


Sir Ken Robinson er ,,creativity expert" (þjál þýðing óskast!). Hann var ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í skólamálum og barðist fyrir uppstokkun vestræna skólakerfisins sem hann segir hannað til að mæta kröfum iðnbyltingarinnar. 21. öldin er öld hinna skapandi atvinnugreina og á fátt sameiginlegt með einsleitum kröfum iðnbyltingarinnar.

Hér flytur hann hugvekju um menntun - kraftmikla & kómíska. Styrkti mig í þeirri trú að stöðluð próf og pinnstíf aðalnámskrá stuðlar ekki endilega að hamingju, velferð og árangri barna í skóla. Öll börn eru fæddir listamenn, stærsta áskorun okkar sem mörkum stefnu í skólamálum er að byggja undir styrkleika hvers barns og leyfa sköpunargáfu þeirra að blómstra.

Tékkið á þessu, snilldar fyrirlestur!

NASA, HAM og skoðanakönnun meðal kvenna og ungra...

Það var fjör á opnun sýningar um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar í gær. Margt góðra manna og kvenna og skeggrætt um skipulagsmál, sem von er. Verðlaunatillagan er rammíslensk en af skoskum uppruna - einkennilegt en satt. Hún ber keim af þeim hverfum borgarinnar frá fyrri hluta síðustu aldar sem teljast ljómandi vel heppnuð, hverfum sem fólki líður vel í.

Eva María sjónvarpskona og áhugamanneskja um skipulagsmál hefur stundum lýst því svo að mannsskepnunni líði best í kringum byggingar sem samsvara hlutföllum mannslíkamans. Nokkurra hæða hús, mismunandi að gerð og áferð, sem standa nálægt götunni og þétt upp við hvert annað. Hún ætti að verða ánægð með verðlaunatillöguna og nú er lag að drífa sig í Listasafnið því tillögurnar hanga uppi í eina viku.

Ég hitti Björn Ólafs, skapara Bryggjuhverfisins, í gær og við ræddum framtíð NASA -félagsheimilis Reykjavíkur - og besta tónleikastað borgarinnar. Hann er prímus mótor í hönnun hótels við Ingólfstorg og sá klasi nær yfir NASA. Tónlistarmenn og tónleikahaldarar hafa verið uggandi um framtíð NASA en síðustu daga hefur formaður skipulagsráðs eytt þeim ótta. Enda kom í ljós í samtali okkar Björns að aldrei hefði verið gengið út frá öðru en því að NASA yrði áfram aðaltónleikastaður bæjarins. Það gladdi mig ósegjanlega.

Tónleikastaðurinn NASA hefur verið forsenda innflutnings erlendra hljómsveita og plötusnúða undanfarin ár. Mikil gróska tónlistar- og menningarlífs miðborgarinnar undanfarin ár er NASA að þakka.

Eftir að Tunglið við Lækjargötu brann árið 1998 lá klúbbamenningin að miklu leyti niðri í Reykjavík. NASA breytti því og hefur ekki skipti litlu máli í vexti Airwaves-hátíðarinnar.

Ég gerðist svo fræg að spila í Tunglinu með Ensími, líklega rétt fyrir brunann. En eftirminnilegustu tónleikarnir voru lokatónleikar HAM í Tunglinu 4. júní árið 1994.

Ein lítil uppljóstrun að lokum: Mér finnst Bryggjuhverfið hrikalega flott hverfi og ef ég væri ekki miðborgarpía á hjóli þá byggi ég þar.

Og ein skemmtileg frétt í blálokin. Krúttlegt að taka fram að þetta sé nú fyrst og fremst skoðun kvenna og ungs fólks...

14 febrúar 2008

102 Reykjavík - munaður í miðri borg

Það rímar ágætlega að mín fyrsta bloggfærsla á Eyjunni fjalli um framtíð Reykjavíkur - hvorki meira né minna.

Hún verður kynnt í Listasafni Reykjavíkur eftir fimmtán mínútur.

Úrslit alþjóðlegrar samkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrarinnar verða senn kunn.

Það örlar á frumsýningarstjörnum í maganum, þetta er stór dagur fyrir Reykjavík. Árið 2000 gekk ég um með barmmerki sem á var letrað: 102 - Reykjavík.
Og marseraði um með aktivistum sem vildu byggð í Vatnsmýri.

Reykjavíkurborg verður að þróast í átt til framtíðar. Ég óska þeim til hamingju sem staðið hafa fremst í stafninum og komið hafa umræðunni um byggð í Vatnsmýri upp úr hjólförunum. Dagur nokkur Eggertsson á sumpart meiri þátt í því en aðrir. Þetta er dagurinn hans.

Heimsþekkti hollenski arkitektinn Rem Koolhaas var í viðtali í Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum misserum og tjáði sig þar um Vatnsmýrina og möguleika Reykjavíkurborgar til framþróunar. Hann öfundar okkur af því að eiga land - í miðri borg - sem er svo gott sem ónumið.

,,Ég veit ekki um eina einustu borg sem býr við slíkan munað".

Er ekki framtíðin spennandi?